Sjúklingur hungurmorða á bráðamóttökunni....

Fór í saumaklúbb til Lísu á þriðjudagskvöldið og stoppaði stutt, var eiginlega að drepast í verkjum og orðin verulega þanin á kviðnum.  Tók inn minn hefðbundna vímuskammt.....ekki jafn góðan og fyrr um daginn....og fór svo að sofa.  Vaknaði um miðnættið gersamlega að farast úr kvölum í kviðnum, hringdi niður á bráðamóttöku og fékk að tala við títtnefndan Ragnar lækni sem bað mig endilega að koma, það yrði tekið vel á móti mér.    

Ég var háttuð ofan í rúm, öll í kremju af kvölum og dælt í mig morfíni sem ekkert gerði gagnið. Ragnar treysti sér ekki til að stinga gat á magnann á mér og vildi bíða eftir Agnesi á morgunvaktinni. Ég hélt áfram að kvarta og fékk meira morfín, ekkert gerðist, fékk þá kvíðastillandi og sofnaði smá stund. Vaknaði aftur og hélt áfram að kvarta, það kemur fyrir á bráðamóttökunni að maður kvarti.... Wink. Fékk þá bólgueyðandi og steinlá. Vaknaði ekki fyrr en 10 um morguninn verkjalaus. Þetta lyf var greinilega eitthvað fyrir mig, kannski búið að finna rétta kokteilinn handa mér, óáfengan og beint í æð, slepp alveg við að að sulla í mig deyfilyfi úr glasi Sideways.

Um morguninn laumaðist ég til að borða eina brauðsneið og smávegis af bragðlausum hafragraut sem varð ekki vinsælt hjá hjúkkunum því ég var á leið í ómun og átti því að vera fastandi.  Í ómuninni varð allt galið af því ég heimtaði að fá vinstri fótinn ómaðann en á beiðninni stóð að einungis ætti að óma kviðinn. Ég sagði að Agnes vildi láta óma fótinn og hafði beðið mig um að skila því til ómunarmannsins. Hann hélt nú ekki, reif í hár sér og sagði að hér væri ekkert gert nema það stæði svart á hvítu á eyðublaði og það hefði hann sko ekki í höndunum, ég þrjóskaðist við og spurði hvort þau gætu ekki hringt upp á deild. Ómmaðurinn og aðstoðarkonan sem stóð eins og varðmaður um beiðnablaðakerfið litu mig illu auga og fóru fram til að ráða ráðum sínum, erfiður og frekur sjúklingur.

Stund leið og þau komu aftur inn, jú rétta eyðublaðið hafði fundist frammi og núna var ekkert mál að óma fótinn.  Það glaðnaði örlítið yfir ómmanninum og hann fékk að þukla mig ofan sem neðan, ekki mikið dónó í því enda sjúklingurinn á þyngd við bannaðar franskar fyrirsætur og sexý eftir því.  Í ljós kom að kálfinn geymir blóðtappa í bláæð sem liggur frá hnésbót niður á miðjan kálfa.  Blóðtappar í bláæð geta skotist í lungun með viðeigandi verkjum en ekki í heilann og ég því ekki í bráðri lífshættu, má ekki við fleiri lífsháskum. 

Agnes tappaði af mér 2,5 lítrum af vökva ogmikill var léttirinn að losna við þetta stöðuvatn, verkirnir bókstaflega minnka um 80% og líðanin að öðru leyti skánar eftir því.  Fram að þessu hafði ég ekki fengið neitt að borða nema brauðsneiðina um morguninn og var staðfastlega neitað um mat af þeirri ástæðu að ég væri á leiðinni í rannsókn. Þegar ómævintýrið var að baki vildi ég fá eitthvað almennilegt að éta en enginn þorði að taka þá erfiðu ákvörðun hvort ég mætti borða eða ekki. Þegar ég fékk  loksins grænt ljós á næringu fannst ekki ætur biti á allri deildinni, það hafði gleymst að panta brauðið og það eina sem ég gat fengið var tekex með smjöri og sultu og djús með. Mikið smakkaðist kexið vel. Þarna rétt slapp bráðamóttakan við að komast í fréttirnar undir fyrirsögninni .......sjúklingur hungurmorða á bráðavaktinni  FootinMouth.

Ég var svo lögð inn á krabbameinsdeildina og farið að vinna í að sortera betur lyfja- og verkjastillingar prógrammið.  Mér hefur liðið mun betur eftir aftöppunina og er nýkomin heim af spítalanum. Karítas hjúkrunarteymið ætlar að sjá um blóðþynningarsprauturnar en ég þarf sprautur tvisvar á dag í fimm daga og svo eina á dag sem eftir er.

Í kvöld ætla ég svo að fara út að borða á Ítalíu með Geirlaugu vinkonu, Ödda manninum hennar og Peter vini okkar frá Danmörku. Svo eru að koma mánaðarmót og nóg að gera á skrifstofunni. Palli er farinn í veiði og kemur ekki heim fyrr en á sunnudag svo ég hef nægan frið til að einbeita mér að því að reikna út vsk og laun, hitta fjölskylduna og komast kannski í bíó ef veður leyfir 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó mér sé svo sem ekki neinn hlátur í huga við að lesa bloggið þitt, (jamm er farin að lesa það reglulega) þá brosti ég svona út í annað yfir fyrirsögninni. Sá þetta alveg fyrir mér með stóru letri í fréttablaðinu.

baráttukveðjur

Halla Dalsmynni

halla (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 17:30

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gillí mín.  Þú ert alveg ótrúlegur snillingur.  Bara með krabbamein og blóðtappa og stöðuvatn í maganum og... og........ en ert samt með húmor á við heila hersveit. 

Eins gott að þú varst frek á ómskoðunina á fætinum.... fólk veit nefnilega oft sjálft, betur en læknar, að eitthvað er ekki eins og það á að vera í líkamanum.  Haltu áfram að vera ákveðin.... þú ert sko margbúin að borga læknisþjónustuna með sköttunum þínum. 

Njóttu kvöldsins á Ítalíu og vá.... gott að heyra í þér aftur. 

Anna Einarsdóttir, 27.9.2007 kl. 17:35

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Nei það er sko ekki fyrir veikt fólk að liggja á spítala, því miður. Það er víst bara fyrir hörkutól sem vita sínu viti.

Annars ertu ótrúleg, að geta komið manni til að brosa við að lesa lýsingar af eins grafalvarlegum aðstæðum sem þú ert í. Það segir meira en margt um úr hverju þú ert gerð.

Og svo ferðu bara út að borða og í bíó, eins og ekkert hafi í skorist.......já þú ert hörkutól. Mundu bara að láta hjúkrunarteymið hjúkra þér vel inn á milli.

Kristjana Bjarnadóttir, 27.9.2007 kl. 18:16

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæl og takk fyrir síðast - á leið til Glascow í vor.

Ég hef kíkt á síðuna þína annað slagið til að fylgjast með þér. Dáist að kjarkinum en undrast hann ekkert sérstaklega eftir að hafa kynnst þér - og vitandi að þú ert ættuð af Ströndum.

Mundi það ekki fyrr en ég las um það á síðunni að þú ert fædd á Norðurfirði. Þangað fórum við í sumar og vorum í tjaldvagni þar í tæpa viku ásamt vinum okkar. 15 stiga hiti, logn og sól á hverjum degi. Frábær staður, ekki síst sundlaugin ofan í fjöru. Ekki skrýtið að það komi kjarnmikið fólk frá svona stöðum;)

Gangi þér vel í baráttunni!

Dofri Hermannsson, 27.9.2007 kl. 18:30

5 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Grunaði ekki Gvend, ég var farin að hafa áhyggjur af þér. Ja, hér þetta eru heldur betur fréttir með fótinn, hversu lengi skyldi blessaður blóðtappinn búinn að vera til staðar??? Mig skal ekki undra þó einkennin hafi verið slæm frá fætinum. Gott að heyra að hægt var að tappa af þér vökvanum, nú fer þér að líða betur.

Þó frásögnin úr ómskoðunin sé sprenghlæginleg, ekki síst um viðbrögð læknisins sem ómskoðaði þig, lýsir hún nákvæmlega þeirri þróun sem hefur átt sér stað á LSH. Allt er kostnaðargreint í dag, ekkert má vinna nema að beiðni fylgi, því það þarf að kostnaðagreina og stemma af bókhaldið. Þú ert mögnuð, Gíslína, eins gott að þú gafst þig ekki. Strandakona í gegn

Allt er hey í harðindum og meira að segja getur kex verið herramannsmatur. Njóttu kvöldsins og matarins í botn.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 27.9.2007 kl. 18:45

6 identicon

Mikið er kerfið stíft á spítölunum. Fyrir nokkrum árum fór ég aðgerð (no 2 af því no1 tókst ekki) á hné og varmeð einhverskonar kæligræju á hnénu. Græjan lak og koddinn undir hnénu var blautur. Á kvöldvaktinni var hrært aðeins í rúninu mínu (kallað að búa um) og mer varð á að segja að það það þyrfti að skipta á koddanum. Aðalgrybban á vaktinni þverneitaði og spurði með þjósti hvort ég vissi hvað væri dýrt að þvo. Bleytunni var snúið niður (bara vatn sem betur fer) og strunsað út. Mér leið eins og flaki á færibandi og skreið uppí rúm. Það er stundum eins og eyðublöðin og reglurnar séu mikilvægari en fólkið. Líði þér sem allra best og Guð blessi þig. Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband