26.5.2007 | 11:06
Fegurðardrottning Íslands
Brotthvarf Páls til Akureyrar varð til þess að ég hoppaði á ....special treatment....fyrir konur sem eru einar heima. Dagskrá kvöldsins - Píta, dvd og fegurðarsamkeppni Íslands. Pítan var góð, Stranger than fiction betri, Fegurðarsamkeppnin afleit. Hvernig geta ungar stúlkur látið hafa sig í þetta kjaftæði. Þarna lýstu þær með barnslegri röddu hvað þær langaði þegar þær voru litlar að verða þegar þær yrðu stórar-flestar ekki ennþá orðnar stórar. Búðarkassadama í Hagkaup og flugfreyja, hann var betri litli strákurinn í drengjakórnum í Kastljósinu í fyrrakvöld en hann langar að verða fisksali því honum finnst svo gaman að halda á fiski. Almennilegt verkefni það.
En aftur að drottningunum. Ekki tók betra við þegar þær þurftu að segja frá því hvaða dýr væri í uppáhaldi og hvert þær stefndu í framtíðinni, hundur, köttur, maður, börn og hamingja...krúttlegt. Afhverju eru þær ekki spurðar alvöru spurninga eins og ...hefur þú ferðast um Ísland....hvaða skoðun hefur þú á náttúruvernd....eða .....stríði...fá þær til að hugsa, kynna sér heiminn, landið og eyða þá tíma í það í staðin fyrir að böglast um á æfingum í fyrirsætugöngulagi svo ýktu og afkáranlegu að minnti helst á nýsloppnar beljur úr fjósi. Svo komu sviðsatriðin, þarna gengu þær um greyin, sveittar og skjálfandi af stressi, fattar og stífar eins og staur stæði upp í rassinn á þeim, göngulagið ýkt og flækjulegt og þegar þessu var öllu lokið grét fegurðardrottningin fögrum tárum, sennilega bæði glöð og fegin yfir að þessu væri lokið.
Ekki fór á milli mála að margar þeirra voru með silikonbrjóst. Kona vinar míns vinnur sem skurðhjúkrunarfræðingur á lýtalæknastöð í Reykjavík, hann veit því allt sem hægt er að vita um fegrunaraðgerðarheiminn á Íslandi. Hann sagði mér eitt sinn að ef línan þar sem brjóstin byrja skerist niður og upp rísi vel löguð brjóst með boltaútliti væri það alveg öruggt að brjóstin væru gervi. Alvöru brjóst hafa enga svona augljósa línu því þau flytu í eðlilegu framhaldi niður og fram af bringunni.
.....nú vitið þið það.
Það eina góða við þennan þátt var Jógvan sem söng eins og engill, ég ætla að kaupa diskinn hans þegar hann kemur út.
Athugasemdir
Ég fékk líka sérstaka meðhöndlun í gær hjá sjálfri mér. Pizza og tveir bjórar. Annars sleppti ég fegurðarsamkeppninni en kíkti þess í stað í spegil áður en ég fór að sofa. Það var alveg ágætt.
Ég sá einu sinni dömu með fegurðardrottningargöngulag ganga niður tröppurnar á Dubliners. Mjög flott alveg þangað til hún pompaði á rassinn og fleytti kerlingar niður restina af stiganum.
Anna Einarsdóttir, 26.5.2007 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.