Gillí

Okkar ástkæra Gillí lést í morgun.

Hjartans þakkir fyrir vináttu og stuðning við hana.

Fjölskyldan


Fréttir af Gillí - 07 nóvember 2007

Komið þið sæl

Ég ákvað að setja hér inn smá færslu og reyna að upplýsa ykkur um ástand Gillíar.
Hún er ennþá mikið veik og því má segja að allt sé við það sama. 
Það var fundur í dag með krabbameinslækninum hennar og á honum var ákveðið að hún yrði sennilega færð yfir á krabbameinsdeild Landsspítalans á morgun, þetta var hennar eigin ósk.
Hún óskaði einnig eftir því að fá lyf til að hjálpa sér að sofa en það hefur gengið erfiðlega undanfarnar nætur og vonum við að hún nái nú að hvílast almennilega í kvöld og í nótt.

Hún veit af ykkur, það hafa verið lesin fyrir hana comment og einnig gerir hún sér grein fyrir að þið eruð öll að fylgjast með.  Ég vil biðja ykkur um að halda áfram að senda henni ykkar allra bestu hugsanir og bænir til að styrkja hana sem mest á þessum erfiðu dögum.

kveðja
Ragna mágkona


Fréttir af Gillí 3. nóv 2007

Eins og áður hefur komið fram þá er ástand Gíslínu alvarlegt en mikilvægt er fyrir ykkur að vita að hún er með meðvitund og ekki kvalin. Í dag var fjölskyldufundur þar sem mættu nánustu aðstandendur til að ræða við lækninn og sjúkrahúsprestinn um ástand Gillíar. Þetta var fróðlegur fundur og allir sáttir við að vita allt sem vita þarf og geta með því verið áframhaldandi stuðningur við Gillí. Starfsfólk líknardeildarinnar mælti með að aðeins nánustu aðstandendur skyldu koma í heimsókn og einnig var sett upp vaktaplan til að tryggja það að Gillí sé aldrei alein, sé alltaf með einhvern náinn hjá sér.
Sjúkrahúspresturinn mælti með því að fólk kæmi áleiðis kortum og bréfum með fallegum kveðjum til Gillíar með því að láta einhvern úr fjölskyldunni hafa þau eða skilja eftir við móttökuna á líknardeildinni.

Ragna mágkona og Rósa systir

 


Góðir blogg-gestir

Gíslína liggur frekar þungt haldin á líknardeildinni þessa dagana. Hún er því ekki til viðtals, hvorki til heimsókna né hringinga.

Hlýjar hugsanir og fyrirbænir eru vel þegnar.

.

Rósa systir og Ragna mágkona

.


Gillí bað mig um að segja ykkur......

Gillí sendi mér sms í morgun og bað mig koma upplýsingum á framfæri.

Hún er á leiðinni á Landspítalann í aftöppun. Það á að stinga á lungun tappa af og síðan á að reyna að setja dren í kviðinn. Hún getur af þeim sökum ekki tekið á móti heimsóknum í dag né tekið við símtölum. Að auki er raddleysið farið að há henni og veitir því ekki af hvíldinni.

Bestu kveðjur til ykkar allra
Ragna Mágkona


Við voginn....

Þúsund þakkir enn og aftur fyrir að hugsa til mín og senda kveðjur. Þið eruð yndisleg Smile .

Ég er flutt í Kópavoginn nánar tiltekið við Arnarnesvoginn í svítu með verönd, útsýni yfir sjóinn, flatskjá, lazy boy og fullri aðhlynningu, daga sem nætur. Hvíldarinnlögn í lágmark tvær vikur og eftir það fer ég heim eða.....verð áfram af einhverjum orsökum...en þangað til ætla ég að nota tíminn í að hvíla mig um leið og ég reyni að losna við blóðtappann og ná upp einhverju þreki. Þessi staður er mjög heimilislegur og líkari hóteli en sjúkrastofnun ef undanskildir eru hjólastólarnir og fólk í hvítum sloppum.

Ég er orkulaus og berst ennþá við vökvasöfnun bæði í kvið og brjóstholi. Álagið á lungun eru mikil svo ég er andstutt, hósta mikið til að losna við slím og kyngingin er oft til vandræða. Verkir eru minni því ég fékk verkjastillidælu á brjóskassan og núna dælir hún morfíni eftir uppskrift nema þegar ég rek mig „óvart" í takkann og gef sjálfri mér aukaskammt.

Kári fer á Staðarfell í fyrramálið í 28 daga. Hann er búinn að eiga góða helgi í bænum, tók dætur sínar í heimsókn og kíkti á soninn auk þess sem hann eyddi tíma með krökkum sem hann kynntist á Vogi.  Hann hlakkar til að komast út í sveit og klára meðferðina. Vonandi fær hann styrk og vilja til þess, mér sýnist hann ansi einbeittur á svellinu og gott að vita af honum á vísum stað.

Núna þarf hann bara að finna íbúð í bænum í stað þess að kúldrast einn upp í Mosó en það er seinni tíma vandamál.

Þarf að hætta núna og fara að halla mér.

Skrifa meira eins fljótt og ég get.....love you all Heart


Heim í heiðardalinn

 

Kæru bloggvinir og aðrir vinir og vandamenn, takk innilega fyrir allar góðu kveðjurnar til mín, þið eruð ómetanlegur stuðningsher Smile.

Komin heim af spítalanum eftir fjögurra daga dvöl. Líður eins og blöðru í barnaafmæli sem búið er að stinga gat á. Sit hér með tölvuna og súrefnisgræju í nefinu og frammi malar nýjasta húsgagnið (súrefnisvélin) eins og her af ánægðum köttum.  Ég er móð og slöpp og hef enga orku en vonandi kemur hún smátt og smátt. Ég verð þó að passa að eyða ekki meiru en ég afla því til að halda mér á floti verð ég að vera duglega að hvíla mig.

Ég fór á spítalann á sunnudaginn til að láta athuga hvort ég væri með blóðtappa í hægra fæti neðan ökkla. Í staðin fundu þeir stóran blóðtappa í æð í lunganu. Meðan ég lá á bráðamóttökunni á sunnudaginn hef ég sennilega skilað vatni í lítratali því á mánudaginn var allur bjúgur horfinn af fótunum.  Þá varð mér ljóst að ég hefði sennilega ofgert mér um helgina og þyrfti augljóslega að draga saman seglin til að halda bjúgnum í burtu.

Svo var tappað af mér slatta af vökva, 1,1 úr bakinu og 1,6 úr kviðnum, ég mjókkaði því um miðjuna um nokkra sentímetra og gat loksins setið og hreyft mig nokkuð eðlilega. Þegar þessu var lokið tóku að sjálfsögðu við ný vandamál, það er ekki slegið slöku við hjá heilsuskrattanum sem reynir hvað hann getur að fella mig í glímunni. Þvagið tók upp á að pota í mig með sviða og tilheyrandi og garnirnar hættu að hreyfa sig. Núna er ég komin á leysandi og vona að nýja þenslan losni sem fyrst.

Agnes læknir minnti mig á að fara rólega, eiginlega ætti að pakka mér inn í bómull og ég og aðrir þyrftu að átta sig á að ég væri mikið veik. Ég held að þarna hafi ég áttað mig á að núna verð ég að fara að sinna mér, þiggja hjálp og ganga ekki fram af mér í því að reyna að lifa eins og fullfrískur einstaklingur. Þetta þýðir ekki að ég ætli að leggjast í rúmið og lognast útaf heldur þarf ég að losa mig fljótt og vel við ýmis verkefni sem liggja á mér og ég hef hingað til sinnt en ætti í raun að vera búin að koma af mér. 

Þrifakonan kom á mánudaginn og Palli sýndi henni aðstæður og svo fór hann út. Hún var byrjuð að taka allt úr gluggunum til að þurrka af áður en hann fór og ég verð að viðurkenna að það geri ég nú ekki einu sinni sjálf, lyfti þessu drasli bara upp og tuskuna undir. Þegar hann kom heim var hann ekki viss um hversu vel þær hefðu þrifið því sama lóin var fyrir framan eldhúsdyrnar og þegar hann fór. Ég bað hann að kíkja undir rúmið, þar lægju aðalsönnunargögnin, jú mikið rétt, það var engin ló undir rúminu og búið að skipta á því og þrífa klósettin. Mikið vona ég að ég fái beiðni um þrif einu sinni í viku samþykkta.

Ég hafði reyndar góðan félagsskap á spítalanum því Gunna Axels vinkona mín lá þar á einkastofu og beið eftir að byrja í kröftugri lyfjameðferð til að lækna hennar sjaldgæfa....en sem betur fer læknanlega....afbrigði af Hodskinseitlakrabbameini. Ég óska að hún muni komast í gegnum næstu daga og vikur af sinni alkunnu glaðværð og baráttuvilja og nái sér að fullu. Ég mun fylgjast með henni og líta til hennar þegar ég get.

Kári er að koma heim af Vogi á morgun, alsæll með vistina og fer svo í framhaldsmeðferð á Staðarfell á þriðjudaginn. Þar verður hann í 28 daga. Hann kemur örugglega oft í heimsókn til mín um helgina og þá kannski líka með litlu krílin.

Ég læt þetta gott heita í bili og vil enda á því að þakka öllu starfsfólkinu á bráðamóttökunni og blóðlækningadeildinni fyrir að vera samviskusamt, klárt, duglegt og yndislegt fólk. Að við skulum ekki sjá okkur sóma í því að borga þessu fólki almennileg laun ætti ekki að viðgangast stundinni lengur. Ég veit ekki hvar ég væri ef þeirra nyti ekki við.....daga og nætur.

 


Fréttir frá Gillí

Gillí bað mig um að koma því á framfæri að hún er í "klössun" niðri á spítala og er væntanleg aftur í bloggheima á morgun.

Hún var lögð inn síðastliðinn sunnudag með blóðtappa í vinstra lunga og er að jafna sig á því.

kv. Ragna Mágkona


Stóla í Laugardagslögin

Þetta er ekki auglýsing.......en ég mæli með:   Speltbrauðinu hjá Oddi bakara. Besta brauðið í bænum.

Mikið væri gott ef neytendamál á Íslandi væru jafn langt á veg komin og opnunartími verslana. Sá auglýsingu í sjónvarpinu frá Húsasmiðjunni sem auglýsti að það væri opið upp á Höfða alla daga til sjö um kvöldið.  Ég hryllti mig yfir þessu og spurði Pál hver í ósköpunum nennti að vinna til sjö á laugardags- og sunnudagskvöldum. Það þykir sjálfsagt að hafa allt opið endalaust, verslanir jafnt sem bari en ef þú þarft að skila eða skipta vörum eru reglurnar jafn margar og búðirnar.....og allar jafn slæmar fyrir viðskiptavininn.

Ég get tekið dæmi um raftæki sem keypt er í júní, tveimur mánuðum seinna bilar tækið og maður fer og kvartar, það er reynt að gera við og ef það tekst ekki þá færðu nýtt tæki....en færðu nýja nótu...ó nei...sú gamla gildir. Þar með styttist ábyrgðartíminn sem þessu nemur.  Ég keypti mp3 spilara í Aberdeen á sínum tíma sem bilaði og ég sendi hann út til Rögnu mágkonu sem fór með hann í búðina. Maðurinn tók gamla spilarann, spurði einskis, náði í annan spilara, prentaði út nýja nótu dagsetta þennan dag og lét Rögnu hafa. Svona á að afgreiða hlutina, ekkert kjaftæði og klúður. 

Kláraði gærdaginn upp í sófa með tvöfaldan hægri fótinn fyrir neðan sköflung af bjúg, hafði löppina hátt upp á kodda og vonaði að drullan læki úr löppinni svo ég  kæmist kannski í inniskóna. Í staðin fyrir það fékk ég algjört tilfinningaleysi í löppina af röngu blóðrennsli svo ég settist upp og fór að horfa á sjónvarpið. Sá í fyrsta skipti þáttinn „Laugardagslögin", fannst hann ágætur, Gísli Einars hinn borgneski augljóslega ekki á réttum stað á réttum tíma en Ragnhildur flott að vanda. Lögin voru athyglisverð, mjög ólík og ég bíð spennt eftir næstu þáttum ef þessi keppni ætlar að skila okkur svona miklu af nýjum lögum þar sem höfundarnir eru ekki eingöngu að semja fyrir Júróvisjón. Ég persónulega sendi inn eitt sms á Magnús Sigmundsson, fannst það lag langbest, Andrea flott með nýju tennurnar og Barði með hræðilega sauðkræklingasuðu sem fyrirgefst auðvitað ekki neinum að semja nema kónginum sjálfum honum Geirmundi.

Vil svo endilega að sjónvarpið færi hinum þremur frænku álitsgjöfum koll til að tilla sér á meðan á útsendingu stendur, þau jöguðust þarna fram og til baka fyrir aftan borðið eins og illa kvalin hjörð af harðlífi og bakverkjum.

Næstu tvo tímana ætla ég að nota til að bókhaldsstarfa. Restin af deginum er óljós enda ekki margt hægt að fara með skólausan klumpufót.  Ég þarf að tala við Karítas-konur í dag út af þessu og fá fleiri sprautur fyrir doktor Pál. 


Bútar úr daglegu lífi

Halló aftur.  Mamma er búin að hringja og kvarta yfir bloggleysi, hún hefur alltaf áhyggjur ef það koma ekki reglulega blogg en eins og ég sagði við hana þá hef ég ekki mátt vera að því að skrifa. Bæti úr því hér með.

Vil byrja á því að biðja ykkur um að fara inn á eftirfarandi slóð http://asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/  finna þar í næst nýjasta bloggi UNDIRSKRIFTALISTA og skrá ykkur á hann. Ásdís ætlar að safna 1000 undirskriftum „fjöryrkja" eins og hún segir sjálf, fyrir sunnudaginn og senda hann til yfirvalda í þessu landi. Ég vissi því miður ekki af þessum lista fyrr en í gær en ég vona að ég geti skilað henni nokkrum undirskriftum. Eins og við höfum áður rætt eru þetta brýn málefni og nauðsynlegt að halda þeim vakandi með þrýstingi á stjórnvöld.

Dagurinn í gær var minn besti í margar vikur, næstum verkjalaus og fær í flestan sjó....eða þannig.  Kári hringdi klukkan 9 um morguninn og það er eins og í hvert skipti sem hann hringir fái ég aukna orku. Hann er ennþá jafn ánægður þarna og hann hringdi svo aftur í gærkvöldi og bað mig að senda sér hreinar náttbuxur, boli og slopp. Ég reddaði þessu í dag, fór með til hans ný föt og hitti þá óvænt Gunna vin minn nuddara sem er að vinna þarna. Ég hef ekki séð Gunna í nokkur ár núna en var mjög glöð að heyra að hann vinnur þarna því þar veit ég að Kári á góðan að.

Náði að rúnta aðeins um bæinn, sækja lyf og kaupa mér lampa í Tekk húsinu. Þegar Palli kom heim þustum við í verslunarferð í Hagkaup í Kringlunni því við vorum búin að bjóða bræðrum mínum og mágkonum, frænda mínum og konunni hans í mat. Maturinn var óhefðbundinn, borðið var drekkhlaðið af ýmiskonar kræsingum sem við höfum sankað að okkur á ferðalögum okkar um Evrópu síðan í mars. Spænsk skinka, fullt af allskonar fuglapaté, ekta frönsk foie gra, ýmiskonar ostar, brauð, kex, sultur og ávextir. Svo var smávegis af ofnsteiktum kjúkling í kókos- og engifer sósu. Við byrjuðum á foie gra með brauði og rifsberjasultu og smá klettasalati og með þessu opnuðum við ....alvöru kampavínsflösku...sem kjallarabúarnir færðu okkur þegar þau komu heim frá útlöndum með börnin sín þrjú. Þetta var heilög stund og við máttum ekki byrja á þessu fyrr en Palli hafði útskýrt hversu fáránlega dýr matur þetta væri, pínulítill biti í Hagkaup kostaði 2700 krónur. Veit ekki hvort bragðið batnaði við þessar upplýsingar en gott var þetta.....nammi.

Svo var spjallað og allir farnir heim fyrir miðnætti.  En eins og við var að búast var Adam ekki lengi í Paradís því í dag er ég búin að vera mjög illa haldin af rosalegum bjúg á fótunum, sérstaklega hægri fæti fyrir neðan ökkla. Ég á því ekki auðvelt með að ganga mikið svo ég komst ekki í Kolaportið og rétt náði að fara í Kringluna að versla fyrir Kára. Ég ætlaði að biðja pabba hans að gera þetta en þau eru í Búdapest og Ásgeir í Madríd svo ég fór bara sjálf. Eftir skutlið á Vog heimsótti ég Þóru og stelpurnar og þær voru allar mjög hressar. Dásamlegar dúllur þessar stelpuskjátur.

Karítas konur hringdu í gærkvöldi og buðu mér innlögn á líknardeildina í dag. Ég var ekki til í það enda eins og ég sagði henni þá væri þetta búinn að vera besti dagurinn minn í margar vikur, ég mátti ekkert vera að því að fara núna. Umsókninni minni verður því haldið opinni. Ég hef trú á að ég fari inn fljótlega og prófi að búa þarna í eina til tvær vikur. Ég er smátt og smátt að átta mig á því að ég er eiginlega meira og minna ónýt. Ég get varla risið upp af sjálfsdáðum ef ég beygi mig og þessi vökvasöfnun og bjúgur er hreyfihamlandi og veldur verkjum. Það hefur skipt sköpum að geta fengið sprauturnar hjá Páli þegar á þarf að halda og þurfa ekki að bíða eftir hjálp eða bögglast niður á bráðamóttöku. Ég hef verið næstum verkjalaus í dag eða síðan ég fékk sprautu klukkan 9 í morgun. 

Á mánudaginn kemur kona að þrífa hjá mér, ég á von á að þetta verði undarleg upplifun, að hafa ókunna konu hér að skúra og skipta á rúmum, veit ekki hvort ég á að fara að heiman eða skríða út í horn og láta fara lítið fyrir mér. Hún getur verið til hálf fimm ef á þarf að halda en ég vona að það sé ekki svo skítugt hérna að hún þurfi næstum 4 tíma til að skúra, skrúbba og bóna.

Og eins og venjulega er þetta orðið alltof langt svo ég hætti hér.

Vona að þið munið eftir að skrifa undir hjá Ásdísi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband