20.10.2007 | 17:05
Bútar úr daglegu lífi
Vil byrja á því að biðja ykkur um að fara inn á eftirfarandi slóð http://asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/ finna þar í næst nýjasta bloggi UNDIRSKRIFTALISTA og skrá ykkur á hann. Ásdís ætlar að safna 1000 undirskriftum fjöryrkja" eins og hún segir sjálf, fyrir sunnudaginn og senda hann til yfirvalda í þessu landi. Ég vissi því miður ekki af þessum lista fyrr en í gær en ég vona að ég geti skilað henni nokkrum undirskriftum. Eins og við höfum áður rætt eru þetta brýn málefni og nauðsynlegt að halda þeim vakandi með þrýstingi á stjórnvöld.
Dagurinn í gær var minn besti í margar vikur, næstum verkjalaus og fær í flestan sjó....eða þannig. Kári hringdi klukkan 9 um morguninn og það er eins og í hvert skipti sem hann hringir fái ég aukna orku. Hann er ennþá jafn ánægður þarna og hann hringdi svo aftur í gærkvöldi og bað mig að senda sér hreinar náttbuxur, boli og slopp. Ég reddaði þessu í dag, fór með til hans ný föt og hitti þá óvænt Gunna vin minn nuddara sem er að vinna þarna. Ég hef ekki séð Gunna í nokkur ár núna en var mjög glöð að heyra að hann vinnur þarna því þar veit ég að Kári á góðan að.
Náði að rúnta aðeins um bæinn, sækja lyf og kaupa mér lampa í Tekk húsinu. Þegar Palli kom heim þustum við í verslunarferð í Hagkaup í Kringlunni því við vorum búin að bjóða bræðrum mínum og mágkonum, frænda mínum og konunni hans í mat. Maturinn var óhefðbundinn, borðið var drekkhlaðið af ýmiskonar kræsingum sem við höfum sankað að okkur á ferðalögum okkar um Evrópu síðan í mars. Spænsk skinka, fullt af allskonar fuglapaté, ekta frönsk foie gra, ýmiskonar ostar, brauð, kex, sultur og ávextir. Svo var smávegis af ofnsteiktum kjúkling í kókos- og engifer sósu. Við byrjuðum á foie gra með brauði og rifsberjasultu og smá klettasalati og með þessu opnuðum við ....alvöru kampavínsflösku...sem kjallarabúarnir færðu okkur þegar þau komu heim frá útlöndum með börnin sín þrjú. Þetta var heilög stund og við máttum ekki byrja á þessu fyrr en Palli hafði útskýrt hversu fáránlega dýr matur þetta væri, pínulítill biti í Hagkaup kostaði 2700 krónur. Veit ekki hvort bragðið batnaði við þessar upplýsingar en gott var þetta.....nammi.
Svo var spjallað og allir farnir heim fyrir miðnætti. En eins og við var að búast var Adam ekki lengi í Paradís því í dag er ég búin að vera mjög illa haldin af rosalegum bjúg á fótunum, sérstaklega hægri fæti fyrir neðan ökkla. Ég á því ekki auðvelt með að ganga mikið svo ég komst ekki í Kolaportið og rétt náði að fara í Kringluna að versla fyrir Kára. Ég ætlaði að biðja pabba hans að gera þetta en þau eru í Búdapest og Ásgeir í Madríd svo ég fór bara sjálf. Eftir skutlið á Vog heimsótti ég Þóru og stelpurnar og þær voru allar mjög hressar. Dásamlegar dúllur þessar stelpuskjátur.
Karítas konur hringdu í gærkvöldi og buðu mér innlögn á líknardeildina í dag. Ég var ekki til í það enda eins og ég sagði henni þá væri þetta búinn að vera besti dagurinn minn í margar vikur, ég mátti ekkert vera að því að fara núna. Umsókninni minni verður því haldið opinni. Ég hef trú á að ég fari inn fljótlega og prófi að búa þarna í eina til tvær vikur. Ég er smátt og smátt að átta mig á því að ég er eiginlega meira og minna ónýt. Ég get varla risið upp af sjálfsdáðum ef ég beygi mig og þessi vökvasöfnun og bjúgur er hreyfihamlandi og veldur verkjum. Það hefur skipt sköpum að geta fengið sprauturnar hjá Páli þegar á þarf að halda og þurfa ekki að bíða eftir hjálp eða bögglast niður á bráðamóttöku. Ég hef verið næstum verkjalaus í dag eða síðan ég fékk sprautu klukkan 9 í morgun.
Á mánudaginn kemur kona að þrífa hjá mér, ég á von á að þetta verði undarleg upplifun, að hafa ókunna konu hér að skúra og skipta á rúmum, veit ekki hvort ég á að fara að heiman eða skríða út í horn og láta fara lítið fyrir mér. Hún getur verið til hálf fimm ef á þarf að halda en ég vona að það sé ekki svo skítugt hérna að hún þurfi næstum 4 tíma til að skúra, skrúbba og bóna.
Og eins og venjulega er þetta orðið alltof langt svo ég hætti hér.
Vona að þið munið eftir að skrifa undir hjá Ásdísi.
Athugasemdir
Þú ert alltaf jafn dugleg,matarboð og búðarferð en það er aldeilis kraftur í þér,það gleður mig að þér sé búið að líða vel og vonandi verður framhald þar á og gott að það komi kona til að þrífa hjá þér en ekki að ég haldi að það sé skítugt hjá þér en þú átt að nota kraftana í annað en þrif og með undirskriftarlistann að þá er ég búin að skrifa undir,knús til þín
Katrín Ósk Adamsdóttir, 20.10.2007 kl. 17:37
Gott að heyra að það koma góðir dagar. Það er svo margt lífinu sem er alltaf að koma og fara: dagarnir, nóttin, sumarið, veturinn, kaupið manns, matarlystin, hamingjan, góða skapið, vinnugleðin, vinirnir og fleira og fleira. Svo er bara að reyna að lifa á því góða og komast einhvernveginn í gegn um þetta slæma.
Þorsteinn Sverrisson, 20.10.2007 kl. 18:03
Gillí mín. Ræddu við lækninn um bjúginn.... það hljóta að vera til úrræði. Megagott að þér hefur liðið vel. Það er ekki að spyrja að því... þú ert duglegri en allir, þrátt fyrir að þú sért "meira og minna ónýt". Þú ert frábærust.
Anna Einarsdóttir, 20.10.2007 kl. 18:31
Þórdís tinna, 20.10.2007 kl. 18:39
Búin að kvitta.
Ætli þér sé ekki óhætt að skrifa eitthvað af bjúg dagsins á rétti gærdagsins.
En þetta hafa óneitanlega verið sérlega sætar syndir - Gott hjá Páli að halda hugvekju fyrir matinn! Svona kræsingar kalla á seremóníur - annars á maður þær ekki skilið.
En fullfrískt fólk með ISO-staðals pípulagnir tútnar út af pylsum, kæfum og þvíumlíku.
Ég verð eins og hamstur á anabólískum sterum í a.m.k. sólarhring ef ég legg mér svona fínerí til munns.
Hugsa hlýlega til ykkar.
Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 19:21
Takk Anna mín, ég er á allskonar þvagræsilyfjum og sterum og ég veit ekki hvað en dugar skammt. Ég á tíma hjá Agnesi á þriðjudaginn og ætla þá að heimta læknisskoðun. En góður punktur hjá þér Linda María, kannski má skrifa þetta á matinn.....ég borðaði samt ekki mikið.
Gíslína Erlendsdóttir, 20.10.2007 kl. 19:41
Yndislegt að lesa um svona góðan dag. Þú ert yndislegust þrátt fyrir umrætt ónýti. Ég er búin að safna saman undirskriftum á listann hennar Ásdísar.
Hafðu það sem allra allra best
Ragnheiður , 20.10.2007 kl. 23:37
Byrjaði á að skrifa undir hjá Ásdísi. Gott að heyra að þú varst verkjalaus í gær og svo finnst mér alveg frábært að skulir ekki meiga var að því að fara inn á Líknardeildina. Og þá meina ég frábært í alvöru, þú ert semsagt alveg sprelllifandi, þó þú segist vera ónýt. En hvað með það, þér líður vel og það er frábært. Bið Guð að blessa þig og senda þér bata. Fríða
Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.10.2007 kl. 02:22
Sunnudagur til sælu fyrir þig
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.10.2007 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.