Bein plús grind samasem ég

Ekkert nýtt af mér annað en ég er horfin.....allt nema beinin. Ég hef aldrei á ævi minni verið svona horuð, alltaf grönn en aldrei horuð, fólk horfir á mig út í búð og telur mig eflaust vera anorexíusjúkling. Fór í bað áðan og er að hugsa um að henda speglinum út í rusl. Ég leit út eins og gyðingur í útrýmingarbúðum nazista. Samt borða ég eins og hestur og meira að segja fullt af fitandi mat.....fitandi fyrir venjulegt fólk en hefur greinilega engin áhrif á mig. Eigum alltaf eftir að nýta okkur gjafabréf í Laugar og ég get ekki pantað nudd fyrir mig, það nuddar enginn beinagrindur. Sorglegt og erfitt að sjá sig visna upp.

 

Annars bara góður dagur, gott veður og ég fór út í göngutúr og þreif blóðbaðið úr Daewoo eftir handameiðslin hans Kára. Hann fékk minn bíl því hann er sjálfskiptur. Síðan kom hjúkrunarkonan frá Karítas í heimsókn, gott að fá þær og ræða málin, svo redda þær öllu bara ...hviss-bang...lyfin komin heim að dyrum og búnar að hringja í lækninn og redda hinu og þessu. Á von á að heyra frá Agnesi á morgun, vegna rannsókna og beiðni um að fá stöðuna uppfærða. Hjúkrunarkonan mælti með að ég færi í nálastungur til að minnka bjúg og vökvasöfnun og helst líka oftar í slökun. Tinna María er í útlöndum svo ég fer kannski bara til Lilju á LS sem er virkilega góð hugleiðslukona.

Haukur hans Palla kom í smá heimsókn með kærustuna hana Ölbu sem er hálf spænsk, lítil, brún og sæt stúlka sem stefnir á arkitektanám. Voða sæt saman. Svo kom Tóti í smá innlit.

Á laugardaginn ætla Egill og Ragna að halda upp á doktors- og mastersprófs áfangana sína og bjóða vinum og vandamönnum til teitis. Það verður gaman að hitta allt liðið og spjalla og borða eitthvað gott sem þau ná að galdra fram ef ég þekki þau rétt.

Þjóðmálin verða að bíða en til að fá útrás og lesa það sem ég hefði sennilega sjálf sagt um þau er gott að skoða síðuna hennar Kristjönu frænku minnar   http://bubot.blog.is/blog/bubot/   sjá líka hér til hliðar.  Í flestum tilfellum er ég sammála henni og skil vel æsinginn og eldmóðinn því þannig var ég líka, meðan ég hafði orku til. Við erum nokkuð mikið skyldar því mömmur okkar eru systkinabörn í báðar ættir sem skýrir kannski þennan andlega skyldleika sem ég finn fyrir þegar ég les bloggið hennar.

Gott í bili - er farin að sofa.....þótt fyrr hefði verið  .....góða nótt Sleeping.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Æj ósköp ertu orðin rýr...hentu bara speglinum. Er eitthvað mál að komast í samband við Karítas ? Spyr fyrir vin minn. Þú mátt senda mér upplýsingar í ragghh@simnet.is

Kær kveðja til þín mín kæra og ég ætla að skreppa á kertasíðuna þína

Ragnheiður , 8.10.2007 kl. 23:46

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Það er einkennilegt þetta líf, megnið af ævinni erum við konurnar að berjast við aukakílóin, mismörg reyndar en flestar vilja losna við einhver til að passa inn í staðalímyndina.

Svo fær maður þennan bév... sjúkdóm og þá hrinur allt, aukakílóin fjúka og allt hverfur, meira að segja "rassinn". Eina ráðið er að vera í hólkvíðum fötum, af nærgætni við aðra.

Nú er ekkert sem heitir; lúpínuseiði, orkudrykkir og hitaeiningar í þúsundavís. Rjóma- og ostalöguð sósa í hvert mál, líka með fiskinu. Eftirréttur á hverjum degi, ostabakkar og alles af og til. Kúra uppi í sófa og maula súkkulaði, harðfiskur og íslenskt smér á milli mála. kakó á kvöldin, helst með sykurpúðum, og hálfur líter af bjór á dag, takk fyrir, þ.e ef þú þolir hann. Er stútfullur af hitaeiningum Verst hvað þetta er dýrt, en þá bara lætur okkur vita.

Vona að meiðsl Kára hafi ekki varanleg áhrif, handarslys eru alltaf slæm, ekki síst hjá ungum mönnum. Gott að heyra að allt gengur vel með Karítas, ómetanlegt að hafa sterka tengiliði í stað þess að rembast sjálfur við að ná sambandi við læknana á LSH. Boðleiðir allt of langar.

Sofðu rótt, hlakka til að lesa næstu færslu 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 23:52

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Takk stelpur. Er ekki alltaf verið að segja að krabbameinið lifi á sykri?? Ég held ég fari bara eftir þessu plani þínu Guðrún, líst vel á og finnst allt sem þú taldir upp vera gott, borða líka allt nema helst ekki tómatsúpu...finnst hún ekki góð. Áfengi verð ég að láta eiga sig svo lifrin hafi undan. Harðfiskur og smér...alveg búin að gleyma því...kaupa það. Fæ mér stundum kakó með sykurpúðum og brauð með osti með...nammi.  Datt í tekexið áðan og fékk mér margar með heimagerðri mömmusultu og brie osti. Held þessu áfram og sé hvort þetta hormál snýst ekki við.

Hendin á Kára slapp við taugaskaða en það var ekki hægt að sauma, þetta þarf að holdfyllast af sjálfu sér.

Það var læknirinn minn að fyrra bragði sem kom mér í samband við Karitas og þessi þjónusta er víst bundin við krabbameinssjúklinga.

Gíslína Erlendsdóttir, 9.10.2007 kl. 00:12

4 Smámynd: Ragnheiður

Já hann er með krabbamein einmitt...bendi honum eða konu hans á þetta.

Ragnheiður , 9.10.2007 kl. 00:41

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já það er skrítið þetta með holdafarið. ef við erum grannar þá viljum við vera feitari og ef við erum feitar þá viljum við vera grennri. Ég er býsna glöð með bumbuna mína og varadekkin, ég er nefnilega svo heilsugóð. Það er alt sem skiptir máli og það ber að þakka. Ég skil vel að þú sért ósátt við ástandið. Ég sendi þér fullt af fitunar og heilunarenglum til að hjálpa þérGuð blessi þigFríða.

Gott að Karítas annst þig vel. Nú er svefndrunginn að verða allsráðandi og prentvillupúkinn líka.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.10.2007 kl. 01:13

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Munurinn á þér og anorexíusjúklingi er að þeir horfa í spegil og sjá fitubollu . Mikið er ánægjulegt að fá að heyra um eitthvað sem virkar í þessu kerfi og mér heyrist Karitas virka vel. Það er víða til gott fólk.

Annars þakka ég þér fyrir að vekja athygli á blogginu mínu, þitt er það mikið lesið að þetta er raunveruleg auglýsing. Ég er komin yfir feimnina  sem ég var haldin fyrst, sagði engum frá þessu nema ég laumaði einu sinni inn í athugasemd á hinni síðunni þinni. Nú er sjálfstraustið á fullu og mér finnst ég hafa það mikið að segja að ég vil bara að allir lesi þetta !

Kristjana Bjarnadóttir, 9.10.2007 kl. 07:23

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eins og þú líklega manst, Gillí mín, þá átti ég í mörg ár við þann vanda að etja að vera mjó.... og stundum hreinlega horuð.  Það er mjög merkilegt með fólk að því finnst, mörgu hverju, allt í lagi að segja "hrikalega ertu horuð" en því finnst ekki allt í lagi að segja "svakalega ertu feit".  Ég fékk einu sinni komment úti í búð... "Þú lítur út eins og Biafra barn" !    Á þessum árum borðaði ég á við karlmann en það skipti bara engu máli.  Það er vont að fá svona athugasemdir.

Ég hef tröllatrú á nálastungum, hef heyrt sögur af ótrúlegum árangri.

Anna Einarsdóttir, 9.10.2007 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband