Kastljós malar Ísland í dag

 

Náði örlitlu áhorfi á sjónvarp í kvöld og sá þá Egil Helgason hvísla því að Helga Seljan að hann hefði byrjað á RÚV í dag. Ég er alveg himinhress með þessa nýju stefnu RÚV að reyta af 365 fjaðrirnar hverja á fætur annarri. Ég er eins og sjá má RÚV kona og stend á því fastari fótunum að sú „stofnun" sé alheilög, mín prívat eign ásamt íslensku þjóðarfjölskyldunni og eigi að einbeita sér að því að fullnýta alla þætti sem þeir hafa yfir að ráða til að gera innlenda dagskrárgerð ennþá betri. Þeim hefur reyndar ekki tekist það ofvel í gegnum tíðina en núna verð ég að segja að Kastljósið er að mala Ísland í dag. Ég fæ nefnilega aulahroll af að horfa á þáttastjórnendur Íslandsins mæna  hvert á annað í öllum kynningum svo áhorfendanum líður eins og dónalegum gluggagæi að hnýsast inn á einkaheimili fræga og sæta fólksins.  Yfirborðsgleði, taugaveiklun og rjúpnarembingur við að hafa þetta svo afslappað og óvþingað......en því miður, þetta virkar ekki.  Í Kastljósinu er allt að ganga upp, efnið-eitthvað fyrir alla-, umgjörðin-traustvekjandi en jafnframt notaleg, umfjöllunin-vel unnin og framreidd og fólkið-bæði sætt og frægt en fyrst og fremst þarna til að leiða okkur áhorfendur í gegnum þáttinn.

Það verður gaman fyrir þjóðina að fá Silfur Egils óruglað inn í hvert landsbyggðarskúmaskot og ekki varð ánægjan minni þegar hann upplýsti að í burðarliðnum væri bókmenntaþáttur sem hæfi göngu sína í haust. Bókaþættir á ríkissjónvarpinu ættu að vera á dagskrá þess með landslögum. Erum við ekki öll á kafi í kiljum og kverum hvert í sínu horni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband