Færsluflokkur: Bloggar

Frumsýning

Ég spurði manninn minn í dag hvað hann væri búin að gera og segja ef hann væri landsliðsþjálfarinn í fótbolta karla......"ég væri löngu búin að segja upp starfinu og ef ekki þá væri ég núna á leiðinni úr landi".   Hvað í ósköpunum er að brjótast um í hausnum á þessum annars ágæta manni, ætli hann sjái fram á að fara á atvinnuleysisbætur. Það hlýtur að vera eitthvað mjög slæmt sem tekur við hjá honum ef hann hættir að þjálfa. Ekki búinn að ná öllu út úr liðinu...segir hann, hann stefnir kannski neðar...hver veit.

Annars hef ég lengi stutt þá hugmynd að fá bara Guðjón aftur í jobbið. Hann er eini íslenski þjálfarinn sem er nógu geggjaður til að ná árangri Devil.

Við vorum að koma heim af frumsýningu á myndinni Syndir feðranna, heimildarmynd um Breiðavíkurheimilið. Ég var nokkuð ánægð með myndina, hún svaraði flestum mínum spurningum um þetta mál. Ég sá meira að segja mynd af Eika heitnum sem dvaldi þarna meðan Þórhallur var við stjórn. Eiki var einn af þessum krökkum sem var erfiður, sennilega í dag greindur ofvirkur en var sendur til Breiðavíkur og kom líklega ekki heill þaðan því honum reyndist erfitt að fóta sig í tilverunni alla tíð síðan.

Ég dáðist að mönnunum sem þarna komu fram og sögðu sögu sína um leið og ég hugsaði til þess með hryllingi hversu fáránlegt þetta allt var. Þarna var blandað saman litlum drengjum frá 8 ára aldri fram á unglingsaldur og ég sá fyrir mér elskulegan 8 ára Gabríel Mána sendan burt frá heimilinu sínu, ekki í nokkra mánuði heldur í nokkur ár. Þeir fengu enga samúð, enga umhyggju, bara grimmd, annað hvort eða bæði af eldri drengjunum eða starfsfólkinu. Persónulega finnst mér ríkið skulda þessum mönnum bætur þótt það dugi skammt þegar mannslíf eru í húfi.

Ásgeir og Rakel eru farin til Madridar yfir helgina í árshátíðarferð en við Palli eigum von á gestum annað kvöld. Helgin er óskrifað blað, kannski reyni ég að kíkja á nokkrar útsölur og hugi að jólagjöfum því tíminn líður alveg ógurlega hratt.  

Allt sem ég geri er á hálfum hraða og að auki eru dagarnir bara hálfir því ég kemst ekki á fætur fyrr en fyrsta lagi klukkan tíu því ég þarf að verkjastilla mig og oft ná upp svefni eftir truflaðar nætur.  Palli var vakinn klukkan 6 í morgun og krafinn um sprautu, hann stökk á fætur, náði í græjurnar og nálin á kaf í mjöðmina.  Engin áhrif, ég hélt áfram að kvarta og þá kom í ljós að hann hafði tekið vitlaust lyf, ég fékk sem sagt morfín í stað Toradolsins svo hann þurfti að sprauta aftur. Mjög gott að geta bara snúið sér á hægri hliðina og fengið læknisþjónustu.


Saklaust-Fullorðið-Ósanngjarnt

SAKLAUST   - elskar hann mig, elskar hann mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki......  FULLORÐIÐ - kaupa hús, ekki kaupa hús, kaupa hús, ekki kaupa hús..... ÓSANNGJARNT  - gefast upp, ekki gefast upp, gefast upp, ekki gefast upp..... 

Slæm verkjaköst brjóta andann niður í frumeindir, manni verður sama um allt, nenni þessu ekki lengur, ömurlegt líf.  Á góðum dögum er maður alheill, læknaður, skíturinn horfinn á haf út, nýt hverrar mínútu, lifi eðlilegu lífi. Gerði mér grein fyrir því í dag hversu slæma daga ég hef átt síðustu vikur. Ég losnaði nefnilega við 1,2 lítra af mysu úr brjóstholinu og einn líter af undanrennu úr kviðnum----samlíkingar í takt við útlit innihaldsins. Allt í einu gat ég andað eðlilega, dregið loftið á kaf í lungun og hlaupið upp og niður stigann án þess að hljóma eins og mæðuveik rolla. En eftir átökin fylgdu verkirnir þegar innyflin og kerfið fór að aðlagast breytingunum. Þá kom doktor Páll til skjalanna eins og frelsandi engill og sprautaði mig í rassinn með Toradol.

Hann fékk fyrstu æfingu í gærkvöldi þegar verkirnir gerðu sína hefðbundnu innrás og svei mér þá ef hann er ekki fæddur í hjúkrunarstarfið, ég fann ekki baun fyrir stungunni, það vantaði bara hvíta sloppinn og hlustunarpípuna Cool.

Ég fór í lungnasneiðmynd í dag en niðurstöður úr henni lágu ekki fyrir þegar ég losnaði af deildinni. Á tíma hjá Agnesi í næstu viku og fæ þá glænýjar blóðprufuniðurstöður.  Núna er bara að nota dagana áður en vökvasöfnunin fer aftur að líkjast Hálslóni.   

Ég hitti Þórdísi Tinnu í dag í fyrsta skipti, hún var í lyfjagjöf, við rétt náðum að heilsast og hún að segja mér góðar fréttir áður en mér var kippt upp í rúm. Hún lítur svo vel út, með slétt og fallegt andlit og ekki að sjá á henni neina uppgjöf, augljóst samt að hún var sárþjáð.

Fór í nálastungur í dag til Dagmarar Eiríksdóttur, það var alveg magnað, tvær nálar í vinstri fótinn til að berjast við bjúg og vökvasöfnun og fljótlega eftir stungurnar fann ég skrýtna tilfinningu í maganum sem færðist svo aðeins til á magasvæðinu, þessu fylgdi örstutt flökurtilfinning.  Svo bara svaf ég enda syfjudagur í dag.   

Kári hringdi af Vogi, hann er alsæll, meðferðin byrjaði strax í gær, hann sér mest eftir því að hafa ekki verið löngu farinn þangað. Þeir voru jákvæðir í hans garð sökum þess að hann vill svo innilega sjálfur leysa málið og er tilbúinn til að ganga alla leið til þess. Hann segir að þarna sé ekkert sjónvarp né útvarp, þeir mega ekki vera með neinar græjur, geislaspilara, ipod, gsm síma eða annað dót, það eina sem má er að lesa bækur. Það má koma með gjafir til hans en þá verður að skilja þær eftir í afgreiðslunni, ég ætla að hringja á morgun og spyrja hvað sleppur í gegn sem gjöf. Myndir eftir krakkana, blóm eða annað, betra að vera viss.  

Enduðum daginn í frábæru afmælismatarboði hjá Yngvari og Sigrúnu hér í Hæðargarðinum, Yngvar á afmæli í dag og við fengum mjög góða gúllassúpu, besta ost sem ég hef smakkað og nýtt speltbrauð frá Oddi bakara.  Við brottför leysti Sigrún mig út með boðsmiða á nýju íslensku heimildarmyndina Syndir feðranna sem frumsýnd verður á morgun.

Ætla núna í rúmið að lesa Secret bókina sem ég keypti í dag. Meira hvað bókabúðir eru „góðir" staðir, ég get alveg gleymt mér við að skoða allar bækurnar sem mig langar að lesa. Keypti líka íslenskan reyfara í afmælisgjöf fyrir Yngvar sem er norskur og í íslenskunámi í HÍ og fékk þá aðra með „frítt" og valdi mér bókina um Thorsarana og svo einn reyfara á ensku handa mér eftir sama höfund og skrifaði kvenspæjarastofusögurnar.  

Hvernig var þetta....ætlaði ég ekki að vera farin í rúmið... Sleeping


Þakkir

Mig langar að þakka henni Þórdísi Tinnu fyrir að minnast mín á síðunni sinni. Hún er löngu orðin landsfræg fyrir sína opnu umræðu um baráttuna við krabbamein. Ég held samt að ef einhver þarf stuðning þá sé það einmitt hún sjálf því ég vildi ekki standa í hennar sporum, að vera einstæð móðir á bótum frá ríkinu í baráttu við óvægin sjúkdóm 24 klukkustundir á sólarhring.  Ég vil líka þakka ykkur sem lesið bloggið mitt og sendið mér kveðjur, kveikið á kertum og biðjið fyrir mér. Það er ómetanlegt.

Með ykkar hjálp og óendanlegri vissu um sigur í baráttunni við krabbameinið munu ég, Þórdís Tinna og við öll halda áfram að lifa góðu lífi um ókomin ár Heart.


Einn langur

 

Er á fullu að finna út hvað næsta skemmtiútspil verður. Erfitt ef verkir standa í veginum en ef verkjavegurinn verður vel ruddur er aldrei að vita hvað mér dettur í hug að gera. Samt ekki fallhlífarstökk, aldrei langað til að prófa það.  Góður matur og bíó er ofarlega á listanum ásamt Berlín eða annarri styttri ferð erlendis. Reyna að hitta barnabörnin oftar og fara að huga að helgarferð til Akureyrar.

Var akkúrat að heyra frétt í sjónvarpinu um langlífi krabbameinssjúklinga. Þar voru að venju talin upp algengustu krabbameinin, brjósta-, blöðru-, lungna- og ristilkrabbamein. Maður verður stundum létt fúll yfir áherslunni sem lögð er á að finna lækningu við þessum krabbameinum meðan önnur eru svo ómerkileg að engin stendur í því að kanna möguleika á lækningu við þeim.  Þarna sem annarsstaðar virðist fjármagn ráða för. Ef einhver finnur upp lyf við gallvegskrabbameini mun þeim hinum sama hvorki auðnast frægð, frami né auður sökum smæðar sjúklinganna í prósentulegu hlutfalli við önnur krabbamein. Til að breyting verði á þarf sennilega eitthvað mikið að koma til eins og t.d. að Bill Gates greinist með sjaldgæft ólæknandi krabbamein og fari í kjölfarið að leggja fé í rannsóknir á þessu tiltekna meini, án þess að ég óski Bill kallinum neins ills. En auðvitað er ég hæstánægð með það sem verið er að gera til að lækna áður nefndar krabbameinstegundir og vona bara að fyrir rest verði fundin upp endanleg lækning við þessari óværu.

Svo er hér eitt sem stuðaði mig talsvert en það var forsíða á nýja Blaðinu um daginn en þar var flennistór mynd af Pétri Blöndal og undir stóð að Pétur ætti að fara að endurskoða heilbrigðiskerfið.  Þetta fannst mér líkast því að hleypa skrattanum í himnaríki. Pétur er klár og mikill stærðfræðisnillingur en hann myndi seint skora hátt á samskiptagreindarprófi. Minn gamli yfirmaður í Kaupþingi var tölfræðisnillingur, sífellt með nýjar hugmyndir í rassvasanum um hvernig hægt væri að græða meiri pening en ef þú kvartaðir yfir laununum og að þau dygðu ekki fyrir framfærslu fékkstu ræðu og útreikning um hvernig þú kæmist svo vel af þessum launum að þú ættir jafnvel afgang til að kaupa þér bíl.....eða jafnvel íbúð. Sparnaður var töfraorðið. Tilfinningar, samúð, samkennd, gjafmildi eða bara blákaldur raunveruleikinn voru ekki hans sterka hlið. Fínn kall samt og fyndinn á köflum.

Það var eins og mig grunaði, mér hefndist fyrir góðan dag í gær og var alveg að drepast í morgun. Var svo heppin að Bergþóra Karítas kona kom í heimsókn fyrir hádegið og sprautaði mig með Tordol. Það vildi líka svo vel til að Palli hafði skroppið heim í efnistöku og var því viðstaddur sprautunina. Þarna fékk hann loksins kennslu í því að sprauta mig svo ég þarf því ekki að hringja í stúlkurnar og biðja þær um að koma. Palli segist alveg klár á þessu og svei mér þá ef hann hlakkar ekki bara til að fá að leika doktor Pál öðru hverju. Hann er svo að fara í viðtal til Karítaskvennanna í hádeginu á morgun. Þær vilja ræða við hann og svo virðist sem þær eigi líka að sinna stöðu makans við svona aðstæður. Ég vona bara að hann verði jákvæður og nái að nýta sér það sem þær hafa upp á að bjóða.

Komst í mat til Gunnhildar og síðan í smá innlit í Smáralind þar sem ég leitaði að óléttudeildinni. Ég fékk nefnilega þá brilljant hugmynd að meðgöngudeildin gæti átt buxur sem pössuðu á mig, víðar að ofan þrengri að neðan. Þegar ég er orðin svona þanin þá er ég með svo mikla bumbu að ég get tekið undir hana og fyrir neðan gægjast út niðurlútir spóaleggir. Meðgöngudeildin í Debenhams er víst ekki til lengur svo það náði ekki lengra.  Smáralindarheimsóknin endaði með því að ég keypti mér tvennar Joe Boxer náttbuxur.....heimabuxur eins og þær heita núna, alveg dásamlegar flíkur. Fór svo og gaf blóð í erfðarannsókn og fékk bol að launum.

Keyrði Kára á Vog í morgun, hann var bara hress og hlakkaði til að takast á við verkefnið framundan. Ég heyri að vinir hans hafa verið afar ánægðir með þessa ákvörðun og ætla að styðja vel við bakið á honum þegar hann kemur út aftur.  Það munum við, fjölskyldan hans líka gera.

Nú er nóg komið orðið alltof langt. Verð að fara að sinna öðrum bréfaskriftum.....


Verkjalaus en syfjuð

Fór að hitta vinkonur mínar í hádeginu en var greinilega ekki upp á mitt besta, svitnaði eins og ég væri í ræktinni, raddlaus með hellu fyrir eyrunum. Aumingja þær, heyrðu ekki hvað ég sagði og mokuðu í mig servíettum til að stoppa höfuðflóðin. En það var samt gaman að hitta gamlar Kaupþingskonur,  Siggu Hönnu sem ég hef ekki hitt í mörg ár og svo auðvitað Gunnu sem er sjálf að berjast við krabbamein.

Fór svo heim og lagði mig. Var næstum verkjalaus í dag. Þessir verkir koma og fara eins og þeim sýnist og líklegasta skýringin á því segja Karítas konur að sé misjafnt álag á taugaenda vegna vökvasöfnunar. En það virðist alltaf fylgja böggull skammrifi því þrátt fyrir verkjaleysið hef ég ekki fengið neinn frið fyrir óstjórnlegri syfju. Hef alls ekki getað einbeitt mér að neinu því augun bara lokast ósjálfrátt. Skýringin á syfjunni er víst....því miður...krabbameinið sjálft. 

Annars kom verkjaleysið sér vel því Kári og börnin hans þrjú voru í mat hjá mér ásamt Ásgeiri og Rakel. Kári er að fara í áfengismeðferð á Vogi á morgun og verður því í burtu í lágmark 10 daga.  Okkur langaði því að kveðja hann og hann langaði að sjá krakkana áður en hann verður læstur inni á Vogi. Hann er mjög jákvæður og hlakkar til að takast á við vandamálið með góðri hjálp. Ég bið til Guðs að hann losni við helv...brennivínið...sem er ekkert annað skrattinn í fljótandi formi.

Karitas konurnar höfðu samband við Agnesi út af gærkvöldinu á BB og hún hringdi svo í mig og við áttum langt spjall. Ég fer í lungnasneiðmynd á miðvikudaginn og svo í aftöppun í beinu framhaldi af því. Svo er spurning um að fá verkjalyfjaskammtara hengdan á sig til að gera verkjastillinguna auðveldari. Ég er ekki mjög spennt fyrir því, nenni ekki að rogast með dælu á brjóstinu og viðeigandi kubb sem er eins og veski að stærð. Ætla að sjá til með það enda góður dagur í dag. Agnes ætlar að sækja um hvíldarinnlögn á líknardeildina, tvær vikur eða svo, það er biðlisti svo ég veit ekki hvenær kæmi að því. Þar eru bara 8 stofur og yfirmaðurinn sérfræðingur í verkjastillingu. Þetta er eins og að fara á hótel, ég gæti farið í Kringluna eða út að borða og komið svo og sofið eða bara notið þess að hafa engum skyldum að gegna og dundað mér að sauma út eða pikka á tölvuna.

Segi þetta gott í bili og reyni að blogga um eitthvað annað en veikindi á morgun.


Draumráðningin

Komin heim aftur, stoppaði í 3 tíma á BB (bráðabana) og fór heim mjög ósátt við afgreiðsluna. Ég fór í röntgen af lungunum og í ljós kom að þar er vökvasöfnun sem þrýstir á lungun með þeim afleiðingum að ég er andstutt og mæðin. En því miður þá er þetta bara ekki nógu mikið til að taki því að tappa af svo krabbameins-vaktlæknirinn sem er einhver kona sem ég hef aldrei hitt ákvað að bíða þangað til ég kafna í svefni, ódýrara fyrir ríkið. Ég hef á tilfinningunni að því nær sem dregur áramótum fara ríkisstofnanir að spara. Það má ekki fara of langt fram úr fjárlögum.....skiluru...!!  Ekki lentu þeir heldur að óma kviðinn, ekki nógu langt síðan þetta var skoðað síðast.....4 dagar....svo eins gott að láta mig vita að ég er ekki orðin ómunarvirði.....

Ég kvartaði og spurði hvers konar afgreiðsla þetta væri eiginlega, hvort ekki væri betra, fyrst ég á annað borð lægi þarna, að flikka bara vel upp á mig og senda mig svo heim, fríska og fína......GetLost

Kandídats-stráksgreyið var alveg í flækju yfir þessu og mér sýndist af háttalagi hans að ráða að hann væri hallur undir mína skoðun í málinu því hann næstum baðst afsökunar og ráðlagði mér að ná sambandi við Agnesi á morgun. Ég vil taka það fram að starfsfólkið á BB er allt hið yndislegasta fólk og ég hef undan engu að kvarta á því sviði.  

Ég sendi drauminn um húsið inn á    http://www.draumar.blog.is/blog/draumar/ og bað um ráðningu, hún kom og er svohljóðandi

Kæra Gíslína

Þessi draumur þinn er í raun mjög skýr, því húsið sem þig dreymir ert þú sjálf. Hvíti litur hússins táknar þinn innri frið og góð öfl sem umvefja þig. Þrátt fyrir að augun séu lokuð og baugótt þá eru stóru skilaboð draumsins þau að hjálpin er með þér og þú átt eftir að upplifa húsið þitt uppljómað hlýju á ný. Draumurinn er að segja þér að gefa aldrei upp vonina því það sem þú getur gert sjálf með huganum og styrkri hjálp vina, jafnvel þegar vindar blása og regnið dynur á, hleypir geislum sólar að á ný. Sál þín á eftir að eiga sér hlýtt og fallegt hús.

Guð veri með þér og þínu fólki


Ég tóri

 Sæl öll.....vildi bara láta vita af mér.  Er núna á leiðininni á bráðamóttökuna skv. skipun frá Karítas.  Hrönn hjúkrunarkona taldi það óhjákvæmilegt að ég færi sem fyrst í rannsóknir því ástandið er ekki nógu gott verkjalega séð. Ég er að drepast í verkjum og svo eru lungun líka að versna. Ég fór ekki fram úr rúmi í gær fyrr en klukkan sex og rétt komst því í útskriftarveisluna hjá bróður mínum og mákonu. Til að það tækist þurfti Hrönn að sprauta mig með verkjalyfi nokkrum klukkutímum áður en ég átti að mæta. Fór heim úr gleðinni klukkan ellefu, dauðþreytt og beint í rúmið enda löngu komið fram yfir minn eðlilega háttatíma. 

Er verri í lungunum og þenslunni svo þið heyrið frá mér þegar ég kem aftur heim af lansanum.


Sprautað í appelsínuhúð

Heimsókn til Agnesar skilaði svo sem ekki neinu sem við vissum ekki fyrir. Krabbameinið er út um allt og hefur breiðst hratt út síðasta mánuðinn, komið á lokastig. Meðferð verður í formi beinþéttnisprauta einu sinni í mánuði og svo verður fylgst með lungum og blóði.....og  svo auðvitað aftöppun einu sinni í viku eða eins og þarf. Ég get fengið hvíldarinnlögn á líknardeildina þegar ég vil en hún benti mér á að vera dugleg að nota Karítas til að hjálpa með lyfjagjöf og umönnun. Ég fékk nýtt lyf heim í gær sem er í sprautuformi og þarf að gefa í vöðva, ætli Palli verði ekki settur í málið og fær þá að æfa sig með því að stinga appelsínur eins og pabbi hennar Rögnu forðum daga þegar mamma hennar var veik. Anna frænka kom í heimsókn áðan og bætti því við að þá væri ekki verra ef konan væri með appelsínuhúð.....Wink

Það var ekki tappað af mér í dag, fór í ómun sem sýndi að vökvapollarnir voru það litlir að hætta væri á að stinga í líffæri svo ég fór beint í handsnyrtingu og svo í Kringluna. Komst í eina búð, mátaði einhver föt, var í svitabaði og með verki, gafst upp, keypti ekkert og fór heim og lagði mig.

Klukkan fimm hitti ég svo stelpurnar á auglýsingastofunni á Tapasbarnum og við fengum æðislegan mat og það var frábært að hitta þær og gefa sér tíma til að spjalla.  Síðan heim og upp í sófa með dauðans verk í mittinu sem gaf sig ekki fyrr en ég prófaði nýtt lyf sem ég fékk líka í gær og er morfínmixtúra. Það virðist gera gagn því annars væri ég ekki í þessum skrifuðu orðum að skrifa þau.

Eins og ég sagði áðan kom Anna frænka í heimsókn áðan með nýja kærastan, veit ekki hvort ég má segja hver það er svo ég sleppi því bara, hún kynntist honum allavega í gegnum bloggið og er ægilega ánægð með hann. Okkur Palla líst mjög vel á manninn sem er bæði myndarlegur og viðræðugóður.

Verð svo bara að segja að nýi borgarstjórinn er líka miklu sætari en sá gamli. Gef ekki meira út um það mál að sinni enda verðum við bara að sjá til hvernig málin þróast.

 


Hús í draumi

Var mjög slæm af verkjum í gærkvöldi og fram yfir miðnætti, munaði hársbreidd að ég færi á bráðamóttökuna en harkaði af mér og fann stellingu sem reddaði svefninum.  Var  slæm í morgun og fram eftir degi en reis úr sófanum þegar heimaþjónustukonan kom með samninginn um þrifin. Ég fæ konu tvisvar  í mánuði og mun hún skúra, þrífa baðherbergin og skipta á rúminu.

Annars dreymdi mig skrýtinn draum í nótt.  Ég og Guðrún Jóna bloggvinkona mín sem ég hef aldrei hitt augliti til auglitis vorum saman í húsi, húsið var lítið og ferkantað og ég gat séð húsið að utan, það var hvítt með svörtum röndum í kringum gluggana og hurðina, allir gluggarnir og hurðin voru lokuð og hvít á litin. Við Guðrún vorum inn í húsinu og það var nótt,  það var tómt að innan og okkur var kalt og leið ekki vel.   Veðrið var vont og húsið hélt hvorki vatni né vindum svo við ákváðum að henda því og búa til nýtt.....sem við og gerðum.  Fengum alveg nýtt hús sem leit alveg eins út og hið fyrra en í þessu húsi var hlýtt og við náðum að sofna.   

Nú er spurning hvort einhver hefur getur gefið mér skýringu á þessum draumi því mig dreymir sjaldan drauma sem ég man vel.  Ég vil líka fá að heyra skýringarnar þótt þær geti verið fyrir einhverju slæmu, datt sjálfri í hug að húsið líktist líkkistu.

Fórum ásamt Kára í mat til mömmu og pabba í kvöld og fengum nýtt slátur, rófu- og kartöflustöppu ásamt brauði og smjöri. Ég át yfir mig og er vægast sagt að springa úr seddu....Blush

 


Tilraun til frægðar...

Búin að meika mig, setja á mig maskara og  smá varalit, laga hárið, fara í ullarsokkana og gönguskóna, flíspeysuna og setja buff, kanínutrefil og fóðraða hanska ofan í tösku, komin í vindbuxurnar og úlpuna, mætt niður á miðbryggju, inn í tjaldið, sýndi þar konu með nafnalista forláta boðskort frá borgarstjóranum og þegar spurð að nafni sagði ég ákveðið...... Sigrún Stefánsdóttir.    

 

Konan horfði sorgmædd á mig og sagði....Því miður þá gildir þessi miði ekki út í Viðey bara í matinn á eftir.....það er annar miði sem gildir út í eyju......   Hringdi í Sigrúnu og hún var ekki mjög ánægð enda fengið boðsmiðann ásamt bréfi sem útlistaði nákvæmlega dagskrána í kringum ferðina. Hún sá ekki tilganginn að fá slíkar leiðbeiningar ef miðinn gilti bara í  matarboð. Kannaðist ekki við að hafa fengið annan miða. Þetta var samt bara gaman, gott veður og ég hefði alveg verið til í smá göngu um miðbæinn í góða veðrinu.....enda sérlega vel klædd. Palli skilaði og sótti og var ekki græjaður í útivist svo miðbæjarrölt verður að bíða betri tíma.  Ég er líka þakklát Sigrúnu fyrir að velja mig sem sinn fulltrúa á stórviðburð....ég nennti ekki að borða með Villa Vill að þessu sinni.  Sendi Yoko bara.....I love you...boð í gegnum súluna.

 Fór í aftöppun til Agnesar í dag, hálfur líter af hvítri drullu lak úr mér og hvíti liturinn vakti athygli Agnesar, hingað til verið gulur. Hún sagði líklegt að ástæðan væri bólga í eitlum. Hún tók sýni í ræktun. Svo setti hún mig á dúndursýklalyfjaskammt, ein pilla á dag í þrjá daga ef ske kynni að ég væri með sýkingu í þessu. Á að mæta aftur á fimmtudaginn í ómskoðun til að athuga hvort vökvapollar séu að myndast þar sem venjuleg aftöppunin nær ekki til. Eftir rannsóknina eigum við Páll að mæta til hennar og fara yfir stöðu mála.

Var að rísa upp rétt í þessu úr slæmum verk í mittinu, tvær morfín slógu á verkinn en ég held samt að ég fari bara í rúmið, verð þá bara hressari á morgun.  Fékk tvær TR fréttir í dag, önnur var sú að heimaþjónustan var samþykkt og á morgun kemur kona með þjónustusamning til mín sem lýtur að því að ég fæ aðstoð við þrif o.fl. kemur í ljós á morgun. Hitt var að ég á inni hjá TR eftir uppgjör og útreikninga m.v. tekjuáætlun síðasta árs og skiluðu skattframtali.  Upphæðin er rúmar 54.000 krónur fyrir utan skatt svo ég fæ smá pening útborgaðan einhvern næstu daga. Best að leggja hann fyrir til að geta borgað hann til baka á næsta ári. 

Borðaði eins og hestur í dag, fékk svaka góða kjötsúpu hjá Gunnhildi mágkonu í hádeginu og svo er Frón kremkex og kaffi á göngudeildinni ansi gott miðdegissnarl. Kvöldmaturinn datt upp fyrir að þessu sinni en ætli tekex og appelsína bjargi því ekki fyrir svefninn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband