5.10.2007 | 18:11
Bloggað síðan 2004
Eftir að ég veiktist kom fljótlega í ljós að til að létta álagi af Páli og öðrum fjölskyldumeðlimum sem stóðu í fréttaflutningi af heilsufari mínu var þægilegast að setja bara nokkur orð á bloggið á hverjum degi þar sem allir gátu fylgst með framgangi mála. Síðan hafa efnishlutföll bloggskrifanna breyst hægt og hljótt úr almennum umræðum og skemmtisögum yfir í heilsutengdar fréttir og gagnrýni á íslenskt velferðarkerfi.
Fyrir þann sem stendur frammi fyrir hugsanlegum ótímabærum dauðdaga er það eðlilegur hluti af undirbúningi brottfarar að velta fyrir sér jarðarförum. Langt er síðan ég gaf það út að mig ætti að brenna en ekki bora ofan í holu og moka yfir. Í Kastljósi nú í vikunni var farið í heimsókn í líkbrennsluna í Fossvogi og það ferli kynnt sem lítur að líkbrennslum. Mér fannst þetta ákaflega áhugavert og hafði fyrir ekki löngu síðan ákveðið að fara á stúfana að skoða þessi mál betur. Að mínu mati er þetta fyrirkomulag mjög hentugt og rökrétt út frá rýmislegu sjónarmiði. Eðiliegt er að minnka ummál þess sem ekki kemur til með að krefjast rúms né lofts eftir lokadag. Fyrst er kistan brennd, síðan er er leyfunum safnað saman, allt járn úr kistunni sigtað frá og restin brennd aftur. Að lokum er duftinu komið fyrir í krukku. Það kom á óvart að einungis 20% jarðarfara á Íslandi eru bálfarir en hlutfallið hefur samt aukist jafnt og þétt á síðustu árum.
Að vísu svaraði þátturinn ekki öllum mínum spurningum eins og hvort bæði þurfi að kaupa kistu og krukku og hvar krukkukirkjugarðurinn er og hvernig hann er skipulagður. Eins á ég eftir að leita upplýsinga um hvort dreifa megi öskunni út í náttúruna eða hvort hún verður alltaf að vera pökkuð inn í umbúðapappír ofan í áðurnefndri krukku.
Svo má víst ekki gleyma því að það er dýrt að deyja og og eins gott að eiga fyrir útförinni þegar þar að kemur.
En núna að skemmtiefninu.....ég er að fara á Humarhúsið með Palla til að borða humar í aðalrétt....hún Þórdís Tinna er alltaf að tala um humar á síðunni sinni og ég fæ vatn í munninn í hvert skipti og uppgötvaði þar að auki að ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma keypt mér humar í aðalrétt á veitingahúsi....af því hann er alltaf svo dýr...en núna ætla ég að láta verða af því. Dagurinn búinn að vera fínn, ég bara næstum því í sparibúning og hress eftir því.
Góða helgi elskurnar og fáið ykkur eitthvað gott að borða um helgina.
Athugasemdir
Ég vona að þú hafir ekki efni á að deyja.... og þá verður þú að lifa lengi enn.
Góða skemmtun á Humarhúsinu.... þú átt það svo sannarlega skilið að fá besta humar í heimi.
Anna Einarsdóttir, 5.10.2007 kl. 18:36
Á litla dóttir í gamla kirkjugarðinum í Keflavík, krukkan mín verður sett í sömu gröf.
En eins og Anna segir, þú verður að fresta þessu um þó nokkur ár vegna kostnaðar.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.10.2007 kl. 18:52
Sammála! Kostnaðurinn er alltof mikill, ég get staðfest það. Þú verður að fresta brottför um hríð.
Auk þess hefur þú hefur ekki tíma til þess að kveðja okkur á næstunni, nóg að gera framundan og fleiri ferðir í Humarhúsið m.m.; þú ert rétt að byrja, mín kæra
Við eigum líka eftir að hrista upp í kerfinu, þér tókst vel til um daginn og komst af stað mikilli bylgju. Við eigum eftir að koma af stað hamförum í heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytunum. Við tímum ekki að sleppa þér nærri því strax
Njóttu vel í kvöld, vonandi heyrum við frá þér um helgina.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.10.2007 kl. 19:02
Gott að þú áttir góðan dag. Hugsa stöðugt til þín, en núna ÆTLA ég að mæta í heimsókn um helgina, kíkja á bókhaldið, en fyrst og fremst þig. Það er kannski einn ókostur við bloggið, mér hættir til að gleyma "alvöru" samskiptum því að mér finnst stundum að ég hafi verið að tala við þig á hverjum degi, en hef svo bara verið að lesa, en ekki komið eða hringt. Ég er e-ð feimin við að kommenta, en það er auðvitað bara kjánaskapur. Ég vona að þið hjónakornin njótið kvöldsins og matarins. Koss og knús, Ebba
Ebba Sturludóttir (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 19:11
Frábært ! Góða skemmtun á Humarhúsinu...namm namm. Ég var þar í vor (fyrir ósköpin öll) en fékk mér ekki humar, fékk mér bleikju og hún var snilld
Það kom til af blogginu, hafði rausað um að eldisbleikja væri vond og ákvað að prufa hana með opnum huga
Ragnheiður , 5.10.2007 kl. 21:26
Segðu mér sögu, ég er svo forvitin....................
Kristjana Bjarnadóttir, 5.10.2007 kl. 21:38
Sæl kæra Gillí. Þú ert bara HETJA!!!!!! Hef fylgst með blogginu þínu sem þögull áskrifandi í dálítinn tíma. Dáist að æðruleysi þínu. Þú ert bara HETJA!!!
Blómið, 5.10.2007 kl. 22:45
Það er gott að vita það í tíma hvernig ganga á frá leyfunum af manni eftir dauðann. Ég er ákveðin í að láta brenna mig (er við góða heilsu og allt það). Mér hefur alltaf fundisr erfið tilhugsun að láta grafa mig svo ofninn er góð lausn. Þú ert auðvitað alltof ung til að fara af jörðinni, en það er ekki spurt um slíkt.
Mér finnst frábært hjá ykkur hjónum að prufa humarinn. Og ekki spilir fyrir að kokkarnir á Humarhúsinu eru örugglega smillingar. Guð blessi ykkur,
eigið þið góða helgi
og góðann humar, ummm
Fríða
Fríða (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 23:40
Sæl Gíslína. Nú verð ég loks sýnileg á blogginu þínu. Klikkaði á slóð og viti menn, nú sést ég. Guð veri með ykkur
Fríða
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.10.2007 kl. 10:20
Vá ég öfunda þig af humarnum, þú átt hann svo sannarlega skilin
Benna, 6.10.2007 kl. 13:07
Sæl Gíslína.
Þú þekkir mig ekki en ég rakst á bloggið þitt í dag. Ég varð að kommenta og bæta við upplýsingum sem þú ekki fékkst í Kompás.
Ég var að vinna í Kirkjugörðum Reykjavíkur og við fórum í kynnisferð þarna um og fengum að vita allt :)
Það þarf að kaupa kistu, það þarf líka að kaupa krukku, hana verður að innsigla og grafa í vígðri mold. Henni má ekki dreifa út um sveitir.
Svo að þú sérð að þetta er alltof dýrt batterí fyrir þig og því verður þú að vera ofan jarðar enn sem komið er
Gangi þér sem best í baráttunni. Sendi þér jákvæða og góða strauma
Kristín María (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 09:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.