Einn langur

 

Er á fullu að finna út hvað næsta skemmtiútspil verður. Erfitt ef verkir standa í veginum en ef verkjavegurinn verður vel ruddur er aldrei að vita hvað mér dettur í hug að gera. Samt ekki fallhlífarstökk, aldrei langað til að prófa það.  Góður matur og bíó er ofarlega á listanum ásamt Berlín eða annarri styttri ferð erlendis. Reyna að hitta barnabörnin oftar og fara að huga að helgarferð til Akureyrar.

Var akkúrat að heyra frétt í sjónvarpinu um langlífi krabbameinssjúklinga. Þar voru að venju talin upp algengustu krabbameinin, brjósta-, blöðru-, lungna- og ristilkrabbamein. Maður verður stundum létt fúll yfir áherslunni sem lögð er á að finna lækningu við þessum krabbameinum meðan önnur eru svo ómerkileg að engin stendur í því að kanna möguleika á lækningu við þeim.  Þarna sem annarsstaðar virðist fjármagn ráða för. Ef einhver finnur upp lyf við gallvegskrabbameini mun þeim hinum sama hvorki auðnast frægð, frami né auður sökum smæðar sjúklinganna í prósentulegu hlutfalli við önnur krabbamein. Til að breyting verði á þarf sennilega eitthvað mikið að koma til eins og t.d. að Bill Gates greinist með sjaldgæft ólæknandi krabbamein og fari í kjölfarið að leggja fé í rannsóknir á þessu tiltekna meini, án þess að ég óski Bill kallinum neins ills. En auðvitað er ég hæstánægð með það sem verið er að gera til að lækna áður nefndar krabbameinstegundir og vona bara að fyrir rest verði fundin upp endanleg lækning við þessari óværu.

Svo er hér eitt sem stuðaði mig talsvert en það var forsíða á nýja Blaðinu um daginn en þar var flennistór mynd af Pétri Blöndal og undir stóð að Pétur ætti að fara að endurskoða heilbrigðiskerfið.  Þetta fannst mér líkast því að hleypa skrattanum í himnaríki. Pétur er klár og mikill stærðfræðisnillingur en hann myndi seint skora hátt á samskiptagreindarprófi. Minn gamli yfirmaður í Kaupþingi var tölfræðisnillingur, sífellt með nýjar hugmyndir í rassvasanum um hvernig hægt væri að græða meiri pening en ef þú kvartaðir yfir laununum og að þau dygðu ekki fyrir framfærslu fékkstu ræðu og útreikning um hvernig þú kæmist svo vel af þessum launum að þú ættir jafnvel afgang til að kaupa þér bíl.....eða jafnvel íbúð. Sparnaður var töfraorðið. Tilfinningar, samúð, samkennd, gjafmildi eða bara blákaldur raunveruleikinn voru ekki hans sterka hlið. Fínn kall samt og fyndinn á köflum.

Það var eins og mig grunaði, mér hefndist fyrir góðan dag í gær og var alveg að drepast í morgun. Var svo heppin að Bergþóra Karítas kona kom í heimsókn fyrir hádegið og sprautaði mig með Tordol. Það vildi líka svo vel til að Palli hafði skroppið heim í efnistöku og var því viðstaddur sprautunina. Þarna fékk hann loksins kennslu í því að sprauta mig svo ég þarf því ekki að hringja í stúlkurnar og biðja þær um að koma. Palli segist alveg klár á þessu og svei mér þá ef hann hlakkar ekki bara til að fá að leika doktor Pál öðru hverju. Hann er svo að fara í viðtal til Karítaskvennanna í hádeginu á morgun. Þær vilja ræða við hann og svo virðist sem þær eigi líka að sinna stöðu makans við svona aðstæður. Ég vona bara að hann verði jákvæður og nái að nýta sér það sem þær hafa upp á að bjóða.

Komst í mat til Gunnhildar og síðan í smá innlit í Smáralind þar sem ég leitaði að óléttudeildinni. Ég fékk nefnilega þá brilljant hugmynd að meðgöngudeildin gæti átt buxur sem pössuðu á mig, víðar að ofan þrengri að neðan. Þegar ég er orðin svona þanin þá er ég með svo mikla bumbu að ég get tekið undir hana og fyrir neðan gægjast út niðurlútir spóaleggir. Meðgöngudeildin í Debenhams er víst ekki til lengur svo það náði ekki lengra.  Smáralindarheimsóknin endaði með því að ég keypti mér tvennar Joe Boxer náttbuxur.....heimabuxur eins og þær heita núna, alveg dásamlegar flíkur. Fór svo og gaf blóð í erfðarannsókn og fékk bol að launum.

Keyrði Kára á Vog í morgun, hann var bara hress og hlakkaði til að takast á við verkefnið framundan. Ég heyri að vinir hans hafa verið afar ánægðir með þessa ákvörðun og ætla að styðja vel við bakið á honum þegar hann kemur út aftur.  Það munum við, fjölskyldan hans líka gera.

Nú er nóg komið orðið alltof langt. Verð að fara að sinna öðrum bréfaskriftum.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Áhugaverður pistill.   

Þegar þú talar um sjálfa þig.... ólétt með niðurlúta spóaleggi....... þá hugsa ég með mér  "Ekki sá ég neitt af þessu þegar við hittumst á fimmtudaginn.  Þú lítur svo vel út, að ef ég vissi ekki af veikindum þínum, myndi mig ekki gruna að þú værir svona mikið veik".  Jafnframt hugsa ég "þegar það hefur komið fyrir mig að fá oggolitla bumbu... svona sem maður getur girt ofan í buxurnar... þá finnst mér ég vera akfeit".   Semsagt... maður upplifir sjálfur meiri breytingar á útliti en tilefni er til og aðrir sjá.... og það er eðlilegt.

Er þetta skiljanlegt ?    Æ, læt það fara samt, sem gátu þá.

Í stuttu máli;  Þú lítur ótrúlega vel út Gillí. 

Anna Einarsdóttir, 16.10.2007 kl. 17:39

2 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Góð skrif hjá þér og  mér líst vel á að þessar pælingar um að skella sér eitthvað til að létta lundina  Ég er mjög undrandi að Pétur Blöndal hafi verið valinn til að gera þetta en alla vega það sem ég hef lesið og hann látið útúr sér er ekki til þess fallið að mér finnist hann eiga heima í þessu hlutverki en það er greinilegt að manninum finnst sjúklingar vera í flestum tilfellum fólk sem ætti að vera að vinna en ekki á örorku.Njóttu vel að vera í náttbuxunum en það eru sko þægilegustu buxur í heimi eða það finnst mér

Katrín Ósk Adamsdóttir, 16.10.2007 kl. 18:08

3 identicon

Bara tilhugsunin um P.B. eykur lýkurnar á því að ég hoppi í hafið!

Það að skipa hann til verka sem hafa með afkomu öryrkja(sem hann talar um eins og meindýr) er ámóta vænlegt fyrir tegundina og að skipa blóðþyrstan mink til þess að sjá um öryggismál alifugla...

Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 18:25

4 identicon

Sæl Gillí mín!

Ég held að ég hafi ekki "kommentað" á þessa síðu áður en oft á hina. Ég fylgist alltaf vel með þér og þú ert alltaf í huga mínum. Pétur Blöndal....alltaf púkó þegar menn greiða yfir skallann, samt fyndið í viðtölum í roki  . Ég styð hann Kára heils hugar og trúi að hann standi sig. Bestu kveðjur og hafðu það sem best..  Bryndís

Bryndís (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 18:49

5 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Jú Anna mín ég skildi þetta alveg...er svo klár skiluru.... Takk fyrir hrósið.  Katrín og Linda ég sé að þið skiljið hvað ég á við með PB og sjúklingana og Linda frábær samlíking. 

Gíslína Erlendsdóttir, 16.10.2007 kl. 18:57

6 identicon

Sæl...ég hef ekki kvittað hér áður,en fylgst með þér og fann síðuna þína fyrst í gegnum Þórdísi Tinnu.Mér finnst þú vera algjör hetja,hvernig þú dílar við þín veikindi og auðvitað er svaka gott að komast eitthvað burtu af og til,kannski bara til að breyta um umhverfi og gleyma sér í einhverju öðru.En ég hef þig á mínum bænalista og gangi þér vel..

Björk töffari (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 20:13

7 Smámynd: Ragnheiður

Hoppa í hafið hljómar spennó ef PB á að sjá um málaflokkinn. Skildi Önnu ágætlega, ég er greinilega álíka klár...hehe

Hafðu það sem allra best elsku Gillí

Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 20:44

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Gott að þú ert að gera svona skemmtiferðaplön. Þau halda huganum lifandi og jákvæðum. Hugsaðu um þig hrausta og glaða í alls kyns skemmtiferðum. Kannski við þurfum svona reiknisnilling eins og Pétur til að einfalda kerfið. Hann er nú ekki einn í þessari vinnu og merkilegt nokk, mér leist bara vel á því kannski þarf mann með skort á vorkunnsemi til að fara yfir málin. Að hefnast fyrir eitthvað er hugsun sem er best geymd á haugunum. Að fá laun fyrir eitthvað væri nær. Guð blessi þigFríða

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.10.2007 kl. 21:20

9 Smámynd: SigrúnSveitó

SigrúnSveitó, 16.10.2007 kl. 22:08

10 identicon

Það er greinilegt að PB hefur eitrunaráhrif á mig, því mér er fullljóst að líkur eru einfaldlega líkur - nema manni sé öllum lokið...

,,Bara tilhugsunin um P.B. eykur lýkurnar á því að ég hoppi í hafið!´´

Ég er svo þráhyggin að ég lít tæpast glaðan dag fyrr en ég er búin að létta þessu stórmáli af hjarta mér ........

En úr því að ég er byrjuð: Fyrir nokkrum árum var haft eftir ónafngreindri konu að það væri nákvæmlega sama hvað maður kysi á Íslandi - alltaf kæmi Finnur Ingólfsson upp úr kjörkassanum.

Atburðir liðinnar viku rifjuðu þetta óþyrmilega upp...

Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband