3.10.2007 | 18:16
Kærleiksgjöf
Ég fékk yndislega heimsókn í dag þegar öll barnabörnin ásamt mæðrum þeirra komu til mín og gáfu mér fallegan hvítan kodda með tveimur áþrykktum myndum af þeim saman, bæninni... Vertu nú yfir og allt um kring.....og þessum skilaboðum......Elsku amma okkar, við elskum þig, Gabríel Máni, Hera Sif og Freyja Rán. Núna get ég alltaf haft þau nálægt mér. Takk elsku bestu börnin mín.
Að örðru leyti hefur dagurinn liðið í einhvers konar móki. Hef verið svo syfjuð og þreytt að ég hef ekki getað lesið eða horft á sjónvarpið. Hef enga verki og held að ég sé í afvötnun eftir lyfjarússið á spítalanum í gær. Gabríel kom hér upp úr tvö og við horfðum" saman á sjónvarpið. Klukkan tvö kom kona frá Tryggingastofnun til að meta hvort ég eigi rétt á heimilishjálp. Reglurnar eru þannig að ef maður á maka þá þarf að taka beiðnina sérstaklega fyrir á fundi. Það er ætlast til þess að makinn taki að fullu leyti að sér heimilisstörfin. Það er ekki nóg með að makinn þarf að taka á sig aukna fjárhagsbyrði vegna veikindanna og andlegt álag sem fylgir því að sjá ástvin missa heilsuna heldur á hann líka að sjá um heimilishaldið. Ofurmannlegar verur eru ekki til en TR ætlast greinilega til þess að MAKARNIR skelli sér í Súpermann búninginn og reddi öllu á augabragði.
Ég sagði við konuna að mér fyndist í svona tilfellum að sá tími sem hjón geta eytt saman ætti að fara í eitthvað annað en að þrífa og þvo þvott. Hún var alveg sammála mér og sagðist ætla að mæla með að ég fengi aðstoð í 6 mánuði. Ég sagði að það væri bara gott mál, ég mætti þakka fyrir ef ég lifði svo lengi. Svo þarf ég að bíða fram í næstu viku eftir úrskurði.
Ég vona að ég verði orðin hress á morgun og geti farið að stytta aðgerðarlistann. Verð að hætta núna því ég er að SOFNA.
Athugasemdir
Þetta er leiðindaferli að fá einhvern til að þrífa. Þó svo maður borgi fyrir. Við hjónin erum bæði öryrkjar og þegar ég hætti að geta þrifið í sumar þrjóskuðumst við fram í sept. en kallinn gat þetta ekkert heldur svo við sóttum um aðstoð. Það þýddi viðtöl, heimsókn og læknisvottorð sem staðfesti heilsuleysi okkar. Þetta er yndælt stríð sagði einhver. Til hamingju með þessa yndislegu kærleiksgjöf og gangi þér sem allra best.
Ásdís Sigurðardóttir, 3.10.2007 kl. 18:29
Þetta er svo glatað kerfi mín kæra. Allt of þungt og vitlausar áherslur.
Mínar bestu og hlýjustu kveðjur
Ragnheiður , 3.10.2007 kl. 18:43
Sendi hér smá af vestfirskri orku.
Hlýjar og góðar kveðjur
Birna Mjöll Atladóttir, 3.10.2007 kl. 19:31
Kærleikskveðja af Skaganum.
SigrúnSveitó, 3.10.2007 kl. 21:45
Ótrúlega falleg gjöf frá ömmubörnunum.... og alltaf jafn undarlegt að þú sért amma. Ég trúi að þú hafir sannfært konuna frá TR... og að hún hafi haft gott af því að hitta þig. Þú kannt að rökstyðja mál þitt, enda, eins og þú segir... ekki hægt að ætlast til að venjulegur Páll verði Súperpáll bara sisvona.
Ljúfustu kveðjur frá okkur öllum.
Anna Einarsdóttir, 3.10.2007 kl. 22:41
Mikið er gjöfin til ömmu yndisleg. Þú ert að horfast í augu við lokakaflann og þá finnst mér hallærislegt að fá svona lágkúrulega heimsókn eins þú fékkst í dag frá TR. Fjölskyldan á nóg með að styðja þann veika. Karitas og læknirinn sýna þér skilning og virðingu sem við eignum öll skilið að njóta. Láttu þér líða sem allra best og njóttu stundarinnar. Guð blessi ykkur öllFríða
Fríða (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 00:56
Æðisleg gjöf frá ömmubörnunum þínum.
-- frá mér
Ásta Björk Hermannsdóttir, 4.10.2007 kl. 09:08
Endalaus kærleikur og mikil hlýja sem hefur fylgt heimsókninni frá stelpunum og börnunum. Þó að það virðist kólna þegar við þurfum að leita út fyrir rammann, þá er greinilega endalausa hlýju að finna innan hans!!
Til hamingju með hvað þú átt yndislegt fólk í kringum þig!! Super-Palli og allir litlu og stóru englarnir þínir.
Okkar bestu kveðjur, Sigrún og stelpurnar á Bifröst
Sigrún Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 09:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.