Sjúklingamisrétti

 

Hér er allt með kyrrum kjörum. Átti erfiðan dag í gær, vaknaði um miðja nótt með slæma verki sem verkjalyfin náðu ekki að drepa að fullu. Þetta þýddi að ég var ekki komin í gang fyrr en tvö um daginn og náði að fara í stuttan göngutúr til Egils og Rögnu en þar var allur vinahópurinn saman kominn til að hjálpa þeim að mála húsið að utan. Sannkallaður kærleikur þar á ferð.

Palli kom heim úr veiðitúrnum með 5 fiska og er núna að þvælast  um Danmörku. Dagurinn í dag er búinn að vera fínn, ég er að passa Eydísi og Gabríel því það er starfsdagur í skólanum. Fékk heimsókn frá Karítas sem ætla greinilega að hugsa vel um mig. Þægilegt að geta rætt ástandið við þær og fengið ráð, þær sjá líka um að panta lyf og ákveða skammtastærðir, þær eru líka búnar að panta heimilishjálp fyrir mig frá TR og skilaboðin frá þeim eru að ég eigi ekki að gera neitt annað en að njóta lífsins og taka góðan tíma í að hvíla mig og forðast of mikið álag. Mér líður bara eins og prinsessunni á bauninni.  

Annars sá ég smá klausu í blaðinu í dag frá nýjum formanni læknafélags Íslands sem leggur til að Alþingi skipi umboðsmann sjúklinga til að aðstoða veikt fólk við að ná fram rétti sínum í frumskógi tryggingakerfisins sem hún segir að sé óskiljanlegt fyrir fullfríska hvað þá fyrir sjúka.  Í framhaldi af þessu datt mér í hug hvort þessar endalausu tekjutengingar og þá sérstaklega við maka geti flokkast sem mannréttindabrot. Þú hlýtur að vera sjálfstæður einstaklingur hvort sem þú ert frískur eða veikur og því undarlegt að taka þann rétt af fólki ef það verður óvinnufært og færa alla þeirra framfærslu yfir á makann, þ.e.a.s. ef hann er fyrir hendi.  Mér finnst þetta jafn órökrétt og kynjamisrétti. Það eru til lög og reglur um kynjamisrétti en engin lög um mismunun heilbrigðra og sjúkra. Spurning hvernig þessu er háttað í nágrannalöndunum?  Einnig spurning hvort hægt væri að fara með svona mál fyrir mannréttindadómstólinn?!!   Eina vitið væri að þegar sjúkrasjóður verkalýðsfélaganna er fullnýttur tæki ríkið við á sömu forsendum launalega séð.  Ef fólk getur svo farið út að vinna hluta úr degi myndu þær tekjur dragast frá bótunum sem tryggir fólki alltaf þau laun sem það hafði fram að örorkumati og virkar þá  jafnframt sem hvatning til vinnu.

Á morgun er svo heimsókn til læknisins, aftöppun og lyfjagjöf.  Langar svo að fara til Rómar 12. okt. en það verður að ráðast af stöðu blóðtappans og því hvort það verði ennþá laust pláss í flugvélinni. Kemst ekki nema með leyfi læknisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú myndir sóma þér vel sem umboðsmaður sjúklinga.... ég sting upp á þér !

Anna Einarsdóttir, 1.10.2007 kl. 18:05

2 Smámynd: Ragnheiður

Já ég tek undir það. Það þarf að setja einhvern með viti í þetta mál. Auðvitað er út í hött að vera með þessa tekjutengingu.

Ragnheiður , 1.10.2007 kl. 20:35

3 identicon

Það er verið að vinna að endurbótum á þessu gatslitna kerfi. Annarsvegar er verið að endurskoða bótafrumskóginn hjá Tryggingastofnun og ég veit ekki nægilega mikið um þá vinnu til að geta sagt neitt bitastætt um hana. Það kemur væntanlega fram frumvarp um málið í heild á næstu mánuðum. Varðandi tekjutengingar þá er ég að vona að á því tekið sem allra allra fyrst. Þar sem ég er að vinna hjá verkalýðsfélagi, þá er vinna í gangi við tillögur að gagngerum breytingum að veikindarétti og greiðslum til fólks sem verður óvinnufært. Í stuttu máli eru tillögurnar þannig að veikindaréttur verði 2 mánuðir eftir 2 ár á vinnumarkaði. Þau réttindi flytjist milli vinnustaða svo fólk þurfi ekki að vinna sér inn veikindarétt aftur og aftur. Þegar veikindarétti líkur leitar fólk til síns stéttarfélags og fer þar beint á bætur hjá sjóði sem hefur fengið nafnið Áfallatryggingasjóður. Endurhæfing hefst á sama tíma og er hún greidd af sjóðnum. Endurhæfing verður sniðin að þörfum hvers og eins og þar er verið að tala líkamlega, andlega og félagslega uppbyggingu. Nám og starfsþjálfun verður líka í boði. Fólk á að fá bætur úr þessum sjóði í tiltekinn tíma og ef viðkomandi er enn óvinnufær að þeim tíma liðnum, taka örorkubætur við.

Þetta er mjög lausleg lýsing á þeim hugmyndum sem verið er að móta. Það eru Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sem settu þessa vinnu í gang, en fleiri aðilar, svo sem Lífeyrissjóðir o fl eru með í ráðum. Kerfið eins og það er í dag er handónýtt og brot á rétti einstaklinga.

Vona svo sannarlega að þú komist til Rómar og að þú hafir það sem allra best. Guð blessi þigFríða

Fríða (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 21:23

4 identicon

Smá viðbót við síðustu færslu. Það er stefnt að því að tengja stofnun Áfallatryggingarsjóðs við næstu kjarasamninga, þannig að um þetta verði samið milli aðlila vinnumarkaðarinns eins og var/er gert með Lífeyrissjóðina. Þessi vina er í fullum gangi, en ekki útséð með niðurstöðuna.  Mér líst vel á þessa hugmynd, en það eru ennþá margir lausir endar Kveðja Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband