Færsluflokkur: Bloggar
10.9.2007 | 20:36
Farin á fund kraftaverkanna
Ágætu lesendur, nú er komið að því sem við höfum öll beðið eftir, ég er að fara til Englands að freista gæfunnar. Í fyrramálið fljúgum við til Stansted og keyrum löglega öfugu megin á veginum næstu fimm daga. Leiðin liggur fyrst til Cavendish sem er smábær.....hálf gata.... þar sem við munum gista í Butterfly" herberginu, vera með okkar eigin inngang og sér bílastæði. Í næsta nágrenni er svo Lavenham ...heil gata....þar sem Matthew Manning er með sína aðstöðu. Þegar ég var að leita mér að gistingu lét ég fylgja sögunni að ég væri að koma til að hitta Matta og flestir gististaðanna og einnig sá sem við munum dvelja á könnuðust við Matta og sögðust hafa haft gesti hjá sér í gegnum tíðina sem hefðu komið til að hitta hann, þau sögðu einnig að hann væri vel þekktur og virtur í sínu fagi í Bretlandi.
Tímarnir hjá Matthew verða sem hér segir:
- Miðvikudagur kl. 15:30
- Fimmtudagur kl. 9 og 12:30
- Föstudagur kl. 9, 10 og 12:30
Veðurspáin er ennþá rosalega góð svo það ætti ekki að væsa um okkur hjónin við sundlaugina hjá Embleton House www.embletonhouse.co.uk
Þegar við komum heim á laugardaginn bíður eftir okkur matarboð hjá Ásgeiri og Rakel en þau ákváðu að rétt væri að bjóða öllum" foreldrunum í mat í tilefni sambúðarbyrjunar.
Af óviðráðanlegum ástæðum mun ég því taka mér fimm daga blogghlé og hlakka bara til að segja ykkur ferða- og vonandi kraftaverkasögur þegar ég kem til baka.
Hafið það gott á meðan ég er í burtu og passið að skolast ekki á haf út í rigningunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.9.2007 | 09:47
Bikarinn heim
Er loksins búin að tékka á veðrinu á Suffolk svæðinu í Englandi fyrir ferðina á þriðjudaginn. Ég get ekki betur séð en það spái bara blíðu, 20 stiga hita og sól og ég sem var búin að pakka niður í huganum vetrarfötum og vatnsheldum skóm. Vona að verkfallið hafi ekki áhrif á Express vélarnar.
Heilsan þokkaleg. Agnes bað mig að panta tíma hjá geislafræðingi sem ég veit að heitir Jón...man ekki hvers son.....sem ætlar að skoða mig og athuga hvort hann geti tekið einhverja bletti til að létta á verstu verkjunum. Ljósameðferðin sem ég sagði frá hér áður er ekki framkvæmd hér og eingöngu notuð ef meinin eru staðbundin og ekki farin að breiðast út.
Var betri af verkjunum um helgina en versnaði um leið og ég kom í bæinn. Ég held að hluti af lækningu fólks af sjúkdómum felist í því að komast burt úr Reykjavík. Ég þyrfti að komast í sveitaeinangrun, dvelja í bústað, alein í marga daga og fá í friði að hugleiða, lesa, sofa og fara út í náttúruna án þess að vera trufluð. Um leið og ég opna dyrnar heima hjá mér eftir helgarferðir bíður blaðastafli, bréf, tölvupóstur, þvottur, matseld,tiltekt, þrif og allt sem fylgir daglegu lífi fólks og ég veit að fyrir flesta eru sjálfsagðir hlutir en ......Íslendingar.....þurfum við ekki aðeins að slaka á?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2007 | 11:53
Um helgina
Ég er orðin hitalaus en hællinn truflar mig ennþá þrátt fyrir verkjalyf. Verð að halda áfram að böggast í lækninum með aðgerðir til úrbóta.
Svo segi ég bara góða helgi og hafið það gott. Ég held að Cafe Flóra í Laugardalnum fari að loka hvað úr hverju svo þið skuluð endilega drífa ykkur til Marentzu í kaffi áður en hún slítur sumriBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2007 | 12:26
Róttækur þingmaður óskast
Mér finnst það líka svo gott ef einhver getur einfaldað hlutina eins og Þórdís gerði......hver af ráðamönnum þessa lands treystir sér til að lifa af 96.000 á mánuði..... Ég þekki að vísu einn gamlan vinnufélaga og vinnuveitenda sem gæti jafnvel reiknað sig í hagnað á þessum launum en hann heitir Pétur Blöndal og er þingmaður....
Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna reikna bætur þannig að teknar eru meðaltekjur síðustu þriggja mánaða og sjúklingur fær síðan 80% af þeirri tölu í bætur á mánuði. Engar tekjutengingar. Ríkið gæti tekið upp svipað kerfi en haft bæði botn og þak á upphæðum til að verjast óréttlæti. Það er grundvallaratriði að afnema tekjutengingar við maka að öllu leyti...strax... Það er auðmýkjandi að hafa unnið allt sitt líf fulla vinnu, skilað sínum sköttum og skyldum til þjóðfélagsins og á einum degi er hægt að svipta einstakling fjárhagslegu frelsi og neyða hann upp á aðra. Hvernig væri að ríkisstjórnin tæki nú upp góðan heimilisrekstur og hætti að bruðla. Hætti að kaupa nammi alla daga og fara út að borða um helgar. Hvernig væri að draga saman í flottheitunum í sendiráðunum, fella úr gildi eftirlaunafrumvarpið, selja Grímseyjarferjuna fyrir kostnaði og kaupa aðra ódýrari og sjófæra.....og svo framvegis...og framvegis.
Elsku þingmenn, ekki byrja á leiknum...líta vel út í fjölmiðlum...með því að kroppa aðeins í þetta, afnema tekjuteningu í áföngum á 10 árum !!! Hækka bæturnar um 0,5% á ári!!!! Gerist róttæk, sýnið dug og þor og framkvæmið í verki en ekki bara í orði.
Tók mér sjálfsskipað tölvuhlé í gær vegna veikinda. Veiktist í fyrrinótt og var með hita í gær. Fór í blóðprufu og hitti Agnesi sem fann engar skýringar nema þær að eftir beinþéttnilyfið getur hiti hækkað og því fylgt beinverkir í 48 stundir eftir sprautu. Ef ég verð ekki orðin hitalaus á morgun á ég að hafa samband aftur. Ég er mikið betri í dag, bara nokkrar kommur en svolítið slöpp sem vonandi lagast þegar líður á daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2007 | 22:13
Boltinn hjá þingmönnum
Ég fór til læknisins í morgun og fékk að vita að ökklaverkirnir geta varla stafað af krabbameini því blettirnir í fætinum eru það litlir að ólíklegt er að þeir nái að valda bólgum og verkjum. Henni fannst líklegra að ég væri með sinabólgu og sagði mér að prófa að taka bólgueyðandi og vera í teygjusokk. Síðan ætlar hún að athuga með einhverja ljósa-geisla-meðferð sem líklega er meðferð sem ég hef lesið um á netinu og heitir -PDT- sjá http://www.cancerbackup.org.uk/Cancertype/Bileduct/Bileductcancer - undir treatment.
Auk þessa ætlar Agnes að ræða betur við geislafræðingana um geislun á beinablettina.
Ég fór síðan beint í beinþéttnilyfjagjöf og var einmitt stödd í henni þegar ég sá fréttina okkar á Stöð 2 í hádeginu. Ég fer í þessa lyfjagjöf einu sinni í mánuði. Ofvirknin í mér kom berlega í ljós í dag þegar læknirinn minn spurði mig hvort ég væri ekki í fríi frá Xeloda þessa viku.....úps...ég hafði steingleymt að HÆTTA að taka lyfið, hefði átt að hætta á föstudaginn. Ég á að tvöfalda skammtinn af Contalgin til að reyna að losa mig alveg við rifja- og ökklaverkina. Sjáum hvernig það fer. Verð líklega rallhálf næstu daga...lallalallala...hikst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2007 | 19:02
Takk Takk Takk
Þúsund þakkir fyrir þátttökuna í dag. Þið eruð frábær og saman mynduðum við sýnilegan" þrýstihóp. Þórdís Tinna...þú stóðst þig betur en orð fá lýst í sjónvarpinu áðan, ef þín einlægu orð virka ekki á freðna stjórnmálamenn þá gerir það ekkert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2007 | 23:52
Mótmælum öll
Þórdís Tinna skrifar á heimasíðunni sinni þarfan pistil um trygginga- og bótakerfið, svo gerði einnig Guðrún Jóna fyrr í vikunni. Ég tek að sjálfsögðu undir öll þeirra orð um þetta mál enda sjálf lent í TR gildrunni.
Þar sem í mér rennur bæði franskt blóð og strandablóð á ég það til að æsa mig bæði í orði og á borði um mál sem þessi. Ég skil ennfremur alls ekki afhverju við Íslendingar getum ekki hundskast til að mótmæla í verki í stað þess að tuða hver í sínu horni.
Ég vil því koma á framfæri hugmynd um þrýsting á stjórnvöld sem er í anda þeirra aðferða sem Amnesty International notar til að þrýsta á stjórnvöld víða um heim í mannréttindamálum.
Hugmyndin er þessi. Á þriðjudaginn fyrir hádegi milli 10 og 12 sendi allir öryrkjar, aldraðir og aðrir þeir sem vilja taka þátt tölvupóst á netföng heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins með meðfylgjandi texta:
....Ég skora hér með á íslensk stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör öryrkja og aldraðra til samræmis við íslenskan veruleika.... (hugmynd að texta).....undirskrifað af viðkomandi með kennitölu.
Þið sem lesið þetta setjið þetta á bloggsíðurnar ykkar og biðjið jafnframt aðra um að gera slíkt hið sama. Með einhverju svona átaki væri möguleiki að koma skilaboðum til stjórnvalda í verki og láta í ljós óánægju sína með ástandið. Í stað þess að mæta niður á Austurvöll og mótmæla eins og í gamla daga, sem engin nennir lengur að gera, þá notum við nútímatækni til að mynda öflugan þrýsting og höfum fjölmiðla með í för.
Hvernig líst ykkur á þessa hugmynd?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2007 | 17:22
Um mig
Sjá síðuna www.blog.central.is/gislina
Ég heiti Gíslína Erlendsdóttir og er 46 ára fædd í Norðurfirði í Strandasýslu, alin upp í Dal í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi en hef búið í Reykjavík síðan 1978. Ég er gift, á tvo syni og þrjú barnabörn auk tveggja stjúpsona. Ég útskrifaðist með BS gráðu frá HÍ í ferðamálafræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein í október 2005. Ég hef lengst af starfað sem gjaldkeri og skrifstofustjóri hjá Íslensku auglýsingastofunni. Í nóvember síðastliðnum greindist ég með ólæknandi krabbameinsæxli í gallganginum þar sem hann gengur í gegnum brisið. Ég hætti að vinna og fór í aðgerð í janúar þar sem fjarlægja átti æxlið en þar sem krabbameinið hafði breitt úr sér í eitla við bláæð magans varð ekkert úr aðgerð en hafin lyfjameðferð. Líkur voru ekki góðar og læknirinn ekki bjartsýnn. Mér hefur liðið bærilega og haft nóg að gera við að aðstoða manninn minn við rekstur lítils einkafyrirtækis hans. Ég hangi enn uppi, berst eins og ljón og ekki annað hægt að segja en það hafi gengið vonum framar. Í september n.k. ætla ég svo að heimsækja frægan breskan heilara Matthew Manning að nafni og fá hann til að reka óværuna endanlega úr mér. Það verður spennandi að sjá árangurinn. Ég trú á allt og finnst að engin ætti að útiloka að kraftaverk geta gerst og gerast oft. Nota hina síðuna mína til að koma fréttum af mér og mínum á framfæri til þeirra sem þekkja mig og annarra sem áhuga hafa og reyni líka að skrifa um landsins gagn og nauðsynjar ef þannig er gállinn á mér. Skrif um allt milli himins og jarðar. Vona að þið hafið gagn og gaman af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2007 | 13:28
Klukkuð
Var að taka eftir því að Anna frænka hafði klukkað mig fyrir þó nokkru síðan, en hér koma nokkrar staðreyndir.
Ég er fædd strandanorn
Ég ólst upp á Snæfellsnesi
Ég er 46 ára
Ég er með ólæknandi krabbamein
Ég varð amma 38 ára
Ég er með BS í ferðamála- og fjölmiðlafræði
Ég er hvatvís, kjaftfor og umbúðalaus
Ég er með franskt sjómannsblóð og lít út eins og kolamoli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.6.2007 | 22:11
Hin síðan mín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)