Bráðamóttakan

Jamm og jæja....síðustu daga hef ég verið upptekin við að leika alvöru sjúkling.  Sunnudagsverkirnir versnuðu á mánudaginn og um kvöldið var ég orðin mjög slæm, sárir verkir í kviðnum og vökvinn þrýsti á rifjasvæðið og bara á allt sem fyrir honum varð. Ég svaf sitjandi þá nótt og þakkaði guði fyrir að hafa fyrir tveimur árum keypt mér rafmagnsrúm sem hægt er að stilla á alla kanta.  Ég gafst svo upp í hádeginu í gær og fór á bráðamóttökuna.  Þar lá ég að drepast úr verkjum sem létu ekki undan þótt ég fengi hverja morfínsprautuna á fætur annarri.  Svo leið og beið og ég dormaði fram eftir degi þangað til þeir ákváðu að senda mig í sneiðmynd.  

Sigurður Björnsson yfirlæknir var á vakt og mikið er hann frábær, hef hitt hann einu sinni áður þegar hann stóð vaktina fyrir Agensi fyrr í sumar og kom mér hratt og örugglega í stentskiptin þegar gallgangurinn stíflaðist. Hann er svo röggsamur og ákveðinn. Hann stakk nál vinstra megin í kviðinn og út sprautaðist gult vatn í lítratali. Verkirnir gáfu sig ekki en í stað þess að eyða nóttinni á setustofunni, en þar var eina plássið á spítalanum, ákvað ég að fara heim og sofa þar. Ég á að auka contalgin skammtinn úr 20 mg í 30mg á dag og nota líka tramól til að hressa mig við. Sigurður hafði margar skýringar á reiðum höndum í sambandi við taugaskemmdirnar í fótunum, sagði að ég hefði átt að fá B12 sprautur með lyfjagjöfinni.....sem ég fékk ekki.....og núna ætti ég að kaupa mér B vítamín og taka eina á dag þangað til dollan er búin.....  mér finnst undarlegt að það virðast aldrei vera notaðir allir möguleikar í þessari meðferð á mér, maður fréttir bara af þeim þegar það er orðið of seint.  

Annars var bara notalegt að mæta niður á bráðamóttöku í gær, eins undarlega og það hljómar, því þar tók á móti mér hann Ragnar læknir sem var að vinna á St. Jófesfs í fyrra þegar ég greindist. Hann mundi vel eftir mér og tók mér eins og gömlum vini. Ragnar er ekki bara læknir heldur matargúrú og heldur úti munnvatnsaukandi skrifum á bloggsíðunni sinni þar sem hann lýsir áhugamáli sínu, eldamennskunni, af mikilli snilld og gefur uppskriftir. Ég hef nokkrum sinnum ætlað að krækja mér í uppskrift en fyrir eldhúsfatlaðan einstakling eins og mig var þetta bara of flókið.   

Í einni eftirlitsferðinni um stofuna í gær, stoppaði Ragnar hjá mér, horfði á mig aðdáunaraugum og sagði....þú ert hraustasti sjúklingur sem ég hef á ævinni kynnst. ....ég horfði undrandi á hann og spurði....af hverju segir þú það....hann svarar.....eftir að hafa lesið alla sjúkrasöguna þína sem byrjar 1981 og hvernig þú hefur farið í gegnum lífið án þess að láta öll þessi veikindi buga þig, verið í fullri vinnu og .....maður verður bara orðlaus...og svo lítur þú svo vel út.   Á þessari stundu flugu í gegnum hugan minningar um fullt af fólki sem hefur þurft að takast á við svo miklu stærri vandamál og því erfitt að svara svona oflofi en það eina sem ég gat gert var að segja sannleikannen......það hentar mér ákaflega illa að leggjast með tærnar upp í loft, má alls ekki vera að því.....og hann grípur fram í og segir....já og þá er það okkar að hjálpa þér að standa upprétt....já segi ég, þess vegna er ég alltaf að böggast eittvað í ykkur.....og hann svarar.....það áttu líka að gera, til þess erum við, til þess að hjálpa fólki.    Hann Ragnar er gull af manni.

Núna er ég að skríða saman, er ekki búin í sturtu þótt klukkan sé að verða tvö....persónulegt met....en held samt að ég fari að staulast á lappir svo ég fái ekki hjartaáfall af hreyfingarleysi og leti hér upp í mínum fína sjónvarpssófa. Get svo vonandi sagt ykkur eitthvað annað en sjúkrasögur næst þegar ég sendi línu.

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna er komið nýtt heiti, hraustur sjúklingur. Ég er sammála þér með meðferðarmálin, af hverju ekki að gera allt eins og að gefa þér vitamín. Þú hefur greinilega ekki látið í minni pokann fyrr en í fulla hnefana og ekki farið í aftöppun fyrr en í síðustu lög. Gandi þér vel að láta þér batna. Guð veri með þér Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 14:45

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Já hraustur sjúklingur með andann í lagi, ég dáist að kjarki þínum og orku. Go Gilli, go, go. Gott að heyra af mjög svo mannlegum læknum, þeir eiga líka sinn heiður skilinn.

Baráttukveðjur

Kristjana Bjarnadóttir, 19.9.2007 kl. 17:13

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það vita allir sem þig þekkja... að þú ert ekkert venjuleg. 

Anna Einarsdóttir, 19.9.2007 kl. 18:24

4 Smámynd: Ragnheiður

Þú ert svo mögnuð, meira að segja ég sé það. Skoðaði allar myndirnar um daginn og hef lesið hér hvert orð, ja eða síðan heilinn komst í sæmilegt samband aftur. Vonandi líður þér betur við þetta nýjasta krukk í þig.

Tek undir með þér að það er nokkuð magnað að fá ekki upplýsingar fyrr en of seint...það þarf að bæta úr því.

Ragnheiður , 19.9.2007 kl. 19:16

5 identicon

Var að skoða myndirnar frá Englandi.....og las svo bráðavaktarsöguna.....og manni finnst einfaldlega þetta geta geti ekki verið myndir af konunni sem er að ganga í gegnum þessa þolraun! Gillí þú ert svo sæt og falleg og geislandi....og þvílíkur aðdáunarverður baráttuandi í þér. Það mættu sko margir taka sér þig til fyrirmyndar (þar á meðal ég....), vera þakklátur og hætta þessu helvítis væli útaf hlutum sem skipta ekki máli!!

Þú ert ótrúleg! 

Sigrún á Bifröst (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband