Heim í heiðardalinn

 

Kæru bloggvinir og aðrir vinir og vandamenn, takk innilega fyrir allar góðu kveðjurnar til mín, þið eruð ómetanlegur stuðningsher Smile.

Komin heim af spítalanum eftir fjögurra daga dvöl. Líður eins og blöðru í barnaafmæli sem búið er að stinga gat á. Sit hér með tölvuna og súrefnisgræju í nefinu og frammi malar nýjasta húsgagnið (súrefnisvélin) eins og her af ánægðum köttum.  Ég er móð og slöpp og hef enga orku en vonandi kemur hún smátt og smátt. Ég verð þó að passa að eyða ekki meiru en ég afla því til að halda mér á floti verð ég að vera duglega að hvíla mig.

Ég fór á spítalann á sunnudaginn til að láta athuga hvort ég væri með blóðtappa í hægra fæti neðan ökkla. Í staðin fundu þeir stóran blóðtappa í æð í lunganu. Meðan ég lá á bráðamóttökunni á sunnudaginn hef ég sennilega skilað vatni í lítratali því á mánudaginn var allur bjúgur horfinn af fótunum.  Þá varð mér ljóst að ég hefði sennilega ofgert mér um helgina og þyrfti augljóslega að draga saman seglin til að halda bjúgnum í burtu.

Svo var tappað af mér slatta af vökva, 1,1 úr bakinu og 1,6 úr kviðnum, ég mjókkaði því um miðjuna um nokkra sentímetra og gat loksins setið og hreyft mig nokkuð eðlilega. Þegar þessu var lokið tóku að sjálfsögðu við ný vandamál, það er ekki slegið slöku við hjá heilsuskrattanum sem reynir hvað hann getur að fella mig í glímunni. Þvagið tók upp á að pota í mig með sviða og tilheyrandi og garnirnar hættu að hreyfa sig. Núna er ég komin á leysandi og vona að nýja þenslan losni sem fyrst.

Agnes læknir minnti mig á að fara rólega, eiginlega ætti að pakka mér inn í bómull og ég og aðrir þyrftu að átta sig á að ég væri mikið veik. Ég held að þarna hafi ég áttað mig á að núna verð ég að fara að sinna mér, þiggja hjálp og ganga ekki fram af mér í því að reyna að lifa eins og fullfrískur einstaklingur. Þetta þýðir ekki að ég ætli að leggjast í rúmið og lognast útaf heldur þarf ég að losa mig fljótt og vel við ýmis verkefni sem liggja á mér og ég hef hingað til sinnt en ætti í raun að vera búin að koma af mér. 

Þrifakonan kom á mánudaginn og Palli sýndi henni aðstæður og svo fór hann út. Hún var byrjuð að taka allt úr gluggunum til að þurrka af áður en hann fór og ég verð að viðurkenna að það geri ég nú ekki einu sinni sjálf, lyfti þessu drasli bara upp og tuskuna undir. Þegar hann kom heim var hann ekki viss um hversu vel þær hefðu þrifið því sama lóin var fyrir framan eldhúsdyrnar og þegar hann fór. Ég bað hann að kíkja undir rúmið, þar lægju aðalsönnunargögnin, jú mikið rétt, það var engin ló undir rúminu og búið að skipta á því og þrífa klósettin. Mikið vona ég að ég fái beiðni um þrif einu sinni í viku samþykkta.

Ég hafði reyndar góðan félagsskap á spítalanum því Gunna Axels vinkona mín lá þar á einkastofu og beið eftir að byrja í kröftugri lyfjameðferð til að lækna hennar sjaldgæfa....en sem betur fer læknanlega....afbrigði af Hodskinseitlakrabbameini. Ég óska að hún muni komast í gegnum næstu daga og vikur af sinni alkunnu glaðværð og baráttuvilja og nái sér að fullu. Ég mun fylgjast með henni og líta til hennar þegar ég get.

Kári er að koma heim af Vogi á morgun, alsæll með vistina og fer svo í framhaldsmeðferð á Staðarfell á þriðjudaginn. Þar verður hann í 28 daga. Hann kemur örugglega oft í heimsókn til mín um helgina og þá kannski líka með litlu krílin.

Ég læt þetta gott heita í bili og vil enda á því að þakka öllu starfsfólkinu á bráðamóttökunni og blóðlækningadeildinni fyrir að vera samviskusamt, klárt, duglegt og yndislegt fólk. Að við skulum ekki sjá okkur sóma í því að borga þessu fólki almennileg laun ætti ekki að viðgangast stundinni lengur. Ég veit ekki hvar ég væri ef þeirra nyti ekki við.....daga og nætur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Mikið er gott að fá þig heim !

Nú vil ég sjá þig taka heilsuskrattann á yppon.  Áfram Gillí. 

Anna Einarsdóttir, 25.10.2007 kl. 14:51

2 Smámynd: Ragnheiður

Yndislegt að þú ert komin heim mín kæra.  Við Anna eyddum eiginlega gærdeginum í það að hanga á þinni síðu en ekki okkar

Ragnheiður , 25.10.2007 kl. 15:06

3 Smámynd: Fjóla Æ.

Velkomin heim. Farðu bara vel með þig og skelltu eins og einu lagi af bómull utan um þig.

Knús og klemm.

Fjóla Æ., 25.10.2007 kl. 15:07

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Blessuð og velkomin heim. Það hefur svei mér "runnið af þér" á bráðamóttökunni, gott mál. Þetta með blóðtappann í lungunum hefur nú ekki verið neitt spaug svo nú verður mín að "haga sér" með virðuleika og ró.  Nú er bara að virkja alla þræla sem ekki eru þegar í starfi og auðvitað þarft þú að fá húshjálp vikulega. Mömmu og ömmudekrið verður að fara á ný plön og helst að snúast við. Að þau dekri sem mest við þig. Bið Guð að senda þér heilann hóp af heilunarenglum Kveðja Fríða

Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.10.2007 kl. 15:40

5 identicon

 Gott að sjá að þú ert komin í heimahagana!

Mundu að kroppurinn er bæði að strita við skyldustörf og viðgerðir. Þú vinnur sjálfri þér mest gagn með því að hvíla þig ...á milli þess sem þú skemmtir okkur með biblíusögum. Láttu verktakana um verkin!

Þú ert þrautseigari en orð fá lýst og sjálfri þér til mikils sóma.

L.M.

Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 17:44

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Heima er best, velkomin til baka. Vonandi hefurðu lært eitthvað pínu í sjúklingafræðum og útskrifist með próf í að vera sjúklingur!

Góður punktur að eyða ekki meir en aflað er. Nú er bara að njóta þrifanna sem auðvitað ættu að vera vikuleg, ekki spurning.

Baráttukveðja til þín duglega frænka

Kristjana Bjarnadóttir, 25.10.2007 kl. 18:08

7 Smámynd: Þórdís tinna

Velkomin heim duglegust - fegin að heyra að þú ert komin heim - farðu nú varlega mín kæra

Þórdís tinna, 25.10.2007 kl. 22:19

8 Smámynd: lady

velkomin heim já ,endilega  reyndu nú að hvíla þig það vill oft gleymast þegar manni fer að líður betur ,ég hugsa til þín þú ert í bænum mínum  kveðja Ólöf

lady, 25.10.2007 kl. 22:27

9 identicon

Velkomin heim aftur og nú þarftu að leggjast með tærnar upp í loft og láta aðra þjóna þér...þú ert samt algjör hetja og ég dáist af dugnaði þínum.Sendi þér baráttukveðjur og vona að þér fari að líða betur og orkan komi til þín..

Björk töffari (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 22:56

10 identicon

Duglega kona, gættu þín vel. mundu að þér á að þykja ofur vænt um sjálfa þig.......

Halla Jökulsd. (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 23:23

11 identicon

Frábært að þú ert komin heim verra að þú ert svona mikið lasin. Þá er að hlýða Agnesi og losa sig við allt sem hægt er með góðu móti og er erfitt, til að eiga einhverja krafta í að gera það sem er skemmtilegt. Þá dettur manni auðvitað fyrst í hug þrifin þau eru vo fj... leiðinleg og ýmsir snúnigar sem eru líka mjög lýjandi og fyrir okkur sem búum út á landi verðum við strax þreytt bara við að hugsa okkur að við værum í umferðinni í Reykjavík, allir á yfirhraða, flautandi ef maður hægir á sér til að lesa á vegvísa úffffff stress, stress, stress.

Sendi þér mínar allra bestu kveðjur með von um betri líðan.

frá Sólveigu

Sólveig (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 10:18

12 identicon

sæl elsku Gillí,

mikið er gott að heyra að þú ert komin heim aftur. Vona svo sannarlega að þessi "pest" fari að ganga yfir. Þú ert í bænum mínum og ég er með krossinn og Maríu mey (ekki það að ég sé kaþólsk) og við sendum þér styrk.

Ég hlýt að senda þér orku, ekki er orkan hjá mér :-)

Bestu baráttu og batakveðjur,

þín Hjördís

Hjördís (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 12:39

13 identicon

Elsku Gillí velkomin heim, farðu nú vel með þig. Sendi þér hlýjar hugsanir og allann þann baráttukraft sem ég á til Bestu kveðjur að norðan Rósa Mjöll og co.

Rósa Mjöll (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 15:23

14 identicon

 

Hæ kæra!

Frábært að þú ert komin heim aftur. Sendi þér hér rafrænar rósir sem ég vona að skili sér........

Hafið gott um helgina og skilaðu kveðju til fjölskyldunnar.

sesselja (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 16:21

15 Smámynd: Þórdís tinna

Hæ elskan- mér var boðið heimilþrif tvívegis í viku - maður eða ekki maður mér er alveg sama - í þessum sporum áttu að fá þá hjálp sem að þú þarft og vilt - burtséð frá hverjir eru í kringum mann eða ekki ...- ekki trúi ég því að borgin standi sig verr en Hafnarfjörðurinn, nógu lengi voru þeir að kveikja á frístundakortunum ...en kannski eru þeir bara ekkert flinkari en þetta- ég veit ekki- veit bara að þú  átt betur skilið í þínum sporum og átt ekki að þurfa að biðja um hjálp !!!- en gangi þér sem allra, allra best dúllan mín og Guð veri með Þér

Þórdís tinna, 27.10.2007 kl. 00:58

16 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Nú hefur ekki komið neitt frá þér kæra Gíslína síðan í fyrra dag. Hvernig gengur, Guð blessi þigFríða

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.10.2007 kl. 19:33

17 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Sakna þess að heyra ekki frá þér Gillí og hef áhyggjur. Vona að þú sért að taka því rólega og jafna þig á síðustu uppákomu. Líði þér sem best. Hugsa til þín daglega

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 28.10.2007 kl. 16:24

18 identicon

Gillí er nú í hvíldarinnlögn á líknardeildinni í Kópavogi sér til hressingar. Hún er frekar orkulítil en það má búast við færslu þegar hún hressist og nettenging hennar kemst í gang

Rósa (systir) (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 14:47

19 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Guð blessi hana Gíslínu og gefi henni bataBestu kveðjur Fríða

Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.10.2007 kl. 17:05

20 Smámynd: Þórdís tinna

Allar mínar bestu óskir til þín Gillí mín- njóttu þess að láta dekra við þig á líknardeildinni og safnaðu upp orkunni aftur- það er yndislegt fólkið þarna.  Ástarkveðjur frá Akureyri

Þórdís tinna, 29.10.2007 kl. 17:29

21 Smámynd: Ragnheiður

Hugur minn er hjá þér mín kæra

Ragnheiður , 29.10.2007 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband