4.10.2007 | 11:25
Anna frænka og þið öll...
Þessi þakkarorð eiga auðvitað líka við ykkur öll sem standið við bakið á mér með því að senda mér kveðjur, gjafir, styrkja mig fjárhagslega og klappa mér á bakið í tíma og ótíma. Stuðningurinn frá ykkur í bloggheimum, fjölskyldunni, vinunum og kunningjum er eitthvað sem hefur oft á tíðum náð að rífa mig upp úr þunglyndinu. Ég veit ekki hvernig ég fæ ykkur fullþakkað en vona bara að ég fái tíma til að borga fyrir mig með einhverjum hætti þótt síðar verði.
Ég ætla núna að koma að tveimur afmæliskveðjum, sú fyrsta er til Geirlaugar vinkonu sem átti afmæli á mánudaginn....Til hamingju elsku vinkona....og fyrirgefðu hvað þetta kemur seint, hef verið að mestu óvirk síðustu daga. Svo á hún Iðunn náttúruskvísa og systurdóttir mín afmæli í dag, hún verður hvorki meira né minna 19 ára stelpan. Hún bloggar líka alveg óborganlega fyndin blogg því hennar sýn á lífið er stundum alveg mögnuð, slóðin hennar er hér við hliðina. Til hamingju með afmælið kæra frænka.
Ég er hressari í dag og á von á Gunnu vinkonu í heimsókn í hádeginu. Ég ætla svo að reyna að komast eitthvað út úr húsi og í nokkrar búðir sem selja batterí og skartgripi. Ég á nefnilega forláta nælu sem mér var gefin í þrítugsafmælisgjöf frá þáverandi kærasta. Nælan er víst hin mesta völundarsmíð úr íbenholt og gulli og hefur einu sinni verið fengin að láni á skartgripasýningu. Þessa nælu er ég að hugsa um að fara með til gullsmiðsins sem bjó hana til og biðja hann um að kaupa hana af mér eða selja hana fyrir mig. Ég hef aldrei verið mikil nælukona og sé ekki ástæðu til að koma þessu á einhvern fjölskyldumeðlim. Mér skildist á sínum tíma að þessi gripur væri verðmætur og því finnst mér réttast að reyna að ná út úr honum pening sem ég get þá síðan gefið strákunum mínum. Hugsa að þeir yrðu hrifnari af aurnunum en gripnum enda illa skiptanlegur.
Athugasemdir
Ó Gillí mín..... það er nú svo mikill óþarfi að þakka mér sérstaklega. Ég veit að þú hefðir gert það sama fyrir mig.
Annars set ég hjálpsemi upp í stærðfræðijöfnu sem lítur svona út:
AÐ GERA EINHVERJUM GOTT = MÉR LÍÐUR BETUR
Hreinræktuð sjálfselska sýnist mér.
Anna Einarsdóttir, 4.10.2007 kl. 12:22
Alltaf góð í stærðfræðinni !
Það mætti taka þessa stærðfræðikennslu upp í grunnskólum
Kristjana Bjarnadóttir, 4.10.2007 kl. 12:46
Þið Anna eruð svo yndislegar báðar tvær. Alveg vildi ég geta gert svo miklu meira fyrir þig Gillí mín, tekið frá þér þennan sjúkdóm en þetta virkar því miður ekki svoleiðis. Í staðinn færðu hlýjustu hugsanir og bænir um að þú fáir að vera hér sem lengst við sem besta heilsu.
Ragnheiður , 4.10.2007 kl. 13:02
Að senda þér orku er alveg einstök tilfinning. Þú ert svo þroskuð sál og svo einlæg. Mér er það mjög dýrmætt að lesa þakkir frá þér á blogginu. Að geta stutt örlítið við aðra manneskju og fengið ómeðvitaðan stuðning til baka. Þú ert yndisleg og ég vildi svo gjarnan geta tekið þig í faðminn. Mér finnst gott hjá þér að koma nælunni í verð. Guð blessi þig og allt þitt fólkFríða.
Fríða (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.