3.5.2007 | 09:55
Hgæri, vinstri...snú
Sit og bíð eftir Páli sem fór að vinna. Tilbúin í ferðalag austur á Klaustur en þangað hef ég ekki komið í mörg ár. Spennandi að sjá hvort eitthvað hafi breyst á þeim tíma. Vonandi sleppir Katla því að gjósa næstu 3 daga. Reyndi að pakka létt en er að vonast eftir sól á pallinum og í pottinum og tók því einn hlýrabol með en engar stuttbuxur. Spurning hvort stígvélin og úlpan fylgi líka. Annars sagði Ragna mágkona mér frá þrælsniðugum pokum í Rúmfatalagernum sem hægt er að loftæma. Keypti tvo svoleiðis og núna eru sængurnar og koddarnir komnir í pokana og taka jafnmikið pláss og mogginn opinn í miðjunni. Algjör snilld. Setti bara ryksuguna í gatið og loftið hvarf. Palla finnst þetta óþarfi enda vanur að henda bara öllu í einn ruslapoka og eina tösku og út í bíl.
Sá að það hafði snjóað í Esjuna í morgun. Eitthvað ætlar vorið að draga lappirnar næstu daga og láta vetur konung vaða yfir sig. Það er svona að vera hvorugkyns.....vita ekkert í hvora löppina maður á að stíga, eins og ég í pólitík. Kannski bara rétt hjá Iðunni frænku að það vantar framboð sem heitir.....hægri, vinstri..snú.
Athugasemdir
Mér heyrist að þú sért með framsóknargen
Þorsteinn Sverrisson, 3.5.2007 kl. 18:21
hægri, vinstri, snú = framsókn. Rökrétt !
Anna Einarsdóttir, 3.5.2007 kl. 20:15
Ekki ólíklegt, spurning hvort þetta ætti að rannsakast hjá Decode.....pólitískar skoðanir og DNA......er samt EKKI ...lengur framsóknarmaður...var það en gafst upp.
Gíslína Erlendsdóttir, 5.5.2007 kl. 15:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.