25.9.2007 | 22:36
Í vímu
Ég var nefnilega búin að lofa því að keyra Berta og Gústu út á Keflavíkurflugvöll um hádegisbilið. Lengi vel leit þetta ekki vel út en að lokum stóð ég upp og sagði....drífum okkur, þú keyrir suðureftir Berti og ég keyri heim... Og við út í bíl og út á völl, ekkert mál, verkirnir að mestu horfnir og bíllinn sjálfskiptur svo þetta var ekkert mál. En annað kom í ljós. Mín var svo dópuð að ég mátti þakka fyrir að komast heim heilu og höldnu. Ég sá tvöfalt, gat ekki haldið augunum opnum fyrir syfju, athyglin engin, sveigði á milli lína á veginum, lét miðstöðina blása köldu framan í mig allan tímann og hafði útvarpið á fullu. Ég náði að passa það vel að fara ekki yfir löglegan hámarkshraða, fullmeðvituð um að þarna var ég á hálum ís. Ef ég hefði verið tekin af lögreglunni hefði ég misst prófið.
Dagurinn leið eða réttara sagt sveif áfram, ég að reyna að bóka, meira með augun lokuð en opin svo ég lagðist í rúmið og dormaði, sofnaði ekki heldur lá í einhverskonar vímu upp í rúmi. Þannig leið dagurinn, mamma kom í heimsókn, Egill kom og Ingibjörg í Þorlákshöfn kom. Alltaf voru augun til vandræða, neituðu að sinna skyldum sínum og vera opin svo ég þurfti að beita þau hörðu til að geta horft með athygli á gestina mína.
Þessu öllu fylgdi hraður hjartsláttur svo eftir kvöldmatinn ákvað ég að hringja niður á bráðamóttöku og biðja þá um að meta ástandið. Læknirinn spurði mig út úr og skráði niður pilluátið fyrr um daginn og gaf svo upp þann úrskurð að ég hefði tekið of stóran skammt af verkjalyfjum. Þetta ætti að rjátlast af mér og ráðlagði mér að blanda þessu ekki öllu saman næst þegar ég fengi verki. Sá hefur aldeilis ekki fengið slæma verki um dagana. Í því ástandi svífst maður einskis.....pillulega séð.
Athugasemdir
Þegar þú ert farin að kvarta Gillí mín... þá er það slæmt. Hræðilegt að vera með svona verki dag eftir dag. Æ hvað ég vona að það lagist. Stórt knús á þig.
Anna Einarsdóttir, 25.9.2007 kl. 22:47
Bið Guð að hjálpa þérFríða
Fríða (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 00:53
Æj auðvitað þarf að læra á þessi lyf líka eins og annað. Læknar kunna fæstir almennilega á verki, hafa sumir bara lesið um þá í bókum. Vonandi lagast þetta ástand elsku kellingin mín.
Ragnheiður , 27.9.2007 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.