20.9.2007 | 16:22
Sögur af BML
Ég var alveg búin að gleyma því hvernig það var að vera ekki ólétt. Eftir að hafa gengið með níumánaðastóra vatnsbumbu framan á mér í nokkra mánuði þá finnst mér núna eftir að hafa fætt 1,5 lítra af vatni að ég sé frelsuð úr hreyfihömlunarfangelsi. Þessi vökvasöfnun hefur greinlega valdið mér meiri vandræðum en ég gerði mér grein fyrir. Ef þetta gerist aftur bíð ég ekki svona lengi, tek ekki aftur að mér að ganga með fíl enda löngu komin úr barneign.
Að liggja inn á bráðamóttökunni á Landsspítalanum í nokkra klukkutíma er eins og að detta inn í mannfræðistúdíu, verkefni í félagsfræði, sálfræði eða bara upplifa þverskurð af þjóðinni sem deilir saman rými og þjáningum á stórri stofu á spítala og hver og einn hefur sína sögu að segja, sitt vandamál að glíma við og tekst á við það hvert á sinn hátt. Ég fell örugglega undir rólega og ósýnilega flokkinn á þessari deild, en aðrir gera það svo sannarlega ekki. Sumum leiðist, eru gamlir og hjartveikir, kúka á sig svo lyktin er óbærileg, aðrir kvarta stöðugt, kalla og hrópa, svo eru það þeir sem tala endalaust í gsm símann, senda sms eða hrjóta svo hátt að allur annar hávaði verður að svanasöng í samanburði.
Á móti mér var róni, við það að drepast úr hjartaáfalli og bara nokkuð brattur. Hjúkkurnar könnuðust augljóslega við kauða því þær spurðu hversu langt væri síðan hann hefði drukkið síðast. Róninn svaraði rámri röddu....ekki síðan í nóvember...og svo fylgdi ískrandi hlátur. Nokkrar mínútur liðu og þá var minn bara farinn að hrjóta.
Við hliðina á mér lá kona sem ég kannaðist við hér á árum áður í gegnum vinnuna og ég vissi að væri lesbísk. Læknirinn kom og tók að spyrja hana um persónulega hagi, fyrst um barneignir....nei engin börn...síðan hvort hún eigi maka....já svarar konan...og hvað heitir hann....hún heitir Ragnheiður Jónsdóttir (skáldað nafn)....lækninum brá létt og hummaði svo....já, já. Eftir vaktaskiptin kom nýr læknir og í fyrstu heimsókn í hornið kemur hann askvaðandi og segir við konuna sem núna hafði fengið maka sinn í heimsókn, þið hljótið að vera systur, segir læknirinn. Nei við erum hjón...segir konan...læknirinn hikar og það kemur smá hlé..... nú, já, er það já, gott hjá ykkur!!!! Þið eruð samt mjög líkar, segir læknirinn vandræðalega eins og til að sýna að þetta hafi ekki komið honum á óvart og konan svarar.....já stundum er sagt að hjón taki að líkjast hvert öðru með aldrinum.....
Ég fór að hitta geislafræðinginn eftir hádegið. Hann sagði að krabbamein færi ekki í hendur og fætur og því gæti ástæðan fyrir lappaveseninu ekki verið krabbamein, frekar hélt hann að þetta væri taugastrekkur og setti mig á lyf við því. Lyfið heitir Gabapentin og er flogaveikilyf. Þetta á ég að taka fram yfir helgi og hitta svo Agnesi á mánudaginn og fara betur yfir stöðuna. Verkirnir og bólgan er í ilinni og seint í gærkvöldi var ég svo slæm að ég gat ekki stigið í fótinn. Ég var betri í morgun en hef farið versnandi eftir því sem líður á daginn. Palli náði í hækjurnar í geymsluna og þær eru hér til taks ef ég get ekki lengur tyllt í fótinn.
Annars er Palli að fara í veiðitúr svo ég verð ein heima fram á laugardag. Kári verður með krakkana um helgina og kannski fáum við okkur eitthvað gott að borða saman annaðkvöld og köllum á Ásgeir og Rakel líka. Ég fæ þá kannski drengina til að ryksuga hér og laga sjónvarpsskilyrðin á efri hæðinni. Símavinningurinn hans Páls í golfkeppninni hjá Smith og Norland er alveg að slá í gegn, þetta er einhver voða fansý græja með blue tooth....kann ekkert á það....og hægt að hafa allt að 6 auka síma við stöðina. Núna er því kominn sími á hverja hæð og ég þarf ekki lengur að stinga símum í alla buxnavasa eftir því hvort ég er að vinna á skrifstofunni á efri hæðinni, elda mat á miðhæðinni eða hengja upp þvott í kjallaranaum. Alltaf svarað.....hjá Páli og Gíslínu - góðan daginn......
Athugasemdir
hehe, já ansi skemmtileg lýsing af brádamóttökunni. Var í verknámi á brádamóttöku fyrir 1½ ári sídan í Danmörku (hjúkrun) og upplifdi ýmislegt tar...
Gangi tér vel.
Ljós&kærleikur af Skaga...
SigrúnSveitó, 20.9.2007 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.