Margt smátt

 

Búin að eiga mjög góða daga síðan ég kom af spítalanum. Rólegt og þægilegt en samt nokkuð viðburðarríkt. Ég svaf lengi í morgun og fór svo í smá búðartúr. Ég er mest í ullarsokkum þessa dagana vegna þess að tásurnar eru í myndastyttuleik og hreyfast lítið sem ekki neitt, þetta orsakar hægt blóðstreymi og tilfinningin í tánum er eins og þær séu frosnar. Ég fór og fjárfesti í svörtum ullarsokkum svo það sæist síður í opnum skóm að skvísan væri ekki í fínum nælonsokkum.  Eftir ullarsokkakaupin gekk ég alveg óvart framhjá fatabúð í Glæsibæ og fyrir einhverja óútskýrða galdra sogaðist ég inn í búðina og fór að þreifa á fötum. Mátaði gallabuxur sem pössuðu og keypti þær.  Ég verð að viðurkenna að sniðið opinberar algjörlega mína rýru spóaleggi en ávinningurinn er sá að ég lít ekki út eins og ég sé að missa niður um mig fötin.  Mamma fékk áfall þegar hún sá mig og Rakel tengdadóttir fannst ég með aðeins of mikið bil á milli læranna. En hvað getur maður gert, fórnarlamb óforskammaðs sjúkdóms sem svífst einskis til að ná yfirhöndinni og étur mann upp að innan sem utan. Ég passa mig reyndar að vera alltaf í einhverju síðu niður fyrir rass og ermalöngu til að gestir og gangandi fái ekki ennþá frekari áföll að sjá hrörnunina sem krabbameinssjúklingar oft á tíðum lenda í.

En það gerðist nú fleira skemmtilegt, ég fór og heimsótti Sigrúnu og Yngvar og hitti þar Fjólu Maríu hans Héðins og við fórum að sjá Veðramót, mjög góð mynd, vel leikin og alls ekki mynd um Breiðavíkurmálin sem hafa verið í umfjöllun undanfarið.  Efnið um allt aðra hluti. Svo bauð ég Ásgeiri og Rakel  út að borða. Þau eru alltaf jafn fyndin. Þau komu hlaupandi inn um dyrnar og sögðu farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu verið að keyra Grensásveginn á leiðinni til mín þegar þau mæta löggunni, Ásgeir vissi að hann væri á of miklum hraða og sér að löggan snýr við á eftir honum, án þess að setja blikkljósin á. Hann ákveður að beygja á ljósunum inn í Hæðargarðinn sem er gatan fyrir ofan Bakkagerðið, leggja þar bak við stóran bíl, stökkva út og hlaupa niður göngustíginn til mín. Þetta heitir að leika á lögguna. Hann á nefnilega að fara í ökumat á morgun hjá kennaranum til að fá endanlegt ökuskírteini. Ökukennarinn hringdi í hann og boðaði hann í tímann og sagði að ef hann fengi sekt þá daga sem eftir eru fram að mati þá ætti hann ekki að borga fyrr en eftir ökumatið því punktarnir koma ekki inn í kerfið fyrr en eftir greiðslu. Þessi grey mega ekki vera með neina punkta til að fá endanlegt ökuskírteini og munur að fá svona góðar leiðbeiningar hjá kennaranum. 

Annars var keyrt aftan á mig í dag. Ég þurfti að snarstoppa og lítill jeppi nuddaðist upp á stuðarann hjá mér. Við skoðuðum skemmdirnar sem voru litlar en samt eitthvað sem þarf að sparsla og mála yfir á bílnum mínum og fylltum út einhverjar undarlegar skýrslur sem við vissum ekkert hvernig ætti að fara með og svo fór hver til síns heima. Þarf að tala við tryggingafélagið um þetta eftir helgi.  Fór á videoleiguna í gær eftir matarboðið hjá Rögnu og Agli og ætlaði að taka bíómynd á leigu en fór heim með undarlega heimildarmynd sem ég hef aldrei heyrt neitt um, hún heitir   What the Bleep Do We Know    http://www.whatthebleep.com/whatthebleep/

Athyglisverð mynd um mátt hugarins, skammtafræði, aðrar víddir o.fl. o.fl.  Bæði leikin og með viðtölum við fræðimenn. Fín mynd fyrir pælara og fólk eins og mig sem trúi því að við séum í fangelsi tilbúins raunveruleika sem er afmarkaður af okkar eigin hugsunum.  

Gott í bili, endilega prófið að taka undarlega dvd diska á leigu það gæti komið skemmtilega á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Bara stórflótti ? hehehe æj greyið.

Hef DVD pælinguna í huga þegar þokunni í toppstykkinu léttir

Ragnheiður , 30.9.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Það eru víða þungar pælingar í gangi. Gott hjá þér. Hausinn á mér er að springa af pælingum. meir um það síðar.

Kristjana Bjarnadóttir, 30.9.2007 kl. 13:58

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Frábært að þú átt svona góða daga. 

Anna Einarsdóttir, 30.9.2007 kl. 20:24

4 identicon

Gott að lesa þessa færslu. Er enn ekki alveg búin að fyrirgefa þeim sem láta þig keyra sig í morgunflug.......(sorry..)

Hefði verið æðislegt að fá þig í haustlitaferð í Norðurárdalinn í gær....en þeir standa enn.....og þú ert endalaust velkomin.

Sigrún á Bif (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 23:34

5 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Takk Sigrún mín, ég steingleymdi að láta þig vita að ég kæmist ekki til þín en þau sem ég keyrði buðust alveg til að taka rútuna en ég vildi endilega keyra þau. Vonandi kemst ég í heimsókn fljótlega.

Gíslína Erlendsdóttir, 1.10.2007 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband