21.9.2007 | 21:58
Föstudagsfréttir
Vaknaði í morgun með slæma verki neðst í kviðnum, vökvasöfnunin greinilega byrjuð aftur. Löppin er skárri, kannski flogaveikilyfin virki bara eftir allt saman. Hef ekki fengið nein flog nema þrifnaðarflog sem lognuðust fljótlega útaf sökum heilsubrests. Hékk á rúmgaflinum fram eftir degi en fór þá að hjarna við og um fjögurleytið kom Kári með stelpurnar. Þær eru í fínu formi, þreyttar eftir vikuna en heilar heislu. Við skruppum saman ég og strákarnir, stelpurnar og Rakel á Nings og fengum okkur kvöldmat. Þegar við fórum út og ég sá hvernig gólfið undir borðinu okkar leit út var ég fegin að hafa ekki pantað matinn heim, dásamleg tilfinning að geta gengið út og skilið uppvaskið og skúringarnar eftir. Sunna kíkti svo í heimsókn í smá stund og núna er ég á leiðinni í bælið, bærilegri til heilsunnar en í morgun. Mér finnst voða notalegt að vera ein heima en Palli kemur ekki úr veiðitúrnum fyrr en eftir hádegi á morgun.
Góða helgi og ekki örvænta þótt ekki heyrist frá mér, hef ákveðið að vera tölvulöt um helgina.
Athugasemdir
Gillí mín.... hættu nú að safna vökva og safnaðu heldur pennum eða fingurbjörgum. Vonandi nýturðu helgarinnar mín kæra.....
Anna Einarsdóttir, 21.9.2007 kl. 22:07
Heil og sæl mín kæra. Ekki gott að heyra með vökvasöfnunina, vonandi lætur þú vita af henni áður en hún verður jafnmikil og síðast. Gott að vera dugleg að skipta um að fara á hliðarnar á víxl í rúminu og jafnvel liggja smá á maganum, ef þú getur og vera svo eins og prinsessa og hálfsitja í rúminu. Og svo er bara að gera það sem til þarf til að fá góða verkjastillingu.
Hef alla trú á lyfinu sem þú fékkst, verkirnir hljóta að minnka en ef ekki þá eru til önnur lyf, sem betur fer.
Njóttu þín vel, við þurfum nefnilega stundum að vera ein með sjálfum okkur. Vertu samt ekki tölvulöt lengi Góða helgi
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 21.9.2007 kl. 22:08
Gott að heyra að fjarvera frá bloggi geti átt sér eðlilegar skýringar, verð að viðurkenna að mig fer alltaf að gruna að ekki sé allt með felldu ef þú birtist ekki með einhverjum hætti hér í bloggheimum. Mundu að það er líka í lagi að kvarta í þessum heimi, við verðum líka að skynja þann hluta tilverunnar. Hafðu annars góða helgi.
Kristjana Bjarnadóttir, 22.9.2007 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.