8.10.2007 | 12:05
Hausthelgi
Föstudagurinn var frábær. Hitti vinkonu mína í hádeginu og fór svo í heimsókn á Íslensku, mér dvaldist þar í nokkurn tíma enda mikið hægt að spjalla við gamla vinnufélaga. Kom ekki heim fyrr en um fimmleytið en við Páll áttum pantað borð klukkan sjö.
Humarhúsið stóð virkilega undir nafni, maturinn var fullkominn, ég hef ekki borðað svona mikið í marga mánuði. Við byrjuðum á forrétt, ég fékk mér hreindýra tataki sem voru hreindýrasneiðar með furuhnetum og wasabi sósu, Palli fékk sér reyktan ál fylltan með humri. Báðir forréttirnir voru rosalega góðir. Svo fengum við lystauka sem var grafið lamb, alveg rosalega glott. Í aðalrétt var svo grillaður íslenskur humar með hvítlaukssmjöri. Humarinn bráðnaði upp í mér og það sem betra var, hann var ekki í skelinni, þoli ekki að þurfa að plokka þetta úr sjálf. Ég kláraði næstum allan skammtinn minn, held að Palli hafi ættleitt tvö stykki. Í eftirrétt fékk ég mér Créme Brulé með blóðbergskeim og krækiberjasorbet. Þetta er besti eftirréttur sem ég hef á ævi minni smakkað og svo góður að Páll datt nærri ofan í diskinn minn af ánægju. Hann fékk sér auðvitað kaffi og koníak og missti því að mestu af þessum dýrindisrétti fyrir utan það sem ég tímdi að lauma upp í hann annað slagið. Eftir þessa veislu var ég orðin svo södd að ég gat varla gengið. Hugmyndin hafði verið að fara í bíó klukkan tíu á kvikmyndahátíð en Palli tók af mér ráðin og ákvað að fara með mig heim, enda konan bæði orðin þreytt og dagurinn búinn að vera langur. Hef hann samt grunaðan um að hafa þarna notað heilsufar mitt til að sleppa við menningarlegt augnakonfekt án engilssaxnesku.
Laugardagsmorguninn var slæmur, verkir miklir og lítil hjálp í pillunum svo ég komst ekki á fætur fyrr en klukkan tvö. Siggi og Hildur vinafólk okkar að norðan kom í heimsókn og mikið var gaman að sjá þau. Um kvöldið stefndi í stórfjölskyldumat en svo fór að týnast úr hópnum svo við enduðum með að kjamsa á læri með Hauki Páls, Sigrúnu Stefáns og Yngvari hinum norska manni hennar. Mjög góð stund. Sigrún Hermanns og Hinrik ráku inn nefið og svo fór ég bara snemma í bælið.
Leikurinn endurtók sig á sunnudaginn, verkir fram yfir hádegi en þegar þeir loksins gáfu eftir fór ég í göngutúr til Egils og Rögnu að skoða Glasgow góssið. Ragna og Lísa fóru í skipulagða innkaupaferð til Skotlands og Agli taldist til að afraksturinn hafi verið um 100 kíló af fötum, skóm, töskum, hönskum og skartgripum. Ég er mjög stolt af stelpunum, ekki oft sem konur bara koma hreint fram í þessum efnum og láta auk þess verða af því að fara í alvöru verslunarferð. Ég hefði sko komið með ef ég hefði verið hress og spræk. Rölti svo heim aftur og fékk Ásgeir og Rakel í heimsókn og svo Baldur og Guðrúnu með Kristný Elnu. Stebbi Valda kíkti líka í heimsókn. Palli sótti svo Berta og Gústu út á völl og þau fengu sér snarl áður en þau héldu norður. Ég var hins vegar kölluð upp á slysó í gærkvöldi en Kári hafði stórskorið á sér hendina og bað um að mamma hans kæmi til andlegrar aðstoðar. Hann var lagður inn í nótt en er kominn heim og verður frá vinnu næstu viku.
Vaknaði miklu betri í morgun og vonast til að ég geti fengið hjúkrunarkonurnar til að panta tíma í aftöppun fyrir mig á morgun eða miðvikudaginn, er að byrja að þenjast út aftur. Mér líður að öðru leyti ótrúlega vel og er ekkert að fara að hrökkva upp af, sérstaklega ekki í svona góðu veðri. Held að gangan í gær hafi gert mér gott svo ég fer í aðra núna eftir hádegið og anda að mér frísku, litfögru haustlofti.
Athugasemdir
Ég sé að þú hefur átt frábærann föstudag og helgin öll verið full af fjöri en það er nú ekki hægt að segja annað en að það verði mikið úr verki hjá þér en þú ert ótrúlega jákvæð og dugleg kona
Katrín Ósk Adamsdóttir, 8.10.2007 kl. 12:35
Auðvitað getur þú ekki verið að hrökkva upp af í svona góðu veðri... og enn síður í rigningu... heldur ekki í roki...... né snjókomu, hagléli, slyddu, logni osfrv.
Málið útrætt !
Anna Einarsdóttir, 8.10.2007 kl. 13:36
Frábært að helgin var svona góð, tek að öðru leyti alveg undir með Önnu
Ragnheiður , 8.10.2007 kl. 14:35
það er bara eins og að fara í fína veislu að lesa bloggið þitt núna. Svo er þetta ekki smá góð auglýsing fyrir Humarhúsið. Já, það er listgrein að elda góðan mat og mikið finnst mér það gaman. Gott að helgin var góð og við skulum líka hafa vikuna góða. Guð blessi þig og alla hina Fríða
Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.10.2007 kl. 17:26
Duglega kona, les"biblíuna" þína reglulega og dáist að þér.
Halla Jökulsd. (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 19:18
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 21:05
Ummmmmmmmmm... ég fæ vatn í munninn að lesa lýsinguna á deinnernum ykkar Palla. Svakalega langar mig í humar!!Þú ferð á kostum, nú sem endranær, frásagnagáfa þín þvílík Gíslína.
Þú ert náttúrlega þvílíkur orkubolti að það hálfa væri nóg. Hvernig þú ferð að því að hitta alla þessa gesti og þvælast um er ofar mínum skilning. Það er alveg augljóst að þú hefur engan tíma til að kveðja okkur strax, eins og ég hef áður sagt.
Það eru ekki margir í þínum sporum með þennan járnvilja. Stundum eru afleiðingarnar meiri verkir, trúi ég en það á ekki við mína að vera í lognmollu, takk fyrir.
Þú ert ótrúleg, enn og aftur
Baráttukveðjur og hlýji straumar
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.