Gíslína Erlendsdóttir

Ég fæddist í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum 12. janúar 1961.  Fluttist ársgömul að Dal í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi með móður minni Þorgerði Sveinbjörnsdóttur sem réð sig þar sem kaupakonu. Þar leiddu örlögin pabba Erlend Halldórsson og mömmu saman og ég á þrjú systkini sammæðra, Halldór rafeindavirkja hjá Íslenskri erfðagreiningu, Rósu íslenskufræðing, deildarstjóra og kennara á Lýsuhóli á Snæfellsnesi og Egil doktor í fornvistfræði hjá HÍ. Sjálf er ég með BS próf í ferðamálafræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá HÍ útskrifuð haustið 2005.

Í föðurætt Ágústar Þórs Oddgeirssonar á ég önnur þrjú systkini, Vilmu myndlistarkonur og kennara, Huldu myndlistarkonu og kennara og Ágúst Geir lögfræðing hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Ég á tvo stráka Kára fæddan 1980 og Ásgeir fæddan 1988, báðir synir Þórðar Gunnarssonar frá Böðvarsholti í Staðarsveit. Kári á 3 börn, Gabríel Mána fæddan 1999, Heru Sif fædda 2003 og Freyju Rán fædda 2005.  Kári vinnur við rafvirkjun með Palla en Ásgeir er í rafvirkjanámi og í fullu starfi hjá rafvirkjameistara. Hann býr með Rakel Þorsteinsdóttur hárgreiðslunema.

Ég kynntist Páli Stefánssyni rafvirkja fæddum 25. mars 1960 árið 1994 og hef búið með honum síðan. Við giftum okkur á afmælisdaginn hans 25. mars s.l.   Páll á tvo syni Hauk nema í grafískri hönnun fæddan 1985 og Ívar stúdent og afgreiðslumaður fæddan 1987.

Ég vann lengst hjá Íslensku auglýsingastofunni eða í 12 ár samfleytt, síðan með háskólanámi, þar var ég gjaldkeri og skrifstofustjóri. Ég var formaður starfsmannafélagsins í 6 ár. Þar áður hafði ég unnið í 6 ár hjá Kaupþingi eða fá stofnun þess 1982. Eftir háskólanám vann ég í 6 mánuði hjá 365 og síðan í 3 mánuði hjá Actavis en þar var ég starfandi þegar ég greindist með gallvegskrabbamein. Æxli hafði myndast í gallveginum og stíflaði rennsli frá lifrinni. Til að losa mig við krabbann var ákveðið að skera æxlið burt ásamt næstum öllu brisinu, skeifugörninni og hluta af maganum.  Vegna fyrirhugaðrar aðgerðar í janúar 2007 hætti ég að vinna og hef ekki unnið síðan.

Aðgerðin var gerð í janúar en þegar búið var að opna mig kom í ljós að þetta hafði breytt úr sér í eitla við bláæð, ég var því saumuð saman aftur og hafin lyfjameðferð.

Vorið 2005 fór ég í ristilbrottnám þar sem ristillinn var allur tekinn og búið til nýtt kerfi sem kallast j-poki. Ég hafði þar áður verið með sáraristilbólgu í 23 ár auk bólgna í gallvegi.  Eftir að hafa losnað við ristilinn byrjaði ég alveg nýtt líf, laus við endalausar klósettferðir, verki og rannsóknir......en ekki lengi því þá tók annað og verra við.....ólæknandi krabbamein.

Síðan þá hef ég barist og berst enn.  Versnun varð í ágúst þegar kom í ljós að krabbinn hafði breytt úr sér í beinin. En ég trúi því statt og stöðugt að ég losni við þetta, mitt kraftaverk á eftir að koma í ljós. Óþverrinn á eftir að visna og deyja og ég fæ að lifa lengur en horfur bentu til.

Annars er ég pólitísk og gagnrýnin á þjóðfélagsmál auk þess sem ég hef tilhneigingu til að sjá hlutina í kaldhæðnu ljósi. Það er mín leið til að takast á við erfiða lífsreynslu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband