Sprautað í appelsínuhúð

Heimsókn til Agnesar skilaði svo sem ekki neinu sem við vissum ekki fyrir. Krabbameinið er út um allt og hefur breiðst hratt út síðasta mánuðinn, komið á lokastig. Meðferð verður í formi beinþéttnisprauta einu sinni í mánuði og svo verður fylgst með lungum og blóði.....og  svo auðvitað aftöppun einu sinni í viku eða eins og þarf. Ég get fengið hvíldarinnlögn á líknardeildina þegar ég vil en hún benti mér á að vera dugleg að nota Karítas til að hjálpa með lyfjagjöf og umönnun. Ég fékk nýtt lyf heim í gær sem er í sprautuformi og þarf að gefa í vöðva, ætli Palli verði ekki settur í málið og fær þá að æfa sig með því að stinga appelsínur eins og pabbi hennar Rögnu forðum daga þegar mamma hennar var veik. Anna frænka kom í heimsókn áðan og bætti því við að þá væri ekki verra ef konan væri með appelsínuhúð.....Wink

Það var ekki tappað af mér í dag, fór í ómun sem sýndi að vökvapollarnir voru það litlir að hætta væri á að stinga í líffæri svo ég fór beint í handsnyrtingu og svo í Kringluna. Komst í eina búð, mátaði einhver föt, var í svitabaði og með verki, gafst upp, keypti ekkert og fór heim og lagði mig.

Klukkan fimm hitti ég svo stelpurnar á auglýsingastofunni á Tapasbarnum og við fengum æðislegan mat og það var frábært að hitta þær og gefa sér tíma til að spjalla.  Síðan heim og upp í sófa með dauðans verk í mittinu sem gaf sig ekki fyrr en ég prófaði nýtt lyf sem ég fékk líka í gær og er morfínmixtúra. Það virðist gera gagn því annars væri ég ekki í þessum skrifuðu orðum að skrifa þau.

Eins og ég sagði áðan kom Anna frænka í heimsókn áðan með nýja kærastan, veit ekki hvort ég má segja hver það er svo ég sleppi því bara, hún kynntist honum allavega í gegnum bloggið og er ægilega ánægð með hann. Okkur Palla líst mjög vel á manninn sem er bæði myndarlegur og viðræðugóður.

Verð svo bara að segja að nýi borgarstjórinn er líka miklu sætari en sá gamli. Gef ekki meira út um það mál að sinni enda verðum við bara að sjá til hvernig málin þróast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Stórt knús til þín

Katrín Ósk Adamsdóttir, 11.10.2007 kl. 23:11

2 Smámynd: Ragnheiður

Elsku Gillí yndislega, að lesa þessar æðrulausu færslur þínar er magnað, alveg magnað.

Ég setti ljós fyrir þig á kertasíðuna þína. Þú ert kjarkmikil og hugrökk, það eru forréttindi að fá að valsa hér um og lesa.

Góða nótt og vonandi verður nóttin þér bærileg

Ragnheiður , 11.10.2007 kl. 23:23

3 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Sendi blessanir mínar til sérhverrar frumu, mólikúla og atóma þinn. Andaðu þeim inn og haltu svo áfram að anda og anda, - breyta orkunni - flytja hana, skipta um orku.

Vilborg Eggertsdóttir, 11.10.2007 kl. 23:30

4 Smámynd: Fjóla Æ.

Mikið er æðruleysi þitt. Þú ert manneskja sem vert er að taka til fyrirmyndar og fólk er ríkara af því að þekkja þig.

Í sambandi við heimilishjálpina. Ég á tæplega 3 ára dreng sem er alvarlega veikur og á í raun að vera á sjúkrahúsi en er engu síður heima hjá fjölskyldu sinni. Þegar við ákváðum að hafa drenginn okkar heima þá var farið í að búa til stuðningsnet fyrir okkur. Það tókst misjafnlega en eitt tókst mjög vel en það var þannig að við erum að fá heimilishjálp í 13 klukkustundir á viku. Þetta er kannski svona mikið því við eigum 4 önnur börn en ég verð að segja að þetta er algjörlega að bjarga mér og ég er fullfrísk manneskja því finnst mér það heldur lítið að þú sért bara að fá manneskju til þín tvisvar í mánuði. 

Fjóla Æ., 13.10.2007 kl. 21:23

5 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Ég vona að þér líði vel

Katrín Ósk Adamsdóttir, 14.10.2007 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband