Staðan er ....1-0 fyrir innrásarliðinu

Ég fékk stöðuna uppfærða í dag hjá Agnesi. Hún sagði að krabbameinið væri farið að setjast betur að í fituvefnum, ekki lengur kornótt heldur orðið að hnútum. Síðan eru bólgnir eitlar hér og þar á kviðsvæðinu. Ég fer í ómun á miðvikudagsmorguninn og svo í aftöppun strax á eftir.

Lyfjaátið heldur áfram að aukast því ég fékk tvö ný lyf, þvagræsilyf til að reyna  að stöðva vökvasöfnunina og morfín.....já þið lásuð rétt....hreint morfín, má taka það 6 sinnum á dag....plús öll hin verkjalyfin sem ég er á, ætla nú ekki að detta í þá gryfju heldur nota það spari þ.e. bara þegar ég er verulega slæm. Ætli sé einhversstaðar keppt í lyfjaáti, því ef svo er þá myndi ég örugglega vinna.

Agnes ætlar að tala við Karítas sem eru samtök til stuðnings krabbameinssjúkum og þau eru í samvinnu við spítalann. Það verður haldinn fundur heima hjá mér og farið yfir stöðuna. Þannig ætti ég að geta fengið aðstoð við þrif og lyfjainnkaup og þau sjá einnig um lyfjagjafir í sprautuformi. Þetta er með öðrum orðum heimahjúkrun sem nær yfir mjög vítt svið, meðal annars heimilisaðstoð, sálgæslu og hjúkrun. Þær eru í beinu sambandi við læknana og meta ásamt þeim ástand sjúklingsins í hverju tilfelli fyrir sig. Annars verður bara að koma í ljós hvernig þetta nýtist mér en dagurinn í dag er búinn að vera með þeim betri. Heimsótti Kristínu sem leit miklu betur út en síðast þegar ég sá hana og var bara hress. Ég fór í Rúmfó og keypti gardínuefni fyrir gluggana uppi og ætla að sauma þær næstu daga.  Útréttaði eitthvað fleira og er núna að fá gesti að norðan í gistingu í nótt. Páll er svo að fara í 4 daga veiðitúr á fimmtudaginn og kemur svo heim á sunnudaginn en á mánudagsmorgun fer hann til Danmerkur á eitthvað námskeið og kemur aftur heim á þriðjudaginn. Ég verð því drottning í ríki mínu í sex heila daga.

Skrokkurinn er misslæmur, kálfinn stífur og hnésbótin líka, helaumir blettir í hægri holhöndinni og ný bólga við bringubeinið auk bólgins eitils aftan á hálsinum. Alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Ætli dagurinn á morgun verði ekki slæmur, það virðist vera mynstur í gangi, annar hver dagur er góður og hinn slæmur, upp og niður.  

Vonandi næ ég að skrifa um eitthvað annað en þetta næst þegar ég blogga. Er að safna í skemmtilegan pistil. Finn alveg fyrir því að ég er ekki eins létt og grínin eins og áður. Er líka að undirbúa mig undir það versta og náði í gærkvöldi að kenna Páli að skrifa út reikninga á eigin spýtur. Ebba vinkona ætlar að koma í vikunni og fara yfir bókhaldið með mér svo hún geti gripið inn í ef ég dett út. Svo er ég loksins búin að finna kort sem ég get notað til að senda út brúðarmyndirnar af okkur til þeirra sem samglöddust okkur á brúðkaupsdaginn. Eftir að því verkefni er lokið held ég að flest muni nú reddast þótt ég sé ekki viðstödd. Það þýðir a.m.k. ekki að stinga hausnum í sandinn og neita að horfast í augu við staðreyndir. Þessi barátta er á lokastigi og eins og ég hef áður sagt þá þarf að koma til kraftverk ef ég á að lifa þetta af. Þau gerast að vísu oft á síðustu stundu svo við höldum bara í vonina og gefumst ekki upp.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Kæra Gillí, við það að lesa svona færslu verður maður orðlaus. Ekki bara af því að það er lítið hægt að segja, orð mega sín svo lítils. Heldur líka yfir æðruleysi þínu og kjarki. Það ætlast enginn til að lund þín sé ætíð jafnlétt en eigi að síður skín kjarkurinn í gegn. 1:0 fyrir kjarkmikilli konu.

Kristjana Bjarnadóttir, 24.9.2007 kl. 17:04

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kæra Gíslína, gangi þér vel og megi allir englar himinsins vera með þér og hjálpa til við að vinna á þessu meini.  Mundu að það er allt hægt í heimi hér.  Og aldrei er neitt vonlaust.  Þú ert ein af þessum hversdagshetjum.  Sendi þér knús og heilmikla orku

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.9.2007 kl. 17:18

3 Smámynd: Ragnheiður

Ég tek undir með Kristjönu, maður verður hálforðlaus við að lesa þessa færslu. En ég vil samt vonast eftir kraftaverki og mér finnst ég bara eiga það skilið að fá kraftaverk handa þér !

Knús á þig

Ragnheiður , 24.9.2007 kl. 20:43

4 identicon

Já veruleikinn er oft grimmur og staðreyndirnar harðar. Þú sýnir svo mikið æðruleysi að mann verkjar í brjóstið, en jafnframt er svo mikilvægt að tala um þessa hluti ef einurð. Þú ert að undirbúa fluttnig sem við förum öll í, einhvern tíman. Mér finnst erfiðast að lesa um verkina þína, en sem betur fer er verkjalyfin alltaf að verða betri. Mágur minn heitinn náði mjög langt í svona lyfjakeppni, en hann hefur örugglega ekki sráð sig inn viljandi frekar en þú. Ég vona að Páll komi ekki með öngulinn í rassinum 2 helgar í röð. Bið Guð að styrkja þig og styðja, að senda til þin kraftaverk og bata. Kveðja Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband