Færsluflokkur: Bloggar

Sjúklingur hungurmorða á bráðamóttökunni....

Fór í saumaklúbb til Lísu á þriðjudagskvöldið og stoppaði stutt, var eiginlega að drepast í verkjum og orðin verulega þanin á kviðnum.  Tók inn minn hefðbundna vímuskammt.....ekki jafn góðan og fyrr um daginn....og fór svo að sofa.  Vaknaði um miðnættið gersamlega að farast úr kvölum í kviðnum, hringdi niður á bráðamóttöku og fékk að tala við títtnefndan Ragnar lækni sem bað mig endilega að koma, það yrði tekið vel á móti mér.    

Ég var háttuð ofan í rúm, öll í kremju af kvölum og dælt í mig morfíni sem ekkert gerði gagnið. Ragnar treysti sér ekki til að stinga gat á magnann á mér og vildi bíða eftir Agnesi á morgunvaktinni. Ég hélt áfram að kvarta og fékk meira morfín, ekkert gerðist, fékk þá kvíðastillandi og sofnaði smá stund. Vaknaði aftur og hélt áfram að kvarta, það kemur fyrir á bráðamóttökunni að maður kvarti.... Wink. Fékk þá bólgueyðandi og steinlá. Vaknaði ekki fyrr en 10 um morguninn verkjalaus. Þetta lyf var greinilega eitthvað fyrir mig, kannski búið að finna rétta kokteilinn handa mér, óáfengan og beint í æð, slepp alveg við að að sulla í mig deyfilyfi úr glasi Sideways.

Um morguninn laumaðist ég til að borða eina brauðsneið og smávegis af bragðlausum hafragraut sem varð ekki vinsælt hjá hjúkkunum því ég var á leið í ómun og átti því að vera fastandi.  Í ómuninni varð allt galið af því ég heimtaði að fá vinstri fótinn ómaðann en á beiðninni stóð að einungis ætti að óma kviðinn. Ég sagði að Agnes vildi láta óma fótinn og hafði beðið mig um að skila því til ómunarmannsins. Hann hélt nú ekki, reif í hár sér og sagði að hér væri ekkert gert nema það stæði svart á hvítu á eyðublaði og það hefði hann sko ekki í höndunum, ég þrjóskaðist við og spurði hvort þau gætu ekki hringt upp á deild. Ómmaðurinn og aðstoðarkonan sem stóð eins og varðmaður um beiðnablaðakerfið litu mig illu auga og fóru fram til að ráða ráðum sínum, erfiður og frekur sjúklingur.

Stund leið og þau komu aftur inn, jú rétta eyðublaðið hafði fundist frammi og núna var ekkert mál að óma fótinn.  Það glaðnaði örlítið yfir ómmanninum og hann fékk að þukla mig ofan sem neðan, ekki mikið dónó í því enda sjúklingurinn á þyngd við bannaðar franskar fyrirsætur og sexý eftir því.  Í ljós kom að kálfinn geymir blóðtappa í bláæð sem liggur frá hnésbót niður á miðjan kálfa.  Blóðtappar í bláæð geta skotist í lungun með viðeigandi verkjum en ekki í heilann og ég því ekki í bráðri lífshættu, má ekki við fleiri lífsháskum. 

Agnes tappaði af mér 2,5 lítrum af vökva ogmikill var léttirinn að losna við þetta stöðuvatn, verkirnir bókstaflega minnka um 80% og líðanin að öðru leyti skánar eftir því.  Fram að þessu hafði ég ekki fengið neitt að borða nema brauðsneiðina um morguninn og var staðfastlega neitað um mat af þeirri ástæðu að ég væri á leiðinni í rannsókn. Þegar ómævintýrið var að baki vildi ég fá eitthvað almennilegt að éta en enginn þorði að taka þá erfiðu ákvörðun hvort ég mætti borða eða ekki. Þegar ég fékk  loksins grænt ljós á næringu fannst ekki ætur biti á allri deildinni, það hafði gleymst að panta brauðið og það eina sem ég gat fengið var tekex með smjöri og sultu og djús með. Mikið smakkaðist kexið vel. Þarna rétt slapp bráðamóttakan við að komast í fréttirnar undir fyrirsögninni .......sjúklingur hungurmorða á bráðavaktinni  FootinMouth.

Ég var svo lögð inn á krabbameinsdeildina og farið að vinna í að sortera betur lyfja- og verkjastillingar prógrammið.  Mér hefur liðið mun betur eftir aftöppunina og er nýkomin heim af spítalanum. Karítas hjúkrunarteymið ætlar að sjá um blóðþynningarsprauturnar en ég þarf sprautur tvisvar á dag í fimm daga og svo eina á dag sem eftir er.

Í kvöld ætla ég svo að fara út að borða á Ítalíu með Geirlaugu vinkonu, Ödda manninum hennar og Peter vini okkar frá Danmörku. Svo eru að koma mánaðarmót og nóg að gera á skrifstofunni. Palli er farinn í veiði og kemur ekki heim fyrr en á sunnudag svo ég hef nægan frið til að einbeita mér að því að reikna út vsk og laun, hitta fjölskylduna og komast kannski í bíó ef veður leyfir 

 


Í vímu

Ég óverdósaði mig af verkjalyfjum í dag. Vaknaði mjög slæm klukkan fimm í nótt og ákvað að prófa þetta fína nýja lyf sem ég fékk, morfínið sjálft. Tók eina pillu og ekkert gerðist, bætti við smá skammti af tramól og náði svo að sofna á grúfu með fæturnar undir mér, vaknaði svo tveimur tímum síðar með náladofa á ýmsum stöðum.  Um morguninn gerðist nákvæmlega það sama, fjandans verkir alveg að drepa mig og þá ákvað ég að sturta duglega í mig af þessum pillum og lagðist svo inn í sófa og dormaði. Svo leið og beið og loksins fann ég að verkirnir voru eitthvað að gefa eftir, alveg ótrúlega seigt í þessum verkjum, maður eitrar og eitrar fyrir þessu og þeir ná samt að halda lífi í langan tíma á eftir, ekkert skárri en þegar ég eitra fyrir geitungunum, neita að gefast upp.  

Ég var nefnilega búin að lofa því að keyra Berta og Gústu út á Keflavíkurflugvöll um hádegisbilið. Lengi vel leit þetta ekki vel út en að lokum stóð ég upp og sagði....drífum okkur, þú keyrir suðureftir Berti og ég keyri heim...  Og við út í bíl og út á völl, ekkert mál, verkirnir að mestu horfnir og bíllinn sjálfskiptur svo þetta var ekkert mál. En annað kom í ljós. Mín var svo dópuð að ég mátti þakka fyrir að komast heim heilu og höldnu. Ég sá tvöfalt, gat ekki haldið augunum opnum fyrir syfju, athyglin engin, sveigði á milli lína á veginum, lét miðstöðina blása köldu framan í mig allan tímann og hafði útvarpið á fullu. Ég náði að passa það vel að fara ekki yfir löglegan hámarkshraða, fullmeðvituð um að þarna var ég á hálum ís. Ef ég hefði verið tekin af lögreglunni hefði ég misst prófið.

Dagurinn leið eða réttara sagt sveif áfram, ég að reyna að bóka, meira með augun lokuð en opin svo ég lagðist í rúmið og dormaði, sofnaði ekki heldur lá í einhverskonar vímu upp í rúmi. Þannig leið dagurinn, mamma kom í heimsókn, Egill kom og Ingibjörg í Þorlákshöfn kom. Alltaf voru augun til vandræða, neituðu að sinna skyldum sínum og vera opin svo ég þurfti að beita þau hörðu til að geta horft með athygli á gestina mína.

Þessu öllu fylgdi hraður hjartsláttur svo eftir kvöldmatinn ákvað ég að hringja niður á bráðamóttöku og biðja þá um að meta ástandið. Læknirinn spurði mig út úr og skráði niður pilluátið fyrr um daginn og gaf svo upp þann úrskurð að ég hefði tekið of stóran skammt af verkjalyfjum.  Þetta ætti að rjátlast af mér og ráðlagði mér að blanda þessu ekki öllu saman næst þegar ég fengi verki.  Sá hefur aldeilis ekki fengið slæma verki um dagana.  Í því ástandi svífst maður einskis.....pillulega séð.


Staðan er ....1-0 fyrir innrásarliðinu

Ég fékk stöðuna uppfærða í dag hjá Agnesi. Hún sagði að krabbameinið væri farið að setjast betur að í fituvefnum, ekki lengur kornótt heldur orðið að hnútum. Síðan eru bólgnir eitlar hér og þar á kviðsvæðinu. Ég fer í ómun á miðvikudagsmorguninn og svo í aftöppun strax á eftir.

Lyfjaátið heldur áfram að aukast því ég fékk tvö ný lyf, þvagræsilyf til að reyna  að stöðva vökvasöfnunina og morfín.....já þið lásuð rétt....hreint morfín, má taka það 6 sinnum á dag....plús öll hin verkjalyfin sem ég er á, ætla nú ekki að detta í þá gryfju heldur nota það spari þ.e. bara þegar ég er verulega slæm. Ætli sé einhversstaðar keppt í lyfjaáti, því ef svo er þá myndi ég örugglega vinna.

Agnes ætlar að tala við Karítas sem eru samtök til stuðnings krabbameinssjúkum og þau eru í samvinnu við spítalann. Það verður haldinn fundur heima hjá mér og farið yfir stöðuna. Þannig ætti ég að geta fengið aðstoð við þrif og lyfjainnkaup og þau sjá einnig um lyfjagjafir í sprautuformi. Þetta er með öðrum orðum heimahjúkrun sem nær yfir mjög vítt svið, meðal annars heimilisaðstoð, sálgæslu og hjúkrun. Þær eru í beinu sambandi við læknana og meta ásamt þeim ástand sjúklingsins í hverju tilfelli fyrir sig. Annars verður bara að koma í ljós hvernig þetta nýtist mér en dagurinn í dag er búinn að vera með þeim betri. Heimsótti Kristínu sem leit miklu betur út en síðast þegar ég sá hana og var bara hress. Ég fór í Rúmfó og keypti gardínuefni fyrir gluggana uppi og ætla að sauma þær næstu daga.  Útréttaði eitthvað fleira og er núna að fá gesti að norðan í gistingu í nótt. Páll er svo að fara í 4 daga veiðitúr á fimmtudaginn og kemur svo heim á sunnudaginn en á mánudagsmorgun fer hann til Danmerkur á eitthvað námskeið og kemur aftur heim á þriðjudaginn. Ég verð því drottning í ríki mínu í sex heila daga.

Skrokkurinn er misslæmur, kálfinn stífur og hnésbótin líka, helaumir blettir í hægri holhöndinni og ný bólga við bringubeinið auk bólgins eitils aftan á hálsinum. Alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Ætli dagurinn á morgun verði ekki slæmur, það virðist vera mynstur í gangi, annar hver dagur er góður og hinn slæmur, upp og niður.  

Vonandi næ ég að skrifa um eitthvað annað en þetta næst þegar ég blogga. Er að safna í skemmtilegan pistil. Finn alveg fyrir því að ég er ekki eins létt og grínin eins og áður. Er líka að undirbúa mig undir það versta og náði í gærkvöldi að kenna Páli að skrifa út reikninga á eigin spýtur. Ebba vinkona ætlar að koma í vikunni og fara yfir bókhaldið með mér svo hún geti gripið inn í ef ég dett út. Svo er ég loksins búin að finna kort sem ég get notað til að senda út brúðarmyndirnar af okkur til þeirra sem samglöddust okkur á brúðkaupsdaginn. Eftir að því verkefni er lokið held ég að flest muni nú reddast þótt ég sé ekki viðstödd. Það þýðir a.m.k. ekki að stinga hausnum í sandinn og neita að horfast í augu við staðreyndir. Þessi barátta er á lokastigi og eins og ég hef áður sagt þá þarf að koma til kraftverk ef ég á að lifa þetta af. Þau gerast að vísu oft á síðustu stundu svo við höldum bara í vonina og gefumst ekki upp.

 


Og þá er helgin búin

 

Þá er enn einni helginni að ljúka.  Palli kom heim í gær með öngulinn í rassinum.  Ekki bröndu að sjá né fá.  Ég átti fínan dag í gær og fór með Kára og stelpunum í Kringluna og svo í Elko. Var með hressara móti og fannst ég þurfa að nota tímann til að útrétta og koma ýmsu í verk sem setið hefur  á hakanum sökum heilsuleysis.  Geirlaug vinkona kom svo í heimsókn og um kvöldið fórum við Páll á Kringlukrána að fá okkur að borða. Mjög góður matur á Kringlukránni. Svo var horft á bíómyndina Number 23 með Jim Carey, ekkert sérstök mynd.

Í morgun vaknaði ég klukkan 7 með mjög slæma verki í kviðnum og allan hringinn á mjaðmasvæðinu, tók fullt af pillum og sofnaði aftur. Komst svo á fætur um tíuleytið, ennþá með slæma verki, átti tíma í klippingu og litun klukkan ellefu.  Sat þar í tvo tíma og gat ekki beðið eftir að komast heim í rúmið. Skreið svo upp í sófa þegar ég kom heim og svaf til tvö eða þangað til Þorbjörg vinkona á Egilsstöðum kom í heimsókn.  Svefninn hefur gert mér gott því ég hef verið miklu betri seinni part dagsins. Svo komu Sigrún Hermanns og Hinrik í heimsókn en við höfum ekki séð þau í allt sumar. Ætlum svo að kíkja á Egil og Rögnu að skoða allar breytingarnar á húsinu þeirra sem hefur tekið stakkaskiptum síðustu daga.  

Á morgun fer ég til Agnesar klukkan ellefu og mun leggja það til að ég fái aftöppun hið snarasta. Kíki svo kannski á Kristínu mömmu hennar Rögnu en hún greindist með briskrabbamein fyrir þremur vikum síðan og hefur það ekki gott. Ótrúlegt hvað svona hlutir geta gerst hratt. Fyrir fjórum vikum voru hún og maðurinn hennar að flytja búðina þeirra í nýtt húsnæði, allir hressir og glaðir en núna berst hún fyrir lífi sínu.  Löppin er bara góð og ég get gengið á tveimur jafnfljótum, jafndofin að jafnaði. Hækjurnar fara aftur í geymsluna.  Verð svo að lýsa ánægju minni með nýja þáttinn hans Egils Helgasonar í sjónvarpinu, Kiljan held ég hann heiti. Mjög líflegur og vandaður þáttur.


Föstudagsfréttir

Vaknaði í morgun með slæma verki neðst í kviðnum, vökvasöfnunin greinilega byrjuð aftur. Löppin er skárri, kannski flogaveikilyfin virki bara eftir allt saman. Hef ekki fengið nein flog nema þrifnaðarflog sem lognuðust fljótlega útaf sökum heilsubrests. Hékk á rúmgaflinum fram eftir degi en fór þá að hjarna við og um fjögurleytið kom Kári með stelpurnar. Þær eru í fínu formi, þreyttar eftir vikuna en heilar heislu. Við skruppum saman ég og strákarnir, stelpurnar og Rakel á Nings og fengum okkur kvöldmat.  Þegar við fórum út og ég sá hvernig gólfið undir borðinu okkar leit út var ég fegin að hafa ekki pantað matinn heim, dásamleg tilfinning að geta gengið út og skilið uppvaskið og skúringarnar eftir.  Sunna kíkti svo í heimsókn í smá stund og núna er ég á leiðinni í bælið, bærilegri til heilsunnar en í morgun.  Mér finnst voða notalegt að vera ein heima en Palli kemur ekki úr veiðitúrnum fyrr en eftir hádegi á morgun. 

Góða helgi og ekki örvænta þótt ekki heyrist frá mér, hef ákveðið að vera tölvulöt um helgina.


Sögur af BML

 

Ég var alveg búin að gleyma því hvernig það var að vera ekki ólétt.  Eftir að hafa gengið með níumánaðastóra vatnsbumbu framan á mér í nokkra mánuði þá finnst mér núna eftir að hafa fætt 1,5 lítra af vatni að ég sé frelsuð úr hreyfihömlunarfangelsi.  Þessi vökvasöfnun hefur greinlega valdið mér meiri vandræðum en ég gerði mér grein fyrir. Ef þetta gerist aftur bíð ég ekki svona lengi, tek ekki aftur að mér að ganga með fíl enda löngu komin úr barneign.

Að liggja inn á bráðamóttökunni á Landsspítalanum í nokkra klukkutíma er eins og að detta inn í mannfræðistúdíu, verkefni í félagsfræði, sálfræði eða bara  upplifa þverskurð af þjóðinni sem deilir saman rými og þjáningum á stórri stofu á spítala og hver og einn hefur sína sögu að segja, sitt vandamál að glíma við og tekst á við það hvert á sinn hátt.  Ég fell örugglega undir rólega og ósýnilega flokkinn á þessari deild, en aðrir gera það svo sannarlega ekki. Sumum leiðist, eru gamlir og hjartveikir, kúka á sig svo lyktin er óbærileg, aðrir kvarta stöðugt, kalla og hrópa, svo eru það þeir sem tala endalaust í gsm símann, senda sms eða hrjóta svo hátt að allur annar hávaði verður að svanasöng í samanburði.   

Á móti mér var róni, við það að drepast úr hjartaáfalli og bara nokkuð brattur.  Hjúkkurnar könnuðust augljóslega við kauða því þær spurðu hversu langt væri síðan hann hefði drukkið síðast.  Róninn svaraði rámri röddu....ekki síðan í nóvember...og svo fylgdi ískrandi hlátur.  Nokkrar mínútur liðu og þá var minn bara farinn að hrjóta.

Við hliðina á mér  lá  kona sem ég kannaðist við hér á árum áður í gegnum vinnuna og ég vissi að væri lesbísk.  Læknirinn kom og tók að spyrja hana um persónulega hagi, fyrst um barneignir....nei engin börn...síðan hvort hún eigi maka....já svarar konan...og hvað heitir hann....hún heitir Ragnheiður Jónsdóttir (skáldað nafn)....lækninum brá létt og hummaði svo....já, já.  Eftir vaktaskiptin kom nýr læknir og í fyrstu heimsókn í hornið kemur hann askvaðandi og segir við konuna sem núna hafði fengið maka sinn í heimsókn, þið hljótið að vera systur, segir læknirinn.   Nei við erum hjón...segir konan...læknirinn hikar og það kemur smá hlé..... nú, já, er það já, gott hjá ykkur!!!!  Þið eruð samt mjög líkar, segir læknirinn vandræðalega eins og til að sýna að þetta hafi ekki komið honum á óvart og konan svarar.....já stundum er sagt að hjón taki að líkjast hvert öðru með aldrinum.....Smile

Ég fór að hitta geislafræðinginn eftir hádegið. Hann sagði að krabbamein færi ekki í hendur og fætur og því gæti ástæðan fyrir lappaveseninu ekki verið krabbamein, frekar hélt hann að þetta væri taugastrekkur og setti mig á lyf við því. Lyfið heitir Gabapentin og er flogaveikilyf.  Þetta á ég að taka fram yfir helgi og hitta svo Agnesi á mánudaginn og fara betur yfir stöðuna.  Verkirnir og bólgan er í ilinni og seint í gærkvöldi var ég svo slæm að ég gat ekki stigið í fótinn.   Ég var betri í morgun en hef  farið versnandi eftir því sem líður á daginn. Palli náði í hækjurnar í geymsluna og þær eru hér til taks ef ég get ekki lengur tyllt í fótinn. Sick

Annars er Palli að fara í veiðitúr svo ég verð ein heima fram á laugardag. Kári verður með krakkana um helgina og kannski fáum við okkur eitthvað gott að borða saman annaðkvöld og köllum á Ásgeir og Rakel líka. Ég fæ þá kannski drengina til að ryksuga hér og laga sjónvarpsskilyrðin á efri hæðinni.  Símavinningurinn hans Páls í golfkeppninni hjá Smith og Norland er alveg að slá í gegn, þetta er einhver voða fansý græja með blue tooth....kann ekkert á það....og hægt að hafa allt að 6 auka síma við stöðina. Núna er því kominn sími á hverja hæð og ég þarf ekki lengur að stinga símum í alla buxnavasa eftir því hvort ég er að vinna á skrifstofunni á efri hæðinni, elda mat á miðhæðinni eða hengja upp þvott í kjallaranaum.  Alltaf svarað.....hjá Páli og Gíslínu - góðan daginn......


Lækniskokkurinn Ragnar Freyr

Hér er slóðin á Ragga lækni og kokk

http://ragnarfreyr.blog.is/blog/ragnarfreyr


Bráðamóttakan

Jamm og jæja....síðustu daga hef ég verið upptekin við að leika alvöru sjúkling.  Sunnudagsverkirnir versnuðu á mánudaginn og um kvöldið var ég orðin mjög slæm, sárir verkir í kviðnum og vökvinn þrýsti á rifjasvæðið og bara á allt sem fyrir honum varð. Ég svaf sitjandi þá nótt og þakkaði guði fyrir að hafa fyrir tveimur árum keypt mér rafmagnsrúm sem hægt er að stilla á alla kanta.  Ég gafst svo upp í hádeginu í gær og fór á bráðamóttökuna.  Þar lá ég að drepast úr verkjum sem létu ekki undan þótt ég fengi hverja morfínsprautuna á fætur annarri.  Svo leið og beið og ég dormaði fram eftir degi þangað til þeir ákváðu að senda mig í sneiðmynd.  

Sigurður Björnsson yfirlæknir var á vakt og mikið er hann frábær, hef hitt hann einu sinni áður þegar hann stóð vaktina fyrir Agensi fyrr í sumar og kom mér hratt og örugglega í stentskiptin þegar gallgangurinn stíflaðist. Hann er svo röggsamur og ákveðinn. Hann stakk nál vinstra megin í kviðinn og út sprautaðist gult vatn í lítratali. Verkirnir gáfu sig ekki en í stað þess að eyða nóttinni á setustofunni, en þar var eina plássið á spítalanum, ákvað ég að fara heim og sofa þar. Ég á að auka contalgin skammtinn úr 20 mg í 30mg á dag og nota líka tramól til að hressa mig við. Sigurður hafði margar skýringar á reiðum höndum í sambandi við taugaskemmdirnar í fótunum, sagði að ég hefði átt að fá B12 sprautur með lyfjagjöfinni.....sem ég fékk ekki.....og núna ætti ég að kaupa mér B vítamín og taka eina á dag þangað til dollan er búin.....  mér finnst undarlegt að það virðast aldrei vera notaðir allir möguleikar í þessari meðferð á mér, maður fréttir bara af þeim þegar það er orðið of seint.  

Annars var bara notalegt að mæta niður á bráðamóttöku í gær, eins undarlega og það hljómar, því þar tók á móti mér hann Ragnar læknir sem var að vinna á St. Jófesfs í fyrra þegar ég greindist. Hann mundi vel eftir mér og tók mér eins og gömlum vini. Ragnar er ekki bara læknir heldur matargúrú og heldur úti munnvatnsaukandi skrifum á bloggsíðunni sinni þar sem hann lýsir áhugamáli sínu, eldamennskunni, af mikilli snilld og gefur uppskriftir. Ég hef nokkrum sinnum ætlað að krækja mér í uppskrift en fyrir eldhúsfatlaðan einstakling eins og mig var þetta bara of flókið.   

Í einni eftirlitsferðinni um stofuna í gær, stoppaði Ragnar hjá mér, horfði á mig aðdáunaraugum og sagði....þú ert hraustasti sjúklingur sem ég hef á ævinni kynnst. ....ég horfði undrandi á hann og spurði....af hverju segir þú það....hann svarar.....eftir að hafa lesið alla sjúkrasöguna þína sem byrjar 1981 og hvernig þú hefur farið í gegnum lífið án þess að láta öll þessi veikindi buga þig, verið í fullri vinnu og .....maður verður bara orðlaus...og svo lítur þú svo vel út.   Á þessari stundu flugu í gegnum hugan minningar um fullt af fólki sem hefur þurft að takast á við svo miklu stærri vandamál og því erfitt að svara svona oflofi en það eina sem ég gat gert var að segja sannleikannen......það hentar mér ákaflega illa að leggjast með tærnar upp í loft, má alls ekki vera að því.....og hann grípur fram í og segir....já og þá er það okkar að hjálpa þér að standa upprétt....já segi ég, þess vegna er ég alltaf að böggast eittvað í ykkur.....og hann svarar.....það áttu líka að gera, til þess erum við, til þess að hjálpa fólki.    Hann Ragnar er gull af manni.

Núna er ég að skríða saman, er ekki búin í sturtu þótt klukkan sé að verða tvö....persónulegt met....en held samt að ég fari að staulast á lappir svo ég fái ekki hjartaáfall af hreyfingarleysi og leti hér upp í mínum fína sjónvarpssófa. Get svo vonandi sagt ykkur eitthvað annað en sjúkrasögur næst þegar ég sendi línu.

 



Nýjar myndir á myndasíðunni

Búin að setja inn myndir úr Englandsferðinni á myndasíðuna

Komin heiluð heim frá Bretlandi

Þá er ég komin heim í íslenska haustið úr enska sumrinu. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Páll keyrði örvhentur allan tímann og klikkaði bara einu sinni, fyrsta daginn á leiðinni af flugvellinum, en þá tók hann hægri beygju inn á veginn beint í fangið á bílastrollu og komst hvergi nema upp á kantstein. Undrandi ökumennirnir hleyptu okkur svo yfir á réttan helming og eftir þetta voru allar beygjur vinstri sinnaðar

Umferðin þarna er ótrúleg, vegirnir þröngir og hlykkjóttir, meðfram vegunum eru tré, runnar og gróður og útsýnið því lítið sem ekki neitt en þrátt fyrir það keyra þeir eins og villimenn. Þessu eru þeir vanir og alast því upp við umburðalyndi, ekkert flaut og frekjugangur þótt einn og einn bíll þrengi göturnar og tefji umferðina. Þarna er hver fermeter nýttur til hins ýtrasta, allt ræktað, allt flatt, endalausir pínulitlir bæir með einum pöbb og kirkju, alltaf kirkja í hverju plássi. Ég verð að viðurkenna að mér leið oft eins og í gildru, mig vantaði útsýni, andrúm, pláss.  En á hinn bóginn var allt svo rólegt, stresslaust og ekki einu sinni búðir nema ein og ein pínulítil búlla með helstu nauðsynjum.  Öllu var vel við haldið og snyrtilegt. Húsin á þessi svæði eru mörg hver margra alda gömulog vernduð og eigendurnir mega ekki breyta þeim, ekki einu sinni mála þau í öðrum litum. Mér varð hugsað til Íslands og gömlu húsanna okkar sem þykir sjálfsagt að henda á haugana eins og hverju öðru rusli. Hversu brjáluð er þessi þjóð að verða, skynlaus, tilfinningalaus, verðmætabrengluð, gráðug og á hraðri leið glötunar.

Á síðustu tveimur mánuðum hafa tvær konur sem ég þekki vel greinst með krabbamein. Hversu marga þekkir þú lesandi góður sem hafa barist við, eru að berjast við eða eru látnir úr krabbameini. Getur þetta verið eðlilegt hjá ekki fjölmennari þjóð?  Ég keypti bókina hans Matthew Manning sem hann gaf út núna í vor og heitir Your mind can heal your body og fjallar um það hvernig við sem einstaklingar getum hjálpað okkur sjálf að lifa betra lífi og takast á við sjúkdóma og önnur áföll. Hluti af því er að draga úr álagi og stressi. Ef ég mætti ráða hefði ég ekki komið heim frá Englandi. Friðurinn sem ríkti yfir bæjunum þarna er vandfundinn. Hann var svo áþreifanlegur. Dæmigerð bresk sveit, testofur, hattaleiga, slátrari, pósthús inn í fornbókabúðinni, litlar sérverslanir sem iðulega höfðu miða í glugganum sem á stóð.....skrapp frá kem eftir 15 mínútur.... sæi þetta ekki ganga á Laugaveginum.

Og svo var það Matti. Hann flutti til Lavenham fyrir rúmu ári og keypti aðalhúsið í bænum, herragarðinn Lavenham Hall. Í kringum húsið er risastór garður með tjörn, styttum, hesthúsum og kirkjan næsta hús. Aðstaðan hans er í sjálfu húsinu og er lítil en kósý og full af þungum hlutum, antik, rauðmáluðum veggjum og upp á einum veggnum er mynd eftir Karólínu Lárusdóttur. Hann sagði að við værum fyrsta fólkið sem tæki eftir þessari mynd en Karólína var um tíma hjá honum í meðferð og gaf honum myndina fyrir nokkrum árum.

Matti er viðkunnalegur, spjallaði við okkur Palla fyrir fyrsta tímann, sagðist einu sinni hafa komið til Íslands á níunda áratugnum og hélt þá fyrirlestra. Það kom honum í opna skjöldu hversu góða ensku ég skrifaði og hann hélt á bréfinu frá mér í hendinni og dæsti af undrun, spurði mig meira að segja hvort ég hefði skrifað þetta sjálf. Það var áður en ég byrjaði að tala en eftir það varð hann undrandi á því hversu góða ensku við töluðum.     

Ég hitti hann 6 sinnum og í hvert skipti sat ég í háum stól með baki með púða undir fótunum. Vatnsflaskan mín var sett undir stólinn og hann sat við hliðina á mér. Hann setti tónlistina á og spilaði hana hátt, setti síðan aðra hendina á kviðinn og hina á stólbakið fyrir aftan mig. Hann bað mig að hugsa um og sjá mig fyrir mér heilbrigða og glaða. Ég lokaði augunum, dró djúpt andann og um leið og ég slakaði á fann ég hversu ofsalega heitar hendurnar á honum voru, þær hitnuðu mjög mikið í flest skiptin sem ég hitti hann. Ég sagði við hann einn morguninn eftir að hann tók hendurnar af mér....mikið eru hendurnar á þér heitar....hann svaraði....nei, finndu...og tók aðra hendina á mér í sínar og þær voru ekkert heitar.  Hann sagði að þetta væri eins og að kveikja og slökkva, um leið og hann byrjar að hugleiða hitna á honum hendurnar. Undarlegt.

Eitt var það sem var mjög athyglisvert og alveg nýtt fyrir mér sem hef oft farið í allskonar óhefðbundnar lækningar þar sem alltaf er spiluð hugleiðslutónlist, róleg og róandi. Hjá honum var tónlistin hröð, ágeng, án söngs og spiluð hátt. Samt náði maður slökun en um leið kom það aldrei fyrir að hugurinn leitaði annað. Þessi tónlist og hvernig hann notaði hana varð til þess að ég fann baráttuandann eflast, ég sá fyrir mér her af hvítum hermönnum æða um skrokkinn á mér, eyðandi krabbameininu, eða að ég var orðin frísk og hlaupandi maraþon og í marki biðu strákarnir mínir og barnabörnin.  Ég gleymdi að spyrja hann hvaða tónlist þetta er sem hann notar en ég get ekki útskýrt hvernig hún er, hún fellur ekki undir neina sérstaka stefnu, Palli var inni hjá okkur í fyrsta tímanum og tók sérstaklega eftir þessari tónlist. Verð að senda þeim póst og fá upplýsingar um hana.

Hann bauð mér að koma aftur í lok nóvember og sagði að ég gæti pantað tíma og afpantað ef ég kæmist ekki. Ég ætla aðeins að sjá til.  Ég get ekki búist við kraftaverki, árangurinn ef einhver er ætti að koma í ljós smátt og smátt. Hann sagði að það hefði komið honum á óvart hversu orkumikil ég væri. Þessi sjúkdómur væri erfiður og það kom fljótt í ljós eftir samræður við Matta að hann veit mjög mikið um krabbamein enda eru nokkrir hans bestu vinir krabbameinslæknar. Hann gefur sig ekki út fyrir að vita meira en við hin um andans mál og tengir sig ekki við guð né trúarbrögð almennt, hann notar einungis sína hæfileika til að hjálpa fólki.  Það er svo undir mér komið hvernig ég nýti hans orku mér í hag. Ég kunni vel við þetta viðhorf,  hann hefur eitthvað afl sem hann hefur lært að nota til að hjálpa fólki og þess vegna vinnur hann enn við þetta eftir 30 ár. Hann er hættur að fara í fyrirlestraferðir, fannst það þreytandi og kostnaðarsamt og ákvað að skrifa fleiri bækur og halda áfram að taka á móti fólki út í sveit í Bretlandi.

Gistingin okkar var alveg kafli útaf fyrir sig. Við vorum í bókstaflegri merkingu út í sveit. Síðasti bærinn í dalnum. Allt í kringum húsið voru engi og akrar, bóndinn að plægja svo moldarmökkinn lagði yfir húsið. Við vorum með sér inngang og stórt herbergi með stóru baði, allt mjög huggulegt. En í réttu hlutfalli við staðsetninguna var skordýralífið.  Fyrsta morguninn fékk ég engisprettu í hausinn þegar ég stóð upp úr rúminu, ég veit ekki hver hoppaði hærra ég eða hún en þegar ég ætlaði að sjá hvaða kvikindi þetta var hoppaði það út í horn á bak við regnhlífina. Palli tók regnhlífina burtu, kleip utan um lappirnar á engisprettunni og henti henni út. Næsta kvöld var ein á koddanum mínum, hún fékk sömu meðferð. Mér var hætt að lítast á blikuna. Glugginn varð að vera opinn því annars varð loftlaust í hitanum og það þýddi aukna pödduáhættu. Svo ákvað Palli að prófa að slökkva útiljósið því þær leita í ljósið. Eftir það fengum við ekki fleiri engisprettur í heimsókn. Síðasta morguninn skreið áttfætla á hálsinum á mér þegar ég var frammi á baði að greiða mér. Ég var létt fegin að vistinni var að ljúka og til að reka ofan í Palla orð hans um að ég gæti ekki átt heima í breskri sveit sökum pödduhræðslu þá sagðist ég leysa það með því að hafa svefnherbergið á annarri hæð. 

Fyrir utan dyrnar hjá okkur var hlið út á akrurinn og út á göngustíg meðfram honum. Palli gerði sér reykferðir þangað og leit um leið á gróður og dýralíf. Eitt kvöldið kom hann til baka úr göngutúrnum með fullan poka af brómberjum sem við skoluðum og borðuðum með bestu lyst. Kvöldin voru róleg og notaleg, ekkert hægt að gera, tveir pöbbar opnir og þar var eina veitingasalan. Við borðuðum á þeim báðum og í hvorugt skiptið gat maturinn talist góður. Besti maturinn var í Bury St. Edmunds en þangað fórum við tvisvar í heimsókn. Þetta er nokkuð stór bær og mjög fallegur. Við keyptum okkur þar sitt hvort skóparið en þegar heim var komið kom í ljós að ég hafði fengið báða skóna á sama fótinn. Við þurftum því að fara aftur þangað daginn eftir til að fá þetta leiðrétt. Það var að vissu leyti mjög taugatrekkjandi því umferðin þar var mun flóknari en í smábæjunum okkar. Páll hafði nefnilega næstum verið búinn að drepa okkur daginn áður með því að æða yfir eitthvert undarlegt tvöfalt hringtorg á rauðu ljósi og ég sá bara bíl koma æðandi inn í hliðina á okkur, lokaði augunum og beið eftir högginu en fyrir einhverja guðs blessun sluppum við með skrekkinn. Palli alltaf sami töffarinn og sagði.....aldrei í hættu.

Heilsan úti var ágæt, ég svaf í fyrsta skipti í tvær nætur án þess að taka svefntöflu, þakka það Matthew, ég var með ágæta orku en það sem tafði mig mest voru lappirnar, þær eru ennþá dofnar og ég get ekki gengið langt eða hratt. Alveg óþolandi ástand.  Sérstaklega pirrandi eftir að Matti talaði um að læknarnir hefðu átt að gefa mér samhliða óþverranum lyf sem heitir Glutathione en það dregur úr aukaverkunum eins og taugaskemmdum. Hann sagði að ég ætti að taka það núna því það virkaði eftir að lyfjagjöf væri hætt. Ég er búin að senda Agnesi póst um þetta mál.

Eftir heimkomuna í gær fórum við í matarboð til Ásgeirs og Rakelar og hittum alla fjölskylduna hennar og auðvitað Tóta, Sunnu og strákana og fengum rosalega góðan mat. Í dag var ég mjög slæm af vökvasöfnun í kviðnum og var lengi að spá í að fara upp á bráðamóttöku og biðja þá um að tappa af mér. Ég gerði það ekki en lá þess í stað í rúminu megnið af deginum og dormaði og beið eftir að vökvinn dreifði úr sér. Hann þrýstir svo á rifin og magann og þá fæ ég svo slæma verki, sem hverfa ekki einu sinni með öllum þessum verkjalyfjum sem ég er á. Ég var svo orðin betri seinni partinn.

Held að ég láti þetta gott heita í dag enda orðið alltof langt.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband