Verkjalaus en syfjuð

Fór að hitta vinkonur mínar í hádeginu en var greinilega ekki upp á mitt besta, svitnaði eins og ég væri í ræktinni, raddlaus með hellu fyrir eyrunum. Aumingja þær, heyrðu ekki hvað ég sagði og mokuðu í mig servíettum til að stoppa höfuðflóðin. En það var samt gaman að hitta gamlar Kaupþingskonur,  Siggu Hönnu sem ég hef ekki hitt í mörg ár og svo auðvitað Gunnu sem er sjálf að berjast við krabbamein.

Fór svo heim og lagði mig. Var næstum verkjalaus í dag. Þessir verkir koma og fara eins og þeim sýnist og líklegasta skýringin á því segja Karítas konur að sé misjafnt álag á taugaenda vegna vökvasöfnunar. En það virðist alltaf fylgja böggull skammrifi því þrátt fyrir verkjaleysið hef ég ekki fengið neinn frið fyrir óstjórnlegri syfju. Hef alls ekki getað einbeitt mér að neinu því augun bara lokast ósjálfrátt. Skýringin á syfjunni er víst....því miður...krabbameinið sjálft. 

Annars kom verkjaleysið sér vel því Kári og börnin hans þrjú voru í mat hjá mér ásamt Ásgeiri og Rakel. Kári er að fara í áfengismeðferð á Vogi á morgun og verður því í burtu í lágmark 10 daga.  Okkur langaði því að kveðja hann og hann langaði að sjá krakkana áður en hann verður læstur inni á Vogi. Hann er mjög jákvæður og hlakkar til að takast á við vandamálið með góðri hjálp. Ég bið til Guðs að hann losni við helv...brennivínið...sem er ekkert annað skrattinn í fljótandi formi.

Karitas konurnar höfðu samband við Agnesi út af gærkvöldinu á BB og hún hringdi svo í mig og við áttum langt spjall. Ég fer í lungnasneiðmynd á miðvikudaginn og svo í aftöppun í beinu framhaldi af því. Svo er spurning um að fá verkjalyfjaskammtara hengdan á sig til að gera verkjastillinguna auðveldari. Ég er ekki mjög spennt fyrir því, nenni ekki að rogast með dælu á brjóstinu og viðeigandi kubb sem er eins og veski að stærð. Ætla að sjá til með það enda góður dagur í dag. Agnes ætlar að sækja um hvíldarinnlögn á líknardeildina, tvær vikur eða svo, það er biðlisti svo ég veit ekki hvenær kæmi að því. Þar eru bara 8 stofur og yfirmaðurinn sérfræðingur í verkjastillingu. Þetta er eins og að fara á hótel, ég gæti farið í Kringluna eða út að borða og komið svo og sofið eða bara notið þess að hafa engum skyldum að gegna og dundað mér að sauma út eða pikka á tölvuna.

Segi þetta gott í bili og reyni að blogga um eitthvað annað en veikindi á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Baráttukveðjur til Kára og ég er sammála þessari skilgreiningu þinni með vínið...bara dulbúinn óþverri !

Líknardeildin er notalegur staður og allt gert til að fólki líði vel þar. Yfirmaðurinn þar er alger galdrameistari á sínu sviði.

Gott að þér leið betur í dag...fer og set ljós og bæn.

Ragnheiður , 15.10.2007 kl. 22:26

2 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Ánægjulegt að þér hefur liðið betur í dag og vonandi verður framhald þar á en vonandi að þú komist sem fyrst að í hvíldarinnlögn ,góða nótt

Katrín Ósk Adamsdóttir, 15.10.2007 kl. 22:28

3 Smámynd: Þórdís tinna

Bloggaðu bara eins mikið um veikindin og þú þarft elskan mín- þú hjálpar sjálfum þér með því og okkur hinum líka.  Þú gefur okkur óendanlega mikið með hreinskilni þinni og einlægni.  Vona að þú komist sem fyrst inn á líknardeild til að næra líkama og sál- það er bara yndislegast að vera þar og koma.

   Dáist að drengnum að drífa sig í leit að hjálp- skilaðu baráttukveðju til hans- láttu mig vita ef að ég get gert eitthvað- hvað sem er - hvenær sem er- aldrei að vita hvenær að gæti verið gagn af kerlingunni

Þórdís tinna, 15.10.2007 kl. 23:08

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Fegin að "heyra" frá þér. Tek heils hugar undir með Þórdísi Tinnu, það sem þú gefur okkur hinum er ómetanlegt. 

Líknardeildin á eftir að gera þér gott, verkjastilling  er algjört "must" svo þú getir einbeitt þér að baráttunni. Allir mjög ánægðir sem hafa komið þar við. Vona að þú komist að sem fyrst, mín kæra

Þú mátt vera stolt af stráknum þínum, það þarf ekki lítinn kjark til að takast á við vandann, ekki síst í því álagi sem hann er í. Börnin okkar taka svona alvarleg veikindi mikið inn á sig og líður oft mjög illa. Hann er greinilega mjög sterkur einstaklingur, alveg eins og mamma sín

Hlýjir straumar og baráttukveðjur úr Engjaselinu 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 15.10.2007 kl. 23:32

5 identicon

Baráttukveðjur Guð blessi þig. Kkv ÞÞK

Þuríður Þorbjörg Káradóttir (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 23:55

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 00:10

7 Smámynd: SigrúnSveitó

Vona að það finnist ásættanleg lausn á verkjastillingarmálunum.  Baráttukveðjur til þín.

Og flottur hann Kári að viðurkenna vanmátt sinn, og drífa sig í meðferð.  Það er frábært.  Og já, Bakkus er sko djöbbi í fljótandi formi!

Ljós&kærleikur... 

SigrúnSveitó, 16.10.2007 kl. 00:25

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Næstum verkjalaus í dag.....það eru frábærar fréttir.  Vonandi verður morgundagurinn þannig líka... og hinn og hinn og...... allir dagar. 

Við Brynjar biðjum að heilsa Kára.   

Anna Einarsdóttir, 16.10.2007 kl. 00:45

9 identicon

Leit við hjá Þórdísi Tinnu hún birður að heilsa. Hún benti á þig og þínar aðstæður. Mér finnst hörmulegt að vita af öllum þessu ungu konum og auðvitað körlum líka sem eru í baráttu við krabbamein því það er líka ekki síður en Bakkus mikill djöfull og erfitt viðureignar ekki síður.

Sendi þér mínar bestu kveðjur til þín í heitri von um að vel takist með verkjalyfin og þú komist inná Líknardeildina í "hóteldvölina" í tvær vikur. Það er alltaf gott að vera á hóteli, hótel JÖRð er eitt af þessum hótelum, magnaður texti hefur mér alltaf fundist.

Kær kveðja frá Sólveigu

Sólveig (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 08:44

10 identicon

Kæra Gíslína.

Þakka þér fyrir! Ég fylgist reglulega með þér og dáist að hugrekki þínu og æðruleysi. Þú og Þórdís Tinna hafið fært mér dýrmæta gjöf með skrifum ykka - að læra að meta hverja stund einsog hún kemur fyrir vitandi að hvert andartak er einstakt. Hafið þökk fyrir það - báðar tvær.

Ég mun áfram fylgjast með, senda þér kraft og biðja þér allrar mögulegrar blessunar.

Kær kveðja.

Anna Lára Steindal (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 09:24

11 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Ég hef verið að fylgjast með þér í gegnum Ragnheiði. Vonandi þarftu ekki að bíða lengi eftir hvíldarinnlögn. Þær eru víst algerir snillingar á líknardeildinni. Guð gefi þér styrk í baráttunni og gefið þér góðan nætursvefn og verkjalausan dag.

Sigurlaug B. Gröndal, 16.10.2007 kl. 09:32

12 identicon

Elsku Gillí, ég veit að þú hefur haft áhyggjur af honum Kára þínum og það er frábært að hann sé að fara að gera e. a. í þessu. Gangi ykkur vel. 

Sesselja (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 11:54

13 identicon

Hæ Gillí, þetta er Dísa hans Sigga í Sæmark. Hef verið að kíkja á síðuna þína og hugsa til þín. Rifja alltaf upp í leiðinni hvað var gaman hjá okkur í Köben um árið! Gangi þér vel í baráttunni, ég vildi ég gæti eitthvað gert, en ég reyni að senda þér hlýja orkustrauma!!

Ásdís Ásgeirsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 13:27

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sendi þér innilegar kærleikskveðjur, frábært og lærdómsríkt að lesa bloggið þitt. Þú gefur svo mikið af þér. Kær kveðja frá Skaganum. Átti að skila kveðju frá Þórdísi Tinnu.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.10.2007 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband