Færsluflokkur: Bloggar

Kastljós malar Ísland í dag

 

Náði örlitlu áhorfi á sjónvarp í kvöld og sá þá Egil Helgason hvísla því að Helga Seljan að hann hefði byrjað á RÚV í dag. Ég er alveg himinhress með þessa nýju stefnu RÚV að reyta af 365 fjaðrirnar hverja á fætur annarri. Ég er eins og sjá má RÚV kona og stend á því fastari fótunum að sú „stofnun" sé alheilög, mín prívat eign ásamt íslensku þjóðarfjölskyldunni og eigi að einbeita sér að því að fullnýta alla þætti sem þeir hafa yfir að ráða til að gera innlenda dagskrárgerð ennþá betri. Þeim hefur reyndar ekki tekist það ofvel í gegnum tíðina en núna verð ég að segja að Kastljósið er að mala Ísland í dag. Ég fæ nefnilega aulahroll af að horfa á þáttastjórnendur Íslandsins mæna  hvert á annað í öllum kynningum svo áhorfendanum líður eins og dónalegum gluggagæi að hnýsast inn á einkaheimili fræga og sæta fólksins.  Yfirborðsgleði, taugaveiklun og rjúpnarembingur við að hafa þetta svo afslappað og óvþingað......en því miður, þetta virkar ekki.  Í Kastljósinu er allt að ganga upp, efnið-eitthvað fyrir alla-, umgjörðin-traustvekjandi en jafnframt notaleg, umfjöllunin-vel unnin og framreidd og fólkið-bæði sætt og frægt en fyrst og fremst þarna til að leiða okkur áhorfendur í gegnum þáttinn.

Það verður gaman fyrir þjóðina að fá Silfur Egils óruglað inn í hvert landsbyggðarskúmaskot og ekki varð ánægjan minni þegar hann upplýsti að í burðarliðnum væri bókmenntaþáttur sem hæfi göngu sína í haust. Bókaþættir á ríkissjónvarpinu ættu að vera á dagskrá þess með landslögum. Erum við ekki öll á kafi í kiljum og kverum hvert í sínu horni.


Reykingabannið

 

Mikið fer í taugarnar á mér þetta kjaftæði í Kormáki út af reykingabanninu. Ég hélt að það væri maturinn sem fólk sækti á veitingastað Kormáks en ekki sígarettureykur en kannski er ég eitthvað að misskilja þetta. Ég var í Skotlandi um daginn og sá ekki betur en að á pöbbunum væri fullt af fólki, nokkrir stóðu úti að reykja en eru reykingamenn ekki bara orðnir vanir því, þeir fara út heima hjá sér, í heimsóknum til vina og vandamanna  á flugstöðvum og bara allsstaðar nema á kaffihúsum og börum. Held að þetta sé ofmetið hjá Kormáki að halda að viðskiptin dragist saman, þau munu ekki gera það. Er ekki reynsla annarra þjóða sú að viðskipti dragast saman til að byrja með en síðan venst fólk aðstæðum og aðsóknin fellur í fyrra horf, reykingamennirnir rölta bara út til að reykja. 

Við sem ekki reykjum eigum rétt á hreinu lofti á þessum stöðum sem og annarsstaðar. Ég veit að reykingamenn koma þá með rökin hvað með bílaútblástur og annan óþverra sem við öndum að okkur. Jú það er alveg rétt við mengum en verðum við ekki að byrja einhversstaðar, ég kannast ekki við að lykta af koltvísýringi eftir bílferð í bæinn. Reykingamenn eru í minnihluta í þjóðfélaginu og samkvæmt lýðræðisreglunni á meirihlutinn að ráða.  Ég vil fá að velja mína mengun sjálf og hef alltaf verið ósátt við þetta ofbeldi sem reykingamenn hafa um aldir boðið okkur reyklausum upp á.  Þið sem reykið....hvernig væri bara að hætta þessum andskota og lengja lífið í kjölfarið. Þið gætuð staðið frammi fyrir dauðadómi vegna þessa ávana og það eru ekki spor sem ég óska neinum að standa í, þekki það af eigin raun.   


Reykjavík-Aberdeen

 

Flugrekstrarfólk í Aberdeen er með á prjónunum að hefja áætlunarflug milli Reykjavíkur/Keflavíkur og Aberdeen fyrir golf- og verslunaróða Íslendinga. Efnahagur Aberdeen búa er með því besta sem gerist í Skotlandi og því lítið um útigangsfólk og betlara. Í Glasgow eru yfir 64% íbúanna undir fátækramörkum og Glasgow hefur eina hæstu glæpatíðni evrópskra borga. Þar sem ég hef komið til beggja borga og hef því samanburð þá mæli ég hiklaust með Aberdeen, hún er miklu fallegri, minni og notalegri en Glasgow, þaðan er stutt að fara á  golfvellina, þar eru allar helstu verslanir, H&M, Topshop, Next, Oasis, Gap, Marks & Spencer, Primark ofl. ofl. auk kaffihúsa, pöbba, veitingahúsa og skemmtigarðs við ströndina. Allir geta fundið eitthvað skemmtilegt að gera í Aberdeen. Þaðan er líka stutt til Loch Ness og fleiri mjög fallegra staða sem ég hef verið svo heppin að fá að heimsækja. Veðrið þar er líka betra en í Glasgow og Edinborg því Aberdeen er á austurströndinni og Atlantshafslægðirnar hella úr sér yfir vesturströndina sem þýðir að í Aberdeen er þurrara en á öðrum stöðum í Skotlandi. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að boðið verði upp á nýjan áfangastað fyrir ferðaglaða Íslendinga.


Rusl og drasl

Foreldrar Íslands - kennið börnum ykkar og unglingum að henda ekki rusli út um allt.

Líst ekkert á þessa nýju menningu sem virðist stjórnast af algjöru virðingarleysi fyrir umhverfinu. Hvernig er hægt að hafa samvisku í að henda rusli út um bílglugga eða skilja það eftir við gangstíga og í görðum. Þegar ég var lítil stúlka í sveit var ávallt einn vordagur tekinn í að hreinsa rusl.  Þá fóru bændur og búalið í hreinsunarferð meðfram malarvegunum og hirtu rusl. Reglulega þurftum við að halda niður í okkur andanum meðan rykmekkir bílanna sem framhjá fóru skullu á okkur eins og skítug skúr. Svo breyttist þetta og ruslið hvarf, afhverju man ég ekki en sennilega hefur verið gert átak til að breyta þessu, og það tókst.

Draslneysla almennings er yfirgengileg. Ég komst ekki hjá því út í Aberdeen að hugsa um hvað verður um allan þann fatnað og skó sem ekki selst. Ég gekk um outlet íþróttavöruverslun í borginni sem var svo troðfull af fötum og skóm að það var hreinlega erfitt að komast þar um. Mér leið eins og á ruslahaug, hvað yrði um allt þetta drasl ef það selst ekki, sem það gerir auðvitað ekki.  Því er eflaust hent, urðað eða brennt með tilheyrandi umhverfismengun. Nær væri að senda þetta til Afríku eða Pakistan en það kostar sennilega meiri peninga en að keyra þetta á næsta ruslahaug.  Hvað veit ég, það er ekki mitt vandamál....ennþá.


Fegurðardrottning Íslands

Brotthvarf Páls til Akureyrar varð til þess að ég hoppaði á ....special treatment....fyrir konur sem eru einar heima.  Dagskrá kvöldsins - Píta, dvd og fegurðarsamkeppni Íslands.   Pítan var góð, Stranger than fiction betri, Fegurðarsamkeppnin afleit. Hvernig geta ungar stúlkur látið hafa sig í þetta kjaftæði. Þarna lýstu þær með barnslegri röddu hvað þær langaði þegar þær voru litlar að verða þegar þær yrðu stórar-flestar ekki ennþá orðnar stórar.  Búðarkassadama í Hagkaup og flugfreyja, hann var betri litli strákurinn í drengjakórnum í Kastljósinu í fyrrakvöld en hann langar að verða fisksali því honum finnst svo gaman að halda á fiski. Almennilegt verkefni það. 

 

En aftur að drottningunum.  Ekki tók betra við þegar þær þurftu að segja frá því hvaða dýr væri í uppáhaldi og hvert þær stefndu í framtíðinni, hundur, köttur, maður, börn og hamingja...krúttlegt. Afhverju eru þær ekki spurðar alvöru spurninga eins og ...hefur þú ferðast um Ísland....hvaða skoðun hefur þú á náttúruvernd....eða .....stríði...fá þær til að hugsa, kynna sér heiminn, landið og eyða þá tíma í það í staðin fyrir að böglast um á æfingum í fyrirsætugöngulagi svo ýktu og afkáranlegu að minnti helst á nýsloppnar beljur úr fjósi. Svo komu sviðsatriðin, þarna gengu þær um greyin, sveittar og skjálfandi af stressi, fattar og stífar eins og staur stæði upp í rassinn á þeim, göngulagið ýkt og flækjulegt og þegar þessu var öllu lokið grét fegurðardrottningin fögrum tárum, sennilega bæði glöð og fegin yfir að þessu væri lokið.

 

Ekki fór á milli mála að margar þeirra voru með silikonbrjóst. Kona vinar míns vinnur sem skurðhjúkrunarfræðingur á lýtalæknastöð í Reykjavík, hann veit því allt sem hægt er að vita um fegrunaraðgerðarheiminn á Íslandi. Hann sagði mér eitt sinn að ef línan þar sem brjóstin byrja skerist niður og upp rísi vel löguð brjóst með boltaútliti væri það alveg öruggt að brjóstin væru gervi. Alvöru brjóst hafa enga svona augljósa línu því þau flytu í eðlilegu framhaldi niður og fram af bringunni.

.....nú vitið þið það.

 

Það eina góða við þennan þátt var Jógvan sem söng eins og engill, ég ætla að kaupa diskinn hans þegar hann kemur út.     

 

Hgæri, vinstri...snú

Sit og bíð eftir Páli sem fór að vinna. Tilbúin í ferðalag austur á Klaustur en þangað hef ég ekki komið í mörg ár. Spennandi að sjá hvort eitthvað hafi breyst á þeim tíma. Vonandi sleppir Katla því að gjósa næstu 3 daga. Reyndi að pakka létt en er að vonast eftir sól á pallinum og í pottinum og tók því einn hlýrabol með en engar stuttbuxur. Spurning hvort stígvélin og úlpan fylgi líka.  Annars sagði Ragna mágkona mér frá þrælsniðugum pokum í Rúmfatalagernum sem hægt er að loftæma. Keypti tvo svoleiðis og núna eru sængurnar og koddarnir komnir í pokana og taka jafnmikið pláss og mogginn opinn í miðjunni. Algjör snilld. Setti bara ryksuguna í gatið og loftið hvarf. Palla finnst þetta óþarfi enda vanur að henda bara öllu í einn ruslapoka og eina tösku og út í bíl.  

 

Sá að það hafði snjóað í Esjuna í morgun. Eitthvað ætlar vorið að draga lappirnar næstu daga og láta vetur konung vaða yfir sig. Það er svona að vera hvorugkyns.....vita ekkert í hvora löppina maður á að stíga, eins og ég í pólitík. Kannski bara rétt hjá Iðunni frænku að það vantar framboð sem heitir.....hægri, vinstri..snú.  

  

Omega gáfur

Mikið er ég orðin dauðþreytt á þessu blessaða ríkisborgararéttarmáli hennar Jónínu, þetta er orðið jafn leiðinlegt og Baugsmálið fræga. Málið er farið að lykta af ofsóknum.  Hver ætli standi fyrir þessu í Kastljósteyminu.

 

Sá líka Ingibjörgu Sólrúnu áðan í Kastljósi og það er alltaf svo gaman að hlusta á hana, hún er málefnaleg, alltaf glöð og hress og aldrei hægt að reka ofan í hana eitt né neitt.  Ég var að lesa um Steingrím Joð á einhverju bloggi í dag þar sem hann átti að hafa reiðst og ráðist á spyrjanda í kosningasjónvarpinu í gær. Kveikti svo smá stund á sjónvarpinu í dag og sá einmitt þetta atriði, Steingrímur virtist ekki í góðu jafnvægi og virkaði reiður og pirraður. Ekki gott mál fyrir VG því nú má ekkert klikka. Held að ég sé búin að ákveða hvað ég kýs.....svona 90% viss.

 

Búin að pakka fyrir veiðiferðina, matur verður stór þáttur í farangrinum, kjötsúpa, læri og perutertur hluti af kostinum....þökk sé matardrottningunni henni móður minni. Ég ætla að passa börn, spila og hanga í pottinum, fiskarnir þurfa ekki að hræðast mína veru á svæðinu. Kistan nú þegar full af fiski, ferskum og reyktum, silungi, skötusel, ýsu og lúðu. Hér á bæ er borðaður fiskur oft í viku svo enginn þarf að undrast gáfur okkar Páls...broskall!!  BBC segir að fiskneysla sé undirstaða gáfna og ekki lýgur sú ágæta sjónvarpsstöð. Omega fitusýrur á hvers manns disk.   


Skreiðin hennar mömmu

Fjölskyldan í Dal var í kaupstaðferð í Stykkishólmi, á Cortinunni, mamma, pabbi og þrír krakkagrislíngar, líklegast á aldrinum 5 til 8 ára, ég elst. Á þessum tíma voru nokkrir skreiðarhjallar fyrir utan bæinn og á leiðinni heim dettur mömmu það snjallræði í hug að ná sér í fisk í matinn með því að stela sér smá skreið. Pabbi stöðvar bílinn, mamma stekkur út, frá á fæti eins og alltaf, hleypur upp að hjöllunum og nær sér í nokkrar kippur.  Hendir þeim í skottið á Cortinunni og svo var brunað af vettvangi. Vá, þetta var spennandi. En ekki lengi því fljótlega fór að bera á einni og einni maðkaflugu á sveimi í bílnum. Ég byrjaði að öskra.  Flugunum fjölgaði, ég öskraði meira. Pabbi sem sjaldan skipti skapi reiddist og skipaði mér að hætta þessari vitleysu. Flugunum fjölgaði....og fjölgaði og ég truflaðist, öskraði, sparkaði og heimtaði að pabbi stoppaði bílinn svo ég kæmist út. Loksins fannst öðrum fjölskyldumeðlimum fjöldi flugnanna orðinn eitthvað undarlegur og þegar ég var búin að opna hurðina á bílnum sem var á fleygiferð og hótaði að stökkva bað mamma pabba að stöðva bílinn.  Ég flaug út, öskrandi, hristandi hausinn og berjandi út öllum öngum til að losa mig við viðbjóðinn.  Pabbi opnaði skottið og út flugu þúsundir vel feitra maðkaflugna, skreiðin var skilin eftir fyrir utan veg, fyrir maðkaflugurnar. Þetta var ekki reynt aftur.   


Vísa í síðu

Vísa gestum á hina síðuna mína..... www.blog.central.is/gislina

 


Endaleysa

 

Hvað er líkt með Baugsmálinu og Lost?  Jú hvort tveggja er komið yfir 100 þætti og enginn endir í sjónmáli.  Hver ætli skrifi handritið. Dabbi?  Eða er það leyndarmál.  Leikarar standa sig ágætlega, þetta lítur allt eðlilega út, ætli þeir séu á launum eða geri þetta frítt. Skil ekkert í því afhverju Stöð 2 nýtir sér ekki söguþráðinn til sýninga í stað þess að birta þetta sem framhaldssögu í Fréttablaðinu. Áhorfendum fækkar, plássið í blaðinu minnkar og líklegt að þetta deyi út eins og frétt um stóra snjóskafla í júní sem enginn veit hvenær bráðnuðu.  Hver er saklaus og hver er sekur. Flestir sekir sleppa með skrekkinn í íslenska dómskerfinu nema auðvitað smákrimmarnir sem fylla fangelsin meðan stórlaxarnir sleikja sárin á fínu snekkjunum sínum og bíða eftir að afbrotin drukkni í gullfiskaminni landans. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband