16.9.2007 | 20:17
Komin heiluð heim frá Bretlandi
Umferðin þarna er ótrúleg, vegirnir þröngir og hlykkjóttir, meðfram vegunum eru tré, runnar og gróður og útsýnið því lítið sem ekki neitt en þrátt fyrir það keyra þeir eins og villimenn. Þessu eru þeir vanir og alast því upp við umburðalyndi, ekkert flaut og frekjugangur þótt einn og einn bíll þrengi göturnar og tefji umferðina. Þarna er hver fermeter nýttur til hins ýtrasta, allt ræktað, allt flatt, endalausir pínulitlir bæir með einum pöbb og kirkju, alltaf kirkja í hverju plássi. Ég verð að viðurkenna að mér leið oft eins og í gildru, mig vantaði útsýni, andrúm, pláss. En á hinn bóginn var allt svo rólegt, stresslaust og ekki einu sinni búðir nema ein og ein pínulítil búlla með helstu nauðsynjum. Öllu var vel við haldið og snyrtilegt. Húsin á þessi svæði eru mörg hver margra alda gömulog vernduð og eigendurnir mega ekki breyta þeim, ekki einu sinni mála þau í öðrum litum. Mér varð hugsað til Íslands og gömlu húsanna okkar sem þykir sjálfsagt að henda á haugana eins og hverju öðru rusli. Hversu brjáluð er þessi þjóð að verða, skynlaus, tilfinningalaus, verðmætabrengluð, gráðug og á hraðri leið glötunar.
Á síðustu tveimur mánuðum hafa tvær konur sem ég þekki vel greinst með krabbamein. Hversu marga þekkir þú lesandi góður sem hafa barist við, eru að berjast við eða eru látnir úr krabbameini. Getur þetta verið eðlilegt hjá ekki fjölmennari þjóð? Ég keypti bókina hans Matthew Manning sem hann gaf út núna í vor og heitir Your mind can heal your body og fjallar um það hvernig við sem einstaklingar getum hjálpað okkur sjálf að lifa betra lífi og takast á við sjúkdóma og önnur áföll. Hluti af því er að draga úr álagi og stressi. Ef ég mætti ráða hefði ég ekki komið heim frá Englandi. Friðurinn sem ríkti yfir bæjunum þarna er vandfundinn. Hann var svo áþreifanlegur. Dæmigerð bresk sveit, testofur, hattaleiga, slátrari, pósthús inn í fornbókabúðinni, litlar sérverslanir sem iðulega höfðu miða í glugganum sem á stóð.....skrapp frá kem eftir 15 mínútur.... sæi þetta ekki ganga á Laugaveginum.
Og svo var það Matti. Hann flutti til Lavenham fyrir rúmu ári og keypti aðalhúsið í bænum, herragarðinn Lavenham Hall. Í kringum húsið er risastór garður með tjörn, styttum, hesthúsum og kirkjan næsta hús. Aðstaðan hans er í sjálfu húsinu og er lítil en kósý og full af þungum hlutum, antik, rauðmáluðum veggjum og upp á einum veggnum er mynd eftir Karólínu Lárusdóttur. Hann sagði að við værum fyrsta fólkið sem tæki eftir þessari mynd en Karólína var um tíma hjá honum í meðferð og gaf honum myndina fyrir nokkrum árum.
Matti er viðkunnalegur, spjallaði við okkur Palla fyrir fyrsta tímann, sagðist einu sinni hafa komið til Íslands á níunda áratugnum og hélt þá fyrirlestra. Það kom honum í opna skjöldu hversu góða ensku ég skrifaði og hann hélt á bréfinu frá mér í hendinni og dæsti af undrun, spurði mig meira að segja hvort ég hefði skrifað þetta sjálf. Það var áður en ég byrjaði að tala en eftir það varð hann undrandi á því hversu góða ensku við töluðum.
Ég hitti hann 6 sinnum og í hvert skipti sat ég í háum stól með baki með púða undir fótunum. Vatnsflaskan mín var sett undir stólinn og hann sat við hliðina á mér. Hann setti tónlistina á og spilaði hana hátt, setti síðan aðra hendina á kviðinn og hina á stólbakið fyrir aftan mig. Hann bað mig að hugsa um og sjá mig fyrir mér heilbrigða og glaða. Ég lokaði augunum, dró djúpt andann og um leið og ég slakaði á fann ég hversu ofsalega heitar hendurnar á honum voru, þær hitnuðu mjög mikið í flest skiptin sem ég hitti hann. Ég sagði við hann einn morguninn eftir að hann tók hendurnar af mér....mikið eru hendurnar á þér heitar....hann svaraði....nei, finndu...og tók aðra hendina á mér í sínar og þær voru ekkert heitar. Hann sagði að þetta væri eins og að kveikja og slökkva, um leið og hann byrjar að hugleiða hitna á honum hendurnar. Undarlegt.
Eitt var það sem var mjög athyglisvert og alveg nýtt fyrir mér sem hef oft farið í allskonar óhefðbundnar lækningar þar sem alltaf er spiluð hugleiðslutónlist, róleg og róandi. Hjá honum var tónlistin hröð, ágeng, án söngs og spiluð hátt. Samt náði maður slökun en um leið kom það aldrei fyrir að hugurinn leitaði annað. Þessi tónlist og hvernig hann notaði hana varð til þess að ég fann baráttuandann eflast, ég sá fyrir mér her af hvítum hermönnum æða um skrokkinn á mér, eyðandi krabbameininu, eða að ég var orðin frísk og hlaupandi maraþon og í marki biðu strákarnir mínir og barnabörnin. Ég gleymdi að spyrja hann hvaða tónlist þetta er sem hann notar en ég get ekki útskýrt hvernig hún er, hún fellur ekki undir neina sérstaka stefnu, Palli var inni hjá okkur í fyrsta tímanum og tók sérstaklega eftir þessari tónlist. Verð að senda þeim póst og fá upplýsingar um hana.
Hann bauð mér að koma aftur í lok nóvember og sagði að ég gæti pantað tíma og afpantað ef ég kæmist ekki. Ég ætla aðeins að sjá til. Ég get ekki búist við kraftaverki, árangurinn ef einhver er ætti að koma í ljós smátt og smátt. Hann sagði að það hefði komið honum á óvart hversu orkumikil ég væri. Þessi sjúkdómur væri erfiður og það kom fljótt í ljós eftir samræður við Matta að hann veit mjög mikið um krabbamein enda eru nokkrir hans bestu vinir krabbameinslæknar. Hann gefur sig ekki út fyrir að vita meira en við hin um andans mál og tengir sig ekki við guð né trúarbrögð almennt, hann notar einungis sína hæfileika til að hjálpa fólki. Það er svo undir mér komið hvernig ég nýti hans orku mér í hag. Ég kunni vel við þetta viðhorf, hann hefur eitthvað afl sem hann hefur lært að nota til að hjálpa fólki og þess vegna vinnur hann enn við þetta eftir 30 ár. Hann er hættur að fara í fyrirlestraferðir, fannst það þreytandi og kostnaðarsamt og ákvað að skrifa fleiri bækur og halda áfram að taka á móti fólki út í sveit í Bretlandi.
Gistingin okkar var alveg kafli útaf fyrir sig. Við vorum í bókstaflegri merkingu út í sveit. Síðasti bærinn í dalnum. Allt í kringum húsið voru engi og akrar, bóndinn að plægja svo moldarmökkinn lagði yfir húsið. Við vorum með sér inngang og stórt herbergi með stóru baði, allt mjög huggulegt. En í réttu hlutfalli við staðsetninguna var skordýralífið. Fyrsta morguninn fékk ég engisprettu í hausinn þegar ég stóð upp úr rúminu, ég veit ekki hver hoppaði hærra ég eða hún en þegar ég ætlaði að sjá hvaða kvikindi þetta var hoppaði það út í horn á bak við regnhlífina. Palli tók regnhlífina burtu, kleip utan um lappirnar á engisprettunni og henti henni út. Næsta kvöld var ein á koddanum mínum, hún fékk sömu meðferð. Mér var hætt að lítast á blikuna. Glugginn varð að vera opinn því annars varð loftlaust í hitanum og það þýddi aukna pödduáhættu. Svo ákvað Palli að prófa að slökkva útiljósið því þær leita í ljósið. Eftir það fengum við ekki fleiri engisprettur í heimsókn. Síðasta morguninn skreið áttfætla á hálsinum á mér þegar ég var frammi á baði að greiða mér. Ég var létt fegin að vistinni var að ljúka og til að reka ofan í Palla orð hans um að ég gæti ekki átt heima í breskri sveit sökum pödduhræðslu þá sagðist ég leysa það með því að hafa svefnherbergið á annarri hæð.
Fyrir utan dyrnar hjá okkur var hlið út á akrurinn og út á göngustíg meðfram honum. Palli gerði sér reykferðir þangað og leit um leið á gróður og dýralíf. Eitt kvöldið kom hann til baka úr göngutúrnum með fullan poka af brómberjum sem við skoluðum og borðuðum með bestu lyst. Kvöldin voru róleg og notaleg, ekkert hægt að gera, tveir pöbbar opnir og þar var eina veitingasalan. Við borðuðum á þeim báðum og í hvorugt skiptið gat maturinn talist góður. Besti maturinn var í Bury St. Edmunds en þangað fórum við tvisvar í heimsókn. Þetta er nokkuð stór bær og mjög fallegur. Við keyptum okkur þar sitt hvort skóparið en þegar heim var komið kom í ljós að ég hafði fengið báða skóna á sama fótinn. Við þurftum því að fara aftur þangað daginn eftir til að fá þetta leiðrétt. Það var að vissu leyti mjög taugatrekkjandi því umferðin þar var mun flóknari en í smábæjunum okkar. Páll hafði nefnilega næstum verið búinn að drepa okkur daginn áður með því að æða yfir eitthvert undarlegt tvöfalt hringtorg á rauðu ljósi og ég sá bara bíl koma æðandi inn í hliðina á okkur, lokaði augunum og beið eftir högginu en fyrir einhverja guðs blessun sluppum við með skrekkinn. Palli alltaf sami töffarinn og sagði.....aldrei í hættu.
Heilsan úti var ágæt, ég svaf í fyrsta skipti í tvær nætur án þess að taka svefntöflu, þakka það Matthew, ég var með ágæta orku en það sem tafði mig mest voru lappirnar, þær eru ennþá dofnar og ég get ekki gengið langt eða hratt. Alveg óþolandi ástand. Sérstaklega pirrandi eftir að Matti talaði um að læknarnir hefðu átt að gefa mér samhliða óþverranum lyf sem heitir Glutathione en það dregur úr aukaverkunum eins og taugaskemmdum. Hann sagði að ég ætti að taka það núna því það virkaði eftir að lyfjagjöf væri hætt. Ég er búin að senda Agnesi póst um þetta mál.
Eftir heimkomuna í gær fórum við í matarboð til Ásgeirs og Rakelar og hittum alla fjölskylduna hennar og auðvitað Tóta, Sunnu og strákana og fengum rosalega góðan mat. Í dag var ég mjög slæm af vökvasöfnun í kviðnum og var lengi að spá í að fara upp á bráðamóttöku og biðja þá um að tappa af mér. Ég gerði það ekki en lá þess í stað í rúminu megnið af deginum og dormaði og beið eftir að vökvinn dreifði úr sér. Hann þrýstir svo á rifin og magann og þá fæ ég svo slæma verki, sem hverfa ekki einu sinni með öllum þessum verkjalyfjum sem ég er á. Ég var svo orðin betri seinni partinn.
Held að ég láti þetta gott heita í dag enda orðið alltof langt.
Athugasemdir
Eftir að hafa lesið þetta þá er ég sannfærð um að þetta virki. Þetta er óskaplega skemmtileg lesning og stórfróðleg. Takk fyrir þetta mín kæra og mér tókst meira að segja að sakna þín þó ég þekki þig ekki nokkurn hlut !
Ragnheiður , 16.9.2007 kl. 20:25
Velkomin aftur, gaman að fá ferðasöguna og gott þið áttuð góðan tíma, vonandi fékkstu orkusprautu. Ég varð hugsandi eftir lýsingar þínar af stresslausum breskum sveitaþorpum. Hvar erum við?
Kristjana Bjarnadóttir, 16.9.2007 kl. 23:38
Já Gillí mín...... er ekki rétt að setja markið á Matthew aftur í nóvember ? Hann er greinilega hæfileikaríkur og hlýr. Gott að fá þig heim aftur.
Anna Einarsdóttir, 17.9.2007 kl. 00:20
Gott að lesa um góða ferð!
Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 04:45
Það er frábært að lesa um ferðina ykkar hjóna til Englands og á fund þessa frábæra heilara. Það er svo gríðarleg orka í kring um okkur og hugarorka okkar sjálfra er líka svo sterk. Við hjónin erum í bænahring sem búinn er að vera starfandi síðan 1992. Við erum samfærð um að heilun skilar árangri og bænahringurinn hefur gefið okkur afar mikið. Þessi ferð hefur gert þér gott og á eftir að gera þér meira gott og færa þér bata. Guð blessi þig Fríða
Fríða (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 15:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.