Stóla í Laugardagslögin

Þetta er ekki auglýsing.......en ég mæli með:   Speltbrauðinu hjá Oddi bakara. Besta brauðið í bænum.

Mikið væri gott ef neytendamál á Íslandi væru jafn langt á veg komin og opnunartími verslana. Sá auglýsingu í sjónvarpinu frá Húsasmiðjunni sem auglýsti að það væri opið upp á Höfða alla daga til sjö um kvöldið.  Ég hryllti mig yfir þessu og spurði Pál hver í ósköpunum nennti að vinna til sjö á laugardags- og sunnudagskvöldum. Það þykir sjálfsagt að hafa allt opið endalaust, verslanir jafnt sem bari en ef þú þarft að skila eða skipta vörum eru reglurnar jafn margar og búðirnar.....og allar jafn slæmar fyrir viðskiptavininn.

Ég get tekið dæmi um raftæki sem keypt er í júní, tveimur mánuðum seinna bilar tækið og maður fer og kvartar, það er reynt að gera við og ef það tekst ekki þá færðu nýtt tæki....en færðu nýja nótu...ó nei...sú gamla gildir. Þar með styttist ábyrgðartíminn sem þessu nemur.  Ég keypti mp3 spilara í Aberdeen á sínum tíma sem bilaði og ég sendi hann út til Rögnu mágkonu sem fór með hann í búðina. Maðurinn tók gamla spilarann, spurði einskis, náði í annan spilara, prentaði út nýja nótu dagsetta þennan dag og lét Rögnu hafa. Svona á að afgreiða hlutina, ekkert kjaftæði og klúður. 

Kláraði gærdaginn upp í sófa með tvöfaldan hægri fótinn fyrir neðan sköflung af bjúg, hafði löppina hátt upp á kodda og vonaði að drullan læki úr löppinni svo ég  kæmist kannski í inniskóna. Í staðin fyrir það fékk ég algjört tilfinningaleysi í löppina af röngu blóðrennsli svo ég settist upp og fór að horfa á sjónvarpið. Sá í fyrsta skipti þáttinn „Laugardagslögin", fannst hann ágætur, Gísli Einars hinn borgneski augljóslega ekki á réttum stað á réttum tíma en Ragnhildur flott að vanda. Lögin voru athyglisverð, mjög ólík og ég bíð spennt eftir næstu þáttum ef þessi keppni ætlar að skila okkur svona miklu af nýjum lögum þar sem höfundarnir eru ekki eingöngu að semja fyrir Júróvisjón. Ég persónulega sendi inn eitt sms á Magnús Sigmundsson, fannst það lag langbest, Andrea flott með nýju tennurnar og Barði með hræðilega sauðkræklingasuðu sem fyrirgefst auðvitað ekki neinum að semja nema kónginum sjálfum honum Geirmundi.

Vil svo endilega að sjónvarpið færi hinum þremur frænku álitsgjöfum koll til að tilla sér á meðan á útsendingu stendur, þau jöguðust þarna fram og til baka fyrir aftan borðið eins og illa kvalin hjörð af harðlífi og bakverkjum.

Næstu tvo tímana ætla ég að nota til að bókhaldsstarfa. Restin af deginum er óljós enda ekki margt hægt að fara með skólausan klumpufót.  Ég þarf að tala við Karítas-konur í dag út af þessu og fá fleiri sprautur fyrir doktor Pál. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Opnunartími verslana er komin út í öfgar. Ég ek oft á sunnudögum framhjá Fjarðarkaupum og brosi þegar ég sé að þar er lokað á sunnudögum. Þar er sama starfsfólkið áratugum saman og því er ekki þrælað miskunnarlaust áfram.

Vesen er á þessum fæti ! Ertu nokkuð búin að prófa að hvessa á hann augun ? Það dugði á afruglarann hjá mér um daginn (ég allaveganna sagði það á blogginu mínu )

Hafðu það gott í bókhaldinu.

Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 12:12

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég sá bara fyrsta lagið og fannst það alveg flatt... og fyrst þú gafst því lagi stigið þitt, sýnist mér að ég hafi af engu misst.  

Vonandi áttu góðan sunnudag mín kæra. 

Anna Einarsdóttir, 21.10.2007 kl. 13:36

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Eins og venjulega erum við sjálfum okkur ósamkvæm, kvörtum yfir háu vöruverði en viljum geta verslað allan sólarhringinn.

Eigðu góðan dag.

Kristjana Bjarnadóttir, 21.10.2007 kl. 14:00

4 identicon

Tek undir með Ragnheiði sem skrifar hér ofar. Ég ELSKA Fjarðarkaup! Fór oft þangað þegar ég bjó í Garðabænum, bara til að rölta og skoða. Umm... yndislegt. Hljómar kannski kjánalega en... 

Talandi um að skila vörum og skipta. Hér er það sjaldan vesen, svo lengi sem þú ert með kvittunina með. Þú getur meira að segja rölt inn í H&M eða aðrar fataverslanir upp til 14 dögum eftir kaupsdag og skilað vöru og fengið peninginn til baka! Já, enga inneignarnótu, heldur beinharðan peninginn.  

Danmörk er líka yndisleg ;)

Knús á línuna,
Addý paddý. 

Addý (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 17:30

5 identicon

Kveðja frá okkur á Melnum til ykkar allra

Sesselja Bj. (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband