Bein plús grind samasem ég

Ekkert nýtt af mér annað en ég er horfin.....allt nema beinin. Ég hef aldrei á ævi minni verið svona horuð, alltaf grönn en aldrei horuð, fólk horfir á mig út í búð og telur mig eflaust vera anorexíusjúkling. Fór í bað áðan og er að hugsa um að henda speglinum út í rusl. Ég leit út eins og gyðingur í útrýmingarbúðum nazista. Samt borða ég eins og hestur og meira að segja fullt af fitandi mat.....fitandi fyrir venjulegt fólk en hefur greinilega engin áhrif á mig. Eigum alltaf eftir að nýta okkur gjafabréf í Laugar og ég get ekki pantað nudd fyrir mig, það nuddar enginn beinagrindur. Sorglegt og erfitt að sjá sig visna upp.

 

Annars bara góður dagur, gott veður og ég fór út í göngutúr og þreif blóðbaðið úr Daewoo eftir handameiðslin hans Kára. Hann fékk minn bíl því hann er sjálfskiptur. Síðan kom hjúkrunarkonan frá Karítas í heimsókn, gott að fá þær og ræða málin, svo redda þær öllu bara ...hviss-bang...lyfin komin heim að dyrum og búnar að hringja í lækninn og redda hinu og þessu. Á von á að heyra frá Agnesi á morgun, vegna rannsókna og beiðni um að fá stöðuna uppfærða. Hjúkrunarkonan mælti með að ég færi í nálastungur til að minnka bjúg og vökvasöfnun og helst líka oftar í slökun. Tinna María er í útlöndum svo ég fer kannski bara til Lilju á LS sem er virkilega góð hugleiðslukona.

Haukur hans Palla kom í smá heimsókn með kærustuna hana Ölbu sem er hálf spænsk, lítil, brún og sæt stúlka sem stefnir á arkitektanám. Voða sæt saman. Svo kom Tóti í smá innlit.

Á laugardaginn ætla Egill og Ragna að halda upp á doktors- og mastersprófs áfangana sína og bjóða vinum og vandamönnum til teitis. Það verður gaman að hitta allt liðið og spjalla og borða eitthvað gott sem þau ná að galdra fram ef ég þekki þau rétt.

Þjóðmálin verða að bíða en til að fá útrás og lesa það sem ég hefði sennilega sjálf sagt um þau er gott að skoða síðuna hennar Kristjönu frænku minnar   http://bubot.blog.is/blog/bubot/   sjá líka hér til hliðar.  Í flestum tilfellum er ég sammála henni og skil vel æsinginn og eldmóðinn því þannig var ég líka, meðan ég hafði orku til. Við erum nokkuð mikið skyldar því mömmur okkar eru systkinabörn í báðar ættir sem skýrir kannski þennan andlega skyldleika sem ég finn fyrir þegar ég les bloggið hennar.

Gott í bili - er farin að sofa.....þótt fyrr hefði verið  .....góða nótt Sleeping.


Hausthelgi

Helgin er búin að vera löng og ströng svo ég tipla aðeins á því helsta. Hef ekki komist í takkaborðsæfingar fyrr en núna.

Föstudagurinn var frábær. Hitti vinkonu mína í hádeginu og fór svo í heimsókn á Íslensku, mér dvaldist þar í nokkurn tíma enda mikið hægt að spjalla við gamla vinnufélaga. Kom ekki heim fyrr en um fimmleytið en við Páll áttum pantað borð klukkan sjö. 

Humarhúsið stóð virkilega undir nafni, maturinn var fullkominn, ég hef ekki borðað svona mikið í marga mánuði. Við byrjuðum á forrétt, ég fékk mér hreindýra tataki sem voru hreindýrasneiðar með furuhnetum og wasabi sósu, Palli fékk sér reyktan ál fylltan með humri. Báðir forréttirnir voru rosalega góðir.  Svo fengum við lystauka sem var grafið lamb, alveg rosalega glott. Í aðalrétt var svo grillaður íslenskur humar með hvítlaukssmjöri.  Humarinn bráðnaði upp í mér og það sem betra var, hann var ekki í skelinni, þoli ekki að þurfa að plokka þetta úr sjálf. Ég kláraði næstum allan skammtinn minn, held að Palli hafi ættleitt tvö stykki.  Í eftirrétt fékk ég mér Créme Brulé með blóðbergskeim og krækiberjasorbet. Þetta er besti eftirréttur sem ég hef á ævi minni smakkað og svo góður að Páll datt nærri ofan í diskinn minn af ánægju. Hann fékk sér auðvitað kaffi og koníak og missti því að mestu af þessum dýrindisrétti fyrir utan það sem ég tímdi að lauma upp í hann annað slagið.  Eftir þessa veislu var ég orðin svo södd að ég gat varla gengið. Hugmyndin hafði verið að fara í bíó klukkan tíu á kvikmyndahátíð en Palli tók af mér ráðin og ákvað að fara með mig heim, enda konan bæði orðin þreytt og dagurinn búinn að vera langur.  Hef hann samt grunaðan um að hafa þarna notað heilsufar mitt til að sleppa við menningarlegt augnakonfekt án engilssaxnesku.

Laugardagsmorguninn var slæmur, verkir miklir og lítil hjálp í pillunum svo ég komst ekki á fætur fyrr en klukkan tvö.  Siggi og Hildur vinafólk okkar að norðan kom í heimsókn og mikið var gaman að sjá þau. Um kvöldið stefndi í stórfjölskyldumat en svo fór að týnast úr hópnum svo við enduðum með að kjamsa á læri með Hauki Páls, Sigrúnu Stefáns og Yngvari hinum norska manni hennar. Mjög góð stund. Sigrún Hermanns og Hinrik ráku inn nefið og svo fór ég bara snemma í bælið.

Leikurinn endurtók sig á sunnudaginn, verkir fram yfir hádegi en þegar þeir loksins gáfu eftir fór ég í göngutúr til Egils og Rögnu að skoða Glasgow góssið. Ragna og Lísa fóru í skipulagða innkaupaferð til Skotlands og Agli taldist til að afraksturinn hafi verið um 100 kíló af fötum, skóm, töskum, hönskum og skartgripum.  Ég er mjög stolt af stelpunum, ekki oft sem konur bara koma hreint fram í þessum efnum og láta auk þess verða af því að fara í alvöru verslunarferð.  Ég hefði sko komið með ef ég hefði verið hress og spræk.  Rölti svo heim aftur og fékk Ásgeir og Rakel í heimsókn og svo Baldur og Guðrúnu með Kristný Elnu. Stebbi Valda kíkti líka í heimsókn. Palli sótti svo Berta og Gústu út á völl og þau fengu sér snarl áður en þau héldu norður. Ég var hins vegar kölluð upp á slysó í gærkvöldi en Kári hafði stórskorið á sér hendina og bað um að mamma hans kæmi til andlegrar aðstoðar. Hann var lagður inn í nótt en er kominn heim og verður frá vinnu næstu viku. 

Vaknaði miklu betri í morgun og vonast til að ég geti fengið hjúkrunarkonurnar til að panta tíma í aftöppun fyrir mig á morgun eða miðvikudaginn, er að byrja að þenjast út aftur.  Mér líður að öðru leyti ótrúlega vel og er ekkert að fara að hrökkva upp af, sérstaklega ekki í svona góðu veðri. Held að gangan í gær hafi gert mér gott svo ég fer í aðra núna eftir hádegið og anda að mér frísku, litfögru haustlofti.

 


Koddinn góði

Koddinn góði


Bloggað síðan 2004

Ég fór að grafa það upp hversu langt er síðan ég byrjaði að blogga. Eftir nokkra leit  fann ég elsta bloggið en það er síðan 17. apríl 2004. Tilkoma þessara bloggskrifa voru þau að Egill bróðir minn, Ragna konan hans og dóttir þeirra Eydís fluttu til Aberdeen í Skotlandi til að stunda framhaldsnám. Við komumst fljótlega að því að þessi tegund af fréttaflutningi hentaði ákaflega vel til að við gætum fylgst með hvert öðru án þess að eitthvert símafyrirtæki....teldi ofan í okkur krónurnar.... Skypið var eitthvað notað en þá þurfti að setjast við á sama tíma svo bloggið varð að okkar aðalsamskiptamáta.

Eftir að ég veiktist kom  fljótlega í ljós að til að létta álagi af  Páli og öðrum fjölskyldumeðlimum sem stóðu í fréttaflutningi af heilsufari mínu var þægilegast að setja bara nokkur orð á bloggið á hverjum degi þar sem allir gátu fylgst með framgangi mála. Síðan hafa efnishlutföll bloggskrifanna breyst hægt og hljótt úr almennum umræðum og skemmtisögum yfir í heilsutengdar fréttir og gagnrýni á íslenskt velferðarkerfi.

Fyrir þann sem stendur frammi fyrir hugsanlegum ótímabærum dauðdaga er það eðlilegur hluti af undirbúningi brottfarar að velta fyrir sér jarðarförum. Langt er síðan ég gaf það út að mig ætti að brenna en ekki bora ofan í holu og moka yfir. Í Kastljósi nú í vikunni var farið í heimsókn í líkbrennsluna í Fossvogi og það ferli kynnt sem lítur að líkbrennslum. Mér fannst þetta ákaflega áhugavert og hafði fyrir ekki löngu síðan ákveðið að fara á stúfana að skoða þessi mál betur. Að mínu mati er þetta fyrirkomulag mjög hentugt og rökrétt út frá rýmislegu sjónarmiði. Eðiliegt er að minnka ummál þess sem ekki kemur til með að krefjast rúms né lofts eftir lokadag. Fyrst er kistan brennd, síðan er er leyfunum safnað saman, allt járn úr kistunni sigtað frá og restin brennd aftur.  Að lokum er duftinu komið fyrir í krukku. Það kom á óvart að einungis 20% jarðarfara á Íslandi eru bálfarir en hlutfallið hefur samt aukist jafnt og þétt á síðustu árum.

Að vísu svaraði þátturinn ekki öllum mínum spurningum eins og hvort bæði þurfi að kaupa kistu og krukku og hvar krukkukirkjugarðurinn er og hvernig hann er skipulagður.  Eins á ég eftir að leita upplýsinga um hvort dreifa megi öskunni út í náttúruna eða hvort hún verður alltaf að vera pökkuð inn í umbúðapappír ofan í áðurnefndri krukku.

Svo má víst ekki gleyma því að það er dýrt að deyja og og eins gott að eiga fyrir útförinni þegar þar að kemur.

En núna að skemmtiefninu.....ég er að fara á Humarhúsið með Palla til að borða humar í aðalrétt....hún Þórdís Tinna er alltaf að tala um humar á síðunni sinni og ég fæ vatn í munninn í hvert skipti og uppgötvaði þar að auki að ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma keypt mér humar í aðalrétt á veitingahúsi....af því hann er alltaf svo dýr...en núna ætla ég að láta verða af því.  Dagurinn búinn að vera fínn, ég bara næstum því í sparibúning og hress eftir því.

Góða helgi elskurnar og fáið ykkur eitthvað gott að borða um helgina.


Anna frænka og þið öll...

Í dag langar mig að þakka Önnu frænku fyrir allan stuðninginn sem hún hefur veitt mér alveg frá upphafi veikindanna. Hún vílaði ekki fyrir sér að hringja í Rúnar Marvinsson hinn fræga fiskikokk án þess að þekkja hann neitt og biðja hann um að búa til næringasúpu fyrir mig svo ég gæti bæði fengið orku og komið niður lúpínuseyðinu sem ég drakk á þeim tíma. Hún hringdi í prest og bað hann um fyrirbænir og hún hefur eftir að hún byrjaði að blogga búið til stórt og mikið stuðningsnet í gegnum bloggheima. Takk Anna mín fyrir allt. Slóðin á síðuna hennar er hér til hliðar. 

Þessi þakkarorð eiga auðvitað líka við ykkur öll sem standið við bakið á mér með því að senda mér kveðjur, gjafir, styrkja mig fjárhagslega og klappa mér á bakið í tíma og ótíma. Stuðningurinn frá ykkur í bloggheimum, fjölskyldunni, vinunum og kunningjum er eitthvað sem hefur oft á tíðum náð að rífa mig upp úr þunglyndinu. Ég veit ekki hvernig ég fæ ykkur fullþakkað en vona bara að ég fái tíma til að borga fyrir mig með einhverjum hætti þótt síðar verði.

Ég ætla núna að koma að tveimur afmæliskveðjum, sú fyrsta er til Geirlaugar vinkonu sem átti afmæli á mánudaginn....Til hamingju elsku vinkona....og fyrirgefðu hvað þetta kemur seint, hef verið að mestu óvirk síðustu daga.  Svo á hún Iðunn náttúruskvísa og systurdóttir mín afmæli í dag, hún verður hvorki meira né minna 19 ára stelpan. Hún bloggar líka alveg óborganlega fyndin blogg því hennar sýn á lífið er stundum alveg mögnuð, slóðin hennar er hér við hliðina. Til hamingju með afmælið kæra frænka.

Ég er hressari í dag og á von á Gunnu vinkonu í heimsókn í hádeginu. Ég ætla svo að reyna að komast eitthvað út úr húsi og í nokkrar búðir sem selja batterí og skartgripi. Ég á nefnilega forláta nælu sem mér var gefin í þrítugsafmælisgjöf frá þáverandi kærasta. Nælan er víst hin mesta völundarsmíð úr íbenholt og gulli og hefur einu sinni verið fengin að láni á skartgripasýningu.  Þessa nælu er ég að hugsa um að fara með til gullsmiðsins sem bjó hana til og biðja hann um að kaupa hana af mér eða selja hana fyrir mig. Ég hef aldrei verið mikil nælukona og sé ekki ástæðu til að koma þessu á einhvern fjölskyldumeðlim. Mér skildist á sínum tíma að þessi gripur væri verðmætur og því finnst mér réttast að reyna að ná út úr honum pening sem ég get þá síðan gefið strákunum mínum. Hugsa að þeir yrðu hrifnari af aurnunum en gripnum enda illa skiptanlegur.


Kærleiksgjöf

 

Ég fékk yndislega heimsókn í dag þegar öll barnabörnin ásamt mæðrum þeirra komu til mín og gáfu mér fallegan hvítan kodda með tveimur áþrykktum myndum af þeim saman, bæninni... Vertu nú yfir og allt um kring.....og þessum skilaboðum......Elsku amma okkar, við elskum þig, Gabríel Máni, Hera Sif og Freyja Rán.  Núna get ég alltaf haft þau nálægt mér. Takk elsku bestu börnin mín.

Að örðru leyti hefur dagurinn liðið í einhvers konar móki. Hef verið svo syfjuð og þreytt að ég hef ekki getað lesið eða horft á sjónvarpið. Hef enga verki og held að ég sé í afvötnun eftir lyfjarússið á spítalanum í gær. Gabríel kom hér upp úr tvö og við „horfðum" saman á sjónvarpið.  Klukkan tvö kom kona frá Tryggingastofnun til að meta hvort ég eigi rétt á heimilishjálp.  Reglurnar eru þannig að ef maður á maka þá þarf að taka beiðnina sérstaklega fyrir á fundi. Það er ætlast til þess að makinn taki að fullu leyti að sér heimilisstörfin.  Það er ekki nóg með að makinn þarf að taka á sig aukna fjárhagsbyrði vegna veikindanna og andlegt álag sem fylgir því að sjá ástvin missa heilsuna heldur á hann líka að sjá um heimilishaldið. Ofurmannlegar verur eru ekki til en TR ætlast greinilega til þess að MAKARNIR skelli sér í Súpermann búninginn og reddi öllu á augabragði.

Ég sagði við konuna að mér fyndist í svona tilfellum að sá tími sem hjón geta eytt saman ætti að fara í eitthvað annað en að þrífa og þvo þvott. Hún var alveg sammála mér og sagðist ætla að mæla með að ég fengi aðstoð í 6 mánuði. Ég sagði að það væri bara gott mál, ég mætti þakka fyrir ef ég lifði svo lengi. Svo þarf ég að bíða fram í næstu viku eftir úrskurði.

Ég vona að ég verði orðin hress á morgun og geti farið að stytta aðgerðarlistann. Verð að hætta núna því ég er að SOFNA.


Endalausar spítalaferðir

Ætli ég fari til Rómar á næstunni. Ég gafst upp á þenslu og vökvasöfnun í gærkvöldi klukkan 11 og hringdi í Ásgeir sem keyrði mig á bráðamóttökuna. Skrítið hvað þetta gerist hratt, á nokkrum klukkutímum blæs ég út með viðeigandi sársauka. Ég var á bráðamóttökunni í nótt og í morgun var tappað af mér tveimur lítrum af vökva. Síðan fór ég í beinþéttnisprautuna og var að koma heim. Ásgeir náði í mig. Hann er núna að ryksuga með tilþrifum. Hann setti Cat Stevens á fóninn.....stillti mjög hátt og syngur ástöfum meðan hann ryksugar. Óborganlega eðlilegur.

Vonandi slepp ég við hitavelluna sem ég fékk eftir síðustu sprautu. Agnes sagði að núna væru öll ráð úti og ég myndi hætta á krabbameinslyfjunum. Blóðið var í lagi, lifrarprófin svipuð og síðast en æxlisvísirinn heldur hærri, fékk ekki gildin hjá henni. Ætli við höldum ekki fjölskyldufund með mér, Palla og strákunum fljótlega. Það er gott að allir viti hvernig staðan er, hún sagðist ekki geta gefið út hversu langt ég ætti eftir, það væri mjög einstaklingsbundið hversu fólk héldi svona veikindi lengi út en smám saman mun krafturinn minnka og að lokum lognast maður bara útaf.  Ég hef nú hug á að hanga uppi lengur en skemur og nýta tímann í eitthvað skemmtilegt. Agnes mælti líka með því að ég notaði tímann vel.

Ætli ég fari ekki í rúmið núna enda uppdópuð eftir spítalavistina, Palli er svo væntanlegur heim í kvöld.


Sjúklingamisrétti

 

Hér er allt með kyrrum kjörum. Átti erfiðan dag í gær, vaknaði um miðja nótt með slæma verki sem verkjalyfin náðu ekki að drepa að fullu. Þetta þýddi að ég var ekki komin í gang fyrr en tvö um daginn og náði að fara í stuttan göngutúr til Egils og Rögnu en þar var allur vinahópurinn saman kominn til að hjálpa þeim að mála húsið að utan. Sannkallaður kærleikur þar á ferð.

Palli kom heim úr veiðitúrnum með 5 fiska og er núna að þvælast  um Danmörku. Dagurinn í dag er búinn að vera fínn, ég er að passa Eydísi og Gabríel því það er starfsdagur í skólanum. Fékk heimsókn frá Karítas sem ætla greinilega að hugsa vel um mig. Þægilegt að geta rætt ástandið við þær og fengið ráð, þær sjá líka um að panta lyf og ákveða skammtastærðir, þær eru líka búnar að panta heimilishjálp fyrir mig frá TR og skilaboðin frá þeim eru að ég eigi ekki að gera neitt annað en að njóta lífsins og taka góðan tíma í að hvíla mig og forðast of mikið álag. Mér líður bara eins og prinsessunni á bauninni.  

Annars sá ég smá klausu í blaðinu í dag frá nýjum formanni læknafélags Íslands sem leggur til að Alþingi skipi umboðsmann sjúklinga til að aðstoða veikt fólk við að ná fram rétti sínum í frumskógi tryggingakerfisins sem hún segir að sé óskiljanlegt fyrir fullfríska hvað þá fyrir sjúka.  Í framhaldi af þessu datt mér í hug hvort þessar endalausu tekjutengingar og þá sérstaklega við maka geti flokkast sem mannréttindabrot. Þú hlýtur að vera sjálfstæður einstaklingur hvort sem þú ert frískur eða veikur og því undarlegt að taka þann rétt af fólki ef það verður óvinnufært og færa alla þeirra framfærslu yfir á makann, þ.e.a.s. ef hann er fyrir hendi.  Mér finnst þetta jafn órökrétt og kynjamisrétti. Það eru til lög og reglur um kynjamisrétti en engin lög um mismunun heilbrigðra og sjúkra. Spurning hvernig þessu er háttað í nágrannalöndunum?  Einnig spurning hvort hægt væri að fara með svona mál fyrir mannréttindadómstólinn?!!   Eina vitið væri að þegar sjúkrasjóður verkalýðsfélaganna er fullnýttur tæki ríkið við á sömu forsendum launalega séð.  Ef fólk getur svo farið út að vinna hluta úr degi myndu þær tekjur dragast frá bótunum sem tryggir fólki alltaf þau laun sem það hafði fram að örorkumati og virkar þá  jafnframt sem hvatning til vinnu.

Á morgun er svo heimsókn til læknisins, aftöppun og lyfjagjöf.  Langar svo að fara til Rómar 12. okt. en það verður að ráðast af stöðu blóðtappans og því hvort það verði ennþá laust pláss í flugvélinni. Kemst ekki nema með leyfi læknisins.


Margt smátt

 

Búin að eiga mjög góða daga síðan ég kom af spítalanum. Rólegt og þægilegt en samt nokkuð viðburðarríkt. Ég svaf lengi í morgun og fór svo í smá búðartúr. Ég er mest í ullarsokkum þessa dagana vegna þess að tásurnar eru í myndastyttuleik og hreyfast lítið sem ekki neitt, þetta orsakar hægt blóðstreymi og tilfinningin í tánum er eins og þær séu frosnar. Ég fór og fjárfesti í svörtum ullarsokkum svo það sæist síður í opnum skóm að skvísan væri ekki í fínum nælonsokkum.  Eftir ullarsokkakaupin gekk ég alveg óvart framhjá fatabúð í Glæsibæ og fyrir einhverja óútskýrða galdra sogaðist ég inn í búðina og fór að þreifa á fötum. Mátaði gallabuxur sem pössuðu og keypti þær.  Ég verð að viðurkenna að sniðið opinberar algjörlega mína rýru spóaleggi en ávinningurinn er sá að ég lít ekki út eins og ég sé að missa niður um mig fötin.  Mamma fékk áfall þegar hún sá mig og Rakel tengdadóttir fannst ég með aðeins of mikið bil á milli læranna. En hvað getur maður gert, fórnarlamb óforskammaðs sjúkdóms sem svífst einskis til að ná yfirhöndinni og étur mann upp að innan sem utan. Ég passa mig reyndar að vera alltaf í einhverju síðu niður fyrir rass og ermalöngu til að gestir og gangandi fái ekki ennþá frekari áföll að sjá hrörnunina sem krabbameinssjúklingar oft á tíðum lenda í.

En það gerðist nú fleira skemmtilegt, ég fór og heimsótti Sigrúnu og Yngvar og hitti þar Fjólu Maríu hans Héðins og við fórum að sjá Veðramót, mjög góð mynd, vel leikin og alls ekki mynd um Breiðavíkurmálin sem hafa verið í umfjöllun undanfarið.  Efnið um allt aðra hluti. Svo bauð ég Ásgeiri og Rakel  út að borða. Þau eru alltaf jafn fyndin. Þau komu hlaupandi inn um dyrnar og sögðu farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu verið að keyra Grensásveginn á leiðinni til mín þegar þau mæta löggunni, Ásgeir vissi að hann væri á of miklum hraða og sér að löggan snýr við á eftir honum, án þess að setja blikkljósin á. Hann ákveður að beygja á ljósunum inn í Hæðargarðinn sem er gatan fyrir ofan Bakkagerðið, leggja þar bak við stóran bíl, stökkva út og hlaupa niður göngustíginn til mín. Þetta heitir að leika á lögguna. Hann á nefnilega að fara í ökumat á morgun hjá kennaranum til að fá endanlegt ökuskírteini. Ökukennarinn hringdi í hann og boðaði hann í tímann og sagði að ef hann fengi sekt þá daga sem eftir eru fram að mati þá ætti hann ekki að borga fyrr en eftir ökumatið því punktarnir koma ekki inn í kerfið fyrr en eftir greiðslu. Þessi grey mega ekki vera með neina punkta til að fá endanlegt ökuskírteini og munur að fá svona góðar leiðbeiningar hjá kennaranum. 

Annars var keyrt aftan á mig í dag. Ég þurfti að snarstoppa og lítill jeppi nuddaðist upp á stuðarann hjá mér. Við skoðuðum skemmdirnar sem voru litlar en samt eitthvað sem þarf að sparsla og mála yfir á bílnum mínum og fylltum út einhverjar undarlegar skýrslur sem við vissum ekkert hvernig ætti að fara með og svo fór hver til síns heima. Þarf að tala við tryggingafélagið um þetta eftir helgi.  Fór á videoleiguna í gær eftir matarboðið hjá Rögnu og Agli og ætlaði að taka bíómynd á leigu en fór heim með undarlega heimildarmynd sem ég hef aldrei heyrt neitt um, hún heitir   What the Bleep Do We Know    http://www.whatthebleep.com/whatthebleep/

Athyglisverð mynd um mátt hugarins, skammtafræði, aðrar víddir o.fl. o.fl.  Bæði leikin og með viðtölum við fræðimenn. Fín mynd fyrir pælara og fólk eins og mig sem trúi því að við séum í fangelsi tilbúins raunveruleika sem er afmarkaður af okkar eigin hugsunum.  

Gott í bili, endilega prófið að taka undarlega dvd diska á leigu það gæti komið skemmtilega á óvart.


Komin með sprautupróf

Af síðustu færslu mætti draga þá ályktun að ég væri í stofufangelsi þegar Páll er heima en svo er auðvitað ekki, ég verð bara miklu duglegri að sinna mínum skemmtiefnum þegar hann er það ekki. Tek yfirleitt GÓÐAR dvd myndir á leigu og reyni þannig að ná upp því sem ég hef misst af síðustu mánuði. Svo líður mér alveg sérlega vel að fá svona húsmæðraorlof og þurfa ekki að elda og hafa þetta bara allt saman eftir mínu eigin höfði.

Ég fékk heimsókn frá Karítas í gærkvöldi og aftur í morgun og lærði að sprauta mig sjálf með blóðþynningaryfinu. Það er auðvitað bara minnsta mál, enda daman úr sveit og ýmsu vön. Núna á að prófa að bæta steraskammti við hin hin lyfin til að reyna að stoppa þessa vökvasöfnun. Hjúkkurnar hjá Karítas ætla líka að fylgjast með verkjastillingunni og hjálpa mér að ákveða stærð verkjalyfjaskammta.

Ég er búin að bóka....loksins en hef inn á milli lagt mig örlítið. Er eitthvað þreytt og syfjuð en í kvöld fer ég í mat til Egils og Rögnu og reyni svo að horfa á eina góða mynd í kvöld. Svo stefni ég á að vera dugleg að hreyfa mig um helgina, það er bráðnauðsynlegt til að ná upp þreki og styrkja vöðvana sem eftir eru. Ætti að geta gengið eitthvað um hverfið fyrst fæturnir eru að skána.

Hitti vini mína á Ítalíu í gær og við sátum og átum og spjölluðum fram yfir tíu. Peter hefur ekkert breyst og bauð mér enn og aftur að nýta mér íbúðina sem hann á í Berlín. Mig langar mikið að skoða hvort ég komist beint til Berlín og geti eytt nokkrum dögum þar, hef aldrei komið þangað. Sé til hvort ég get platað kallinn í smá frí ......með mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband