Saklaust-Fullorðið-Ósanngjarnt

SAKLAUST   - elskar hann mig, elskar hann mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki......  FULLORÐIÐ - kaupa hús, ekki kaupa hús, kaupa hús, ekki kaupa hús..... ÓSANNGJARNT  - gefast upp, ekki gefast upp, gefast upp, ekki gefast upp..... 

Slæm verkjaköst brjóta andann niður í frumeindir, manni verður sama um allt, nenni þessu ekki lengur, ömurlegt líf.  Á góðum dögum er maður alheill, læknaður, skíturinn horfinn á haf út, nýt hverrar mínútu, lifi eðlilegu lífi. Gerði mér grein fyrir því í dag hversu slæma daga ég hef átt síðustu vikur. Ég losnaði nefnilega við 1,2 lítra af mysu úr brjóstholinu og einn líter af undanrennu úr kviðnum----samlíkingar í takt við útlit innihaldsins. Allt í einu gat ég andað eðlilega, dregið loftið á kaf í lungun og hlaupið upp og niður stigann án þess að hljóma eins og mæðuveik rolla. En eftir átökin fylgdu verkirnir þegar innyflin og kerfið fór að aðlagast breytingunum. Þá kom doktor Páll til skjalanna eins og frelsandi engill og sprautaði mig í rassinn með Toradol.

Hann fékk fyrstu æfingu í gærkvöldi þegar verkirnir gerðu sína hefðbundnu innrás og svei mér þá ef hann er ekki fæddur í hjúkrunarstarfið, ég fann ekki baun fyrir stungunni, það vantaði bara hvíta sloppinn og hlustunarpípuna Cool.

Ég fór í lungnasneiðmynd í dag en niðurstöður úr henni lágu ekki fyrir þegar ég losnaði af deildinni. Á tíma hjá Agnesi í næstu viku og fæ þá glænýjar blóðprufuniðurstöður.  Núna er bara að nota dagana áður en vökvasöfnunin fer aftur að líkjast Hálslóni.   

Ég hitti Þórdísi Tinnu í dag í fyrsta skipti, hún var í lyfjagjöf, við rétt náðum að heilsast og hún að segja mér góðar fréttir áður en mér var kippt upp í rúm. Hún lítur svo vel út, með slétt og fallegt andlit og ekki að sjá á henni neina uppgjöf, augljóst samt að hún var sárþjáð.

Fór í nálastungur í dag til Dagmarar Eiríksdóttur, það var alveg magnað, tvær nálar í vinstri fótinn til að berjast við bjúg og vökvasöfnun og fljótlega eftir stungurnar fann ég skrýtna tilfinningu í maganum sem færðist svo aðeins til á magasvæðinu, þessu fylgdi örstutt flökurtilfinning.  Svo bara svaf ég enda syfjudagur í dag.   

Kári hringdi af Vogi, hann er alsæll, meðferðin byrjaði strax í gær, hann sér mest eftir því að hafa ekki verið löngu farinn þangað. Þeir voru jákvæðir í hans garð sökum þess að hann vill svo innilega sjálfur leysa málið og er tilbúinn til að ganga alla leið til þess. Hann segir að þarna sé ekkert sjónvarp né útvarp, þeir mega ekki vera með neinar græjur, geislaspilara, ipod, gsm síma eða annað dót, það eina sem má er að lesa bækur. Það má koma með gjafir til hans en þá verður að skilja þær eftir í afgreiðslunni, ég ætla að hringja á morgun og spyrja hvað sleppur í gegn sem gjöf. Myndir eftir krakkana, blóm eða annað, betra að vera viss.  

Enduðum daginn í frábæru afmælismatarboði hjá Yngvari og Sigrúnu hér í Hæðargarðinum, Yngvar á afmæli í dag og við fengum mjög góða gúllassúpu, besta ost sem ég hef smakkað og nýtt speltbrauð frá Oddi bakara.  Við brottför leysti Sigrún mig út með boðsmiða á nýju íslensku heimildarmyndina Syndir feðranna sem frumsýnd verður á morgun.

Ætla núna í rúmið að lesa Secret bókina sem ég keypti í dag. Meira hvað bókabúðir eru „góðir" staðir, ég get alveg gleymt mér við að skoða allar bækurnar sem mig langar að lesa. Keypti líka íslenskan reyfara í afmælisgjöf fyrir Yngvar sem er norskur og í íslenskunámi í HÍ og fékk þá aðra með „frítt" og valdi mér bókina um Thorsarana og svo einn reyfara á ensku handa mér eftir sama höfund og skrifaði kvenspæjarastofusögurnar.  

Hvernig var þetta....ætlaði ég ekki að vera farin í rúmið... Sleeping


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvilik hetja sem þu ert.Mig skortir orð tarin bara streyma Guð gefi þer friðsæla nott .KVEÐJA Helga

Helga Valdimarsdottir (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 23:44

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Tek undir með Helgu

Það er ekki í þinni kokkabók að gefast upp, mín kæra. Hversu slæm líðanin hefur verið, þá skalt þú sjá einhverja jákvæða hlið! Ófboðslega ertu hörð af þér og stendur þig vel!

Frábært að heyra hvað Kára gengur vel, hann kippir í kynið stráknum, ekki satt? Palli greinilega "natural" því það er ekki sjálfgefið að menn sprauti vel.  Fáir jafn gagnrýnir á stungur og sprautur og ég enda arfa "fóbísk" gagnvart nálum.

Farðu vel með þig,mín kæra

Baráttukveðjur úr Engjaselinu 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.10.2007 kl. 00:39

3 identicon

Bið almáttugan Guð um að gera þig verkjalausa.  Þvílíkt og annað eins að vera töppuð af gumsi og það svona miklu!! Engin furða að þér létti. 

Bið engla og góða vætti að sitja yfir þér í nótt og lækna verkina.

hm (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 01:11

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Leyndarmálið er einhver besta bók sem ég hef lesið og nú er ég að þjálfa með mér að hugsa aðeins jákvæðar hugsanir. Það gerðist afskaplega gott í gærkvöldi og nú er að halda áfram. Ég var í Bowen námi um helgina og þetta tvent saman er stórkostlegt. Hefur þú prufað að fara í Bowen meðferð. Það er svo margt sem líkaminn getur gert sjálfur og við erum svo föst í gömlum hugsunum sem eru hamlandi. Bið Guð að senda þér heilun og orku.Fríða

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.10.2007 kl. 07:15

5 Smámynd: Ragnheiður

Gott að þetta náðist burt,mér líst vel á doktor Pál og ég get ekki lýst því hvað mér líst vel á hann Kára !

Hafðu það sem allra best...

Ragnheiður , 18.10.2007 kl. 08:06

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp, ekki gefast upp.

Þessi pistill er alveg magnaður Gillí.  Mig dreymdi þig í nótt.... ekki táknrænan draum, heldur dreymdi mig þig, vegna þess að bloggið þitt var það síðasta sem ég las áður en ég fór að sofa.  Við vorum saman í útlöndum. 

Anna Einarsdóttir, 18.10.2007 kl. 08:27

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Snilldarpistill. Doktor Páll bara flinkur, enda vanur fínvinnu við vírana! Kannski bara góður bakgrunnur.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.10.2007 kl. 08:32

8 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Hólmfríður, ég hef ekki prófað Bowen tækni en er núna í fjarmeðferð hjá konu á Akureyri sem er að læra eitthvað nýtt í Ameríku og við ætlum að gera einhverjar tilraunir með mig.  Mér sýnist það líkjast Bowen án þess ég hafi vit á því. Ég sá secret myndina í vor og á hljóðdiskana á ipodinum´mínum, hlusta alltof sjaldan á þá.

Gíslína Erlendsdóttir, 18.10.2007 kl. 10:47

9 identicon

Sæl

Vildi bara senda þér baráttukveðjur ég er stolt af þér og Kára þínum, er alveg viss um að myndir eftir krakkanna myndi gleðja hann  

kveðja Elísabet Stefánsdóttir

Elísabet Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband