Skreiðin hennar mömmu

Fjölskyldan í Dal var í kaupstaðferð í Stykkishólmi, á Cortinunni, mamma, pabbi og þrír krakkagrislíngar, líklegast á aldrinum 5 til 8 ára, ég elst. Á þessum tíma voru nokkrir skreiðarhjallar fyrir utan bæinn og á leiðinni heim dettur mömmu það snjallræði í hug að ná sér í fisk í matinn með því að stela sér smá skreið. Pabbi stöðvar bílinn, mamma stekkur út, frá á fæti eins og alltaf, hleypur upp að hjöllunum og nær sér í nokkrar kippur.  Hendir þeim í skottið á Cortinunni og svo var brunað af vettvangi. Vá, þetta var spennandi. En ekki lengi því fljótlega fór að bera á einni og einni maðkaflugu á sveimi í bílnum. Ég byrjaði að öskra.  Flugunum fjölgaði, ég öskraði meira. Pabbi sem sjaldan skipti skapi reiddist og skipaði mér að hætta þessari vitleysu. Flugunum fjölgaði....og fjölgaði og ég truflaðist, öskraði, sparkaði og heimtaði að pabbi stoppaði bílinn svo ég kæmist út. Loksins fannst öðrum fjölskyldumeðlimum fjöldi flugnanna orðinn eitthvað undarlegur og þegar ég var búin að opna hurðina á bílnum sem var á fleygiferð og hótaði að stökkva bað mamma pabba að stöðva bílinn.  Ég flaug út, öskrandi, hristandi hausinn og berjandi út öllum öngum til að losa mig við viðbjóðinn.  Pabbi opnaði skottið og út flugu þúsundir vel feitra maðkaflugna, skreiðin var skilin eftir fyrir utan veg, fyrir maðkaflugurnar. Þetta var ekki reynt aftur.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ojjjjjjj þetta hefur verið eins og í hryllingsmynd.  En hefur kennt ykkur að það er ljótt að stela

Anna Einarsdóttir, 1.5.2007 kl. 11:08

2 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Held að mamma hafi aldrei á ævi sinni stolið neinu hvorki fyrir þetta atvik né eftir....en pabbi stal einu sinni sólhatti í skoðunarferð á Spáni, setti bara hattinn á hausinn og labbaði út.  Held að það hafi verið óvart en honum fannst skemmtilegra að segja frá því hinsegin......held að heiðarlegri maður finnist ekki í öllum heiminum en hann. Hann er svo heiðarlegur að það hefur oft valdið vandræðum í hans lífi.

Gíslína Erlendsdóttir, 1.5.2007 kl. 11:25

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahaha....... pabbi þinn að stela.   Þetta er nú með því fyndnara sem ég hef heyrt.  En gott hjá honum að prófa þetta

Anna Einarsdóttir, 1.5.2007 kl. 11:27

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Minnir á máltækið, illur fengur - illa forgengur.

Þorsteinn Sverrisson, 3.5.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband